16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

362. mál, húsnæðismál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég ætla að halda mig við þá fsp. sem hv. þm. hefur borið hér fram, þó margt mætti segja um inngangsaths. hans sem styðjast við fátt annað en óskhyggju stjórnarandstöðunnar sem oft kemur fram í garð núv. ríkisstj. en rætist seint, a.m.k. ekki enn.

Fyrst er spurt, hvaðan Byggingarsjóði ríkisins verði útvegaðar 1200 millj. kr. til að leysa vanda sjóðsins fram til næstu áramóta.

Svar: Fjárhæð sú, sem nefnd er í 1. lið fsp., bendir til þess, að spurt sé í tilefni af blaðafregn í Morgunblaðinu um að Byggingarsjóð ríkisins vanti 1200 millj. kr. frá lífeyrissjóðunum fyrir áramót til að geta staðið við venjubundnar lánveitingar á þessu ári. Svarið er því, að umrædd fjárhæð kemur frá lífeyrissjóðunum. Meira en helmingur fjárhæðarinnar var kominn 28. nóv. s.l.

Í öðru lagi er spurt: Hefur verið aflað aukins fjár í Byggingarsjóð ríkisins á árinu 1980 til að mæta þörfum nýrra útlánaflokka sjóðsins án þess að dregið sé úr fjárstreymi til almennra íbúðalána?

Svar: Með fjárveitingum á fjárlögum þessa árs og á lánsfjáráætlun var allvel séð fyrir fjármagnsþörf Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári, enda hefur húsnæðismálastjórn þegar veitt lán til umsækjenda í hinum hefðbundnu lánaflokkum með sama hætti og gert hefur verið á síðustu árum og vantar þar ekkert á. Til þess að mæta þörfum nýrra útlánaflokka var áætlaður 1 milljarður kr. á útlánaáætlun sjóðsins fyrir þetta ár. Ekki hefur þeirri fjárhæð allri verið varið til nýrra lánaflokka, enda voru reglugerðir um þá ekki gegnar út fyrr en í okt. s.l. Þrír nýir lánaflokkar hafa þó verið opnaðir til útlána á þessu ári, en það er til hjúkrunarheimila og dagvistarstofnana, til útrýmingar á heilsuspillandi íbúðum og til orkusparandi endurbóta á eldra húsnæði.

Samkv. yfirliti um Byggingarsjóð ríkisins frá 18. nóv. s.l. og samþykktum húsnæðismálastjórnar sama dag verða útlán sjóðsins, sem koma til greina á þessu ári, sem hér segir:

Leigu- og söluíbúðir sveitarfélaga 4062 millj. kr., leiguíbúðir fyrir aldraða og öryrkja 207 millj. kr., verkamannabústaðir 1041 millj. kr., ýmsir framkvæmdaaðilar 1395 millj., framkvæmdanefndaríbúðir 322 millj., nýbyggingarlán, þ.e. F-lán, 1., 2. og 3. hluti, 9321 millj., lán til kaupa á eldri íbúðum 5034 millj., lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis185 millj., vistheimili og dagvistarstofnanir 200 millj., til orkusparandi endurbóta á eldra húsnæði 70 millj. Samtals er hér um að ræða útlán upp á 22 milljarða kr.

3. spurning: Hvað er áætlað að hámarksupphæð almennra íbúðalána hækki mikið á árinu 1981 í hlutfalli við byggingarkostnað?

Svar: Samkv. hækkun byggingarvísitölunnar og venju undanfarinna ára ættu lán til íbúða að hækka um næstu áramót úr 8 millj. á hverja nýja íbúð í 12.1 millj. Um næstu áramót kemur hins vegar til framkvæmda veruleg breyting á þessu ákvæði. Frá þeim tíma eiga lánin að vera visst hlutfall af byggingarkostnaði svonefndrar staðalíbúðar samkv. hinum nýju lögum, nr. 51/1980, sem sett voru á síðasta Alþingi. Auk þess eru í þeim lögum ákvæði um að lánin skuli hækka fjórum sinnum á ári samkv. breytingum sem verða á vísitölu byggingarkostnaðar í landinu. Þá kemur einnig til framkvæmda um áramótin það ákvæði, að lánin verða miðuð við fjölskyldustærð umsækjenda. Verða því margvíslegar breytingar á fjárhæð lána til nýrra íbúða samkv. hinum nýju lögum. Tillögur um framkvæmd þessara ákvæða eru nú í mótun hjá húsnæðismálastjórn og koma til ákvörðunar í félmrn. fyrir áramótin.

