16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

362. mál, húsnæðismál

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á ummælum hæstv. ráðh., sem kemur hér upp og ætlar að róa þm. með því að það sé hægt að tala um húsnæðismálin síðar. Fyrir örfáum dögum var 2. umr. fjárlaga. A.m.k. þrír, ef ekki fjórir hv. þm. fjölluðu mjög ítarlega um húsnæðismálin og lýstu áhyggjum sínum. Hæstv. fjmrh. kom, þótt seint væri, til fundar um kvöldið, en hæstv. félmrh. lét hvergi sjá sig í þingsölum. Svo kemur hann upp, þegar hann er spurður, og segir: Við getum rætt þetta einhvern tíma síðar. — Slík framkoma á ekki að geta átt sér stað. Og það er hart að þurfa á fimm sinnum styttri tíma en hæstv. ráðh. hefur að etja kappi við hann í þessum umr.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að upplýsingarnar, hrakspárnar, eru frá efnahagsstofnun sjálfrar ríkisstj., Þjóðhagsstofnun. Þær sendi Þjóðhagsstofnun Húsnæðisstofnun og þaðan bárust þær félmn. Nd. hv. Alþingis. Þetta eru staðreyndir sem þar liggja fyrir, viðurkenndar af öllum mönnum sem geta viðurkennt hvað sé satt og hvað sé rétt. Hins vegar er varla hægt að sjá að hæstv. ráðh. sé í þeim hópi.

Annað mál eru vextirnir. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðh. sem hann sagði í sambandi við þá. Það er auðvitað sama fjármagnið sem er tekið úr lífeyrissjóðunum og fært yfir í húsnæðislánakerfið með þessum hætti.

Og það er eitt að lokum. Það á enga stoð í lögum að taka fjármuni, sem um var samið á sínum tíma og er lögbundið 2% ofan á laun á Íslandi til að setja í húsnæðislánakerfið, og nota þá til allt, allt annars, eins og núv. hæstv. ríkisstj. leyfir sér að gera. Þessu verður að koma á framfæri við þjóðina, og þetta verður fyrr eða síðar að komast inn í höfuðið á hæstv. ráðh.