16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

141. mál, smíði brúar á Ölfusá

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Því miður var ég fjarstaddur þegar þessar umr. hófust og tapaði af þeim, en ég fagna því, að minnst er á þetta mál, og þakka hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni fyrir að vekja máls á því.

Því er ekki að leyna að þetta brúarmál er lengi búið að vera á döfinni og um áhuga Sunnlendinga allra fyrir þessu máli þarf ekkert að efast. Hann er mikill og við hefðum sannarlega viljað að þessum málum hefði meira þokað, þar á meðal í ráðherratíð hv. fyrirspyrjanda, sem gaf stórar yfirlýsingar um brúarmálið, en því miður varð minna úr framkvæmdum á þeim tíma sem og síðan.

Það hefur verið vakin hér athygli á orðum forsrh. Um þau ætla ég ekki að segja annað en það, að ég held að hæstv. ráðh. hljóti að hafa átt við vegáætlun þegar hann mælti þessi orð. Ég vildi mega vænta þess, að algjör samstaða verði meðal þm. Sunnlendinga um að á vegáætlun í hönd komandi, þegar verður tekið til hennar, verði að sjálfsögðu veitt nægt fjármagn til að undirbúningi öllum og allri hönnun geti lokið þannig að alþm. og ríkisstj. geti síðan hið allra fyrsta tekið fullnaðarákvörðun um að í þessa brúargerð verði ráðist.