16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

141. mál, smíði brúar á Ölfusá

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess að til tals kom samstarfsyfirlýsing stjórnar Ólafs Jóhannessonar, en það stendur, með leyfi forseta:

„Áhersla verður lögð á að leysa samgönguerfiðleika staða sem eiga af þeim sökum við vanda að glíma í framleiðslu svo og í félagslegum samskiptum.“

Þetta fengum við Alþfl.-menn sett inn í þá samstarfsyfirlýsingu og það var Lúðvík Jósepsson, þáv. hv. þm., sem sagði: „Þetta þýðir víst eitt stykki brú.“

En ég vil bæta því við, að Halldór E. Sigurðsson, fyrrv. samgrh., lýsti því yfir að þessi brú yrði byggð og hún yrði byggð í beinu framhaldi af Borgarfjarðarbrúnni.

Það komu fram hugleiðingar um hve mikið brúin mundi kosta. Síðasta áætlun, að vísu lausleg, sem ég veit um, — hún er nú líklega orðin hálfs árs gömul eða þar um bil, — var 3000 millj. kr. og þá var meðtalinn upphleyptur og malbikaður vegur frá brúnni alveg að Eyrarbakka og að Þrengslavegi hinum megin.