16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

362. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Um þessar mundir er margur maðurinn mjög hugsandi út af húsnæðismálum og sérstaklega með tilliti til lánamála húsbyggjenda. Það er nú ekki nýtt að vísu. Húsnæðismálin eru allajafna mjög á dagskrá og þau eru fyrst og fremst á dagskrá vegna þess að það skortir fjármagn til að sinna þeim miklu og nauðsynlegu verkefnum sem eru fyrir hendi. En þó að þetta sé ekki nýtt mál liggur það núna fyrir með nokkuð óvenjulegum hætti. Aldrei hafa menn verið jafnhugsandi út af þessum málum og séð jafnmikla vá fyrir dyrum í þessum efnum og nú. En það er dálítið sérstætt tilefni til þessa, vegna þess að því veldur ný löggjöf um Húsnæðismálastofnun ríkisins og yfirlýstur vilji hæstv. ríkisstj. í sambandi við fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins.

Það, sem skeði með setningu hinna nýju laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. lögum nr. 51/1980, var að skertir voru tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins. Alltaf þegar þessi lög hafa verið endurskoðuð hefur verið leitast við að stíga spor í þveröfuga átt, þ.e. að auka og styrkja tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins. Það hefur ekki verið að ófyrirsynju vegna þess að Byggingarsjóður ríkisins hefur fjármagnað um 90 eða yfir 90% af öllum íbúðarhúsabyggingum í landinu á undanförnum árum og áratugum þannig að það hefur verið mest um vert í þessum efnum að efla Byggingarsjóð ríkisins.

Þegar ég tala um að tekjustofnar hafi verið skertir á ég við þá fyrirætlun núv. ríkisstj. að leggja ekki 2% af launaskattinum til Byggingarsjóðs ríkisins, sem gera núna a.m.k. 15 milljarða. Samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að veita af þessu fé aðeins 2.7 milljarða kr. Um leið og hæstv. ríkisstj. stendur fyrir þessum aðgerðum er hún ábyrg fyrir þeirri breytingu á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins, að verkefni Byggingarsjóðs ríkisins eru stórlega aukin frá því, sem áður var, um leið og tekjustofninn er skertur. Það er þess vegna ekki von á góðu. Og það blasa við margs konar erfiðleikar í ýmsum samböndum vegna þessa máls. Með tilliti til þessa hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. á þskj. 152. Fsp. er í fimm liðum.

Í fyrsta lagi er spurt að því, hvaðan Byggingarsjóði ríkisins verði útvegaðar 1200 millj. kr. til að leysa vanda sjóðsins fram til næstu áramóta. Þetta vandamál kom upp snemma í síðasta mánuði og var þá blaðamál m.a. og mikið áhyggjuefni stjórnarmanna í Húsnæðisstofnun ríkisins og því er spurt að þessu.

Í öðru lagi er spurt að því, hvort aflað hafi verið aukins fjár í Byggingarsjóð ríkisins á árinu 1980 til að mæta þörfum nýrra útlánaflokka sjóðsins án þess að dregið sé úr fjárstreymi til almennra íbúðalána.

Í þriðja lagi er spurt að því, hvað sé áætlað að hámarksupphæð almennra íbúðalána hækki mikið á árinu 1981 í hlutfalli við byggingarkostnað. Þetta er spurningin um hvað er áætlað að okkur miði áfram í þessum efnum, því að það er grundvallaratriði hvað mikið er lánað í hlutfalli við byggingarkostnað.

Í fjórða lagi er spurt um hvernig Byggingarsjóði ríkisins verði tryggt fjármagn til að mæta þeim tekjustofni sem sjóðurinn er sviptur af launaskatti. Ekki þarf að efast um mikilvægi þessa þáttar.

Að lokum er spurt að því, hvernig ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins verði skipt milli útlánaflokka á árinu 1981. Það er sérstök ástæða til að spyrja að þessu með tilliti til hinna auknu verkefna sem Byggingarsjóði ríkisins eru falin með hinum nýju lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.