4. spurning: Hvernig verður Byggingarsjóði ríkisins tryggt fjármagn til að mæta þeim tekjustofni, sem sjóðurinn er sviptur af launaskatti?

Svar við þessari spurningu: Í frv. til fjárl. fyrir árið 1981 er framlagríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins áætlað 4.3 milljarðar kr. Eigið fé sjóðsins er áætlað 9.2 milljarðar og eigið fjármagn því alls 13.5 milljarðar kr. Þá hefur sjóðurinn fjármagnað skyldusparnaðinn, sem áætlað er að nemi 3.4 milljörðum kr. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur jafnan keypt skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins fyrir fjárhæð sem nemur framlagi ríkisins til trygginganna. Er það áætlað 3.6 milljarðar kr. á næsta ári. Til viðbótar þessum tekjustofnum sjóðsins er treyst á skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna, en þeir hafa heitið því í samningum að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins fyrir 20% af ráðstöfunarfé sjóðanna árlega. Hafa flestir sjóðanna staðið við þá samninga, þó að nokkuð vanti á að allir lífeyrissjóðir hafi staðið við skyldu sína í þessum efnum.

Í skýringum með fjárlagafrv. ríkisstj., sem nú er til meðferðar á hv. Alþingi, er gert ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins hafi á árinu 1981 30 milljarða til ráðstöfunar í útlán og á það að vera viðunandi þegar haft er í huga að með hinum nýju lögum eru nokkur verkefni færð yfir til Byggingarsjóðs verkamanna, en hann fær verulega auknar tekjur á næsta ári. Alls verður varið um 40 milljörðum kr. til húsnæðislána á næsta ári úr báðum húsnæðislánasjóðunum, en í ár er upphæðin 24 milljarðar kr.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að Byggingarsjóður verkamanna hafi um 10 milljarða kr. í framlag úr ríkissjóði af launaskatti, en á þessu ári nam framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna um 500 millj. kr. Hér er því um að ræða verulegt stökk. Orðalag fsp. um að Byggingarsjóður ríkisins hafi verið sviptur tekjustofnum er viljandi vegna þess að hluti af þessum tekjustofnum var fluttur yfir til Byggingarsjóðs verkamanna þar sem lögð er veruleg áhersla á að stórauka framkvæmdir við félagslegar íbúðabyggingar í landinu.

5. spurning: Hvernig verður ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins skipt milli útlánaflokka á árinu 1981? Svar: Vinna er ekki hafin við gerð útlánaáætlunar fyrir Byggingarsjóð ríkisins á næsta ári. Það hefur ekki þótt tímabært á meðan ekki liggur endanlega fyrir hve mikið fjármagn sjóðurinn hefur til ráðstöfunar á næsta ári, en það liggur fyrir alveg á næstunni, og þegar það liggur fyrir mun húsnæðismálastjórn gera tillögur til félmrh. um skiptingu þess fjármagns á lánaflokka sem þarna er um að ræða, þ.e. 30 milljarða kr.

Þeirri spurningu, sem hv. þm. lagði megináherslu á, nr. 3, í sambandi við hlutfallið af byggingarkostnaði, er einfaldlega ekki hægt að svara núna vegna þess, að reglugerð um staðalíbúðir hefur ekki verið sett, og líka vegna þess, að nú á að miða við fjölskyldustærð í öllum tilvikum þannig að sums staðar getur orðið um að ræða mun hærra hlutfall af byggingarkostnaði en nú er þegar um er að ræða mjög litlar fjölskyldur. Ég treysti mér þess vegna ekki til að svara þessari spurningu í einstökum atriðum, en vænti þess, að hv. þm. taki svör mín og skýringar gild. Annað get ég ekki sagt um málið á þessu stigi.