16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svörin.

Ég held að hérna höfum við notað afskaplega dýra aðferð til að leysa miklu minna vandamál. Það er sagt að það vanti svo og svo mikið af fiski. Það er rétt. En það vantar ekki fisk nema hluta úr ári, þannig að verulegan hluta ársins verður þessi togari gerður út með siglingar eða eitthvað því um líkt í huga. Það verður ekki hægt að taka á móti afla skipsins nema hluta úr ári á þessum stað. Þarna er verið að kaupa rækjutogara og eytt í það hundruðum millj. kr. að breyta honum í venjulegan togara á sama tíma og við erum að breyta venjulegum togara hérna heima í rækjuskip. Það virðist ekki mikil skynsemi liggja þar á bak við. Ólíkt hefði verið ódýrara að leysa þetta með bátum en með togarakaupum. Þarna virðist í reynd hver einasta króna lánuð og áhætta eiganda í reynd engin.

Mitt mat er að það eigi engin skip að kaupa til landsins um einhvern tíma, t.d. í 5 ár eða svo. Aftur á móti er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd, að bátaflotinn er orðinn gamall og úreltur, t.d. á Suðurlandssvæðinu. Í Vestmannaeyjum hefur bátum t.d. fækkað um 14 núna á tiltölulega stuttum tíma. Ég held því að við eigum að nota afkastagetu íslenskra skipasmíðastöðva til að endurnýja bátaflotann, ekki togaraflotann heldur bátaflotann, og leggja þeim skipum sem eru úrelt og óboðleg sjómönnum nú á tímum, gömul og úrelt og þyrftu mikinn viðgerðarkostnað. Ef við hefðum þetta þannig mundi flotinn fara minnkandi þrátt fyrir að skipasmíðastöðvarnar framleiddu skip, þ.e. bátana.

Það er hugsanlegt líka, af því að það er alltaf verið að skamma okkur fyrir að við stöndum okkur illa í þróunaraðstoð, að eitthvað af þeim skipum sem eru okkur úrelt geti komið a,ð notum einhverjum vanþróuðum þjóðum úti í heimi. Ég skal ekkert um það fullyrða, en það mætti vel athuga það mál.

Úreldingarsjóð þarf aftur á móti að efla og við þurfum að endurnýja bátaflota okkar, sem er orðinn margra áratuga gamall að meðaltali.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið, en ég tel að þarna hafi verið mjög illa að málum staðið. Fjöldinn allur af sjávarplássum vill kaupa togara, en staðreyndin er sú, að togarar eru of margir í landinu. Auðvitað verður einhver að hafa yfirstjórn. Það verður einhver að hugsa um heill alþjóðar, en ekki bara einstakra byggðarlaga.