16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Röksemdin fyrir því, að þessi lausn var fundin, er sú, að það vantaði afla á þá tvo staði sem eiga að fá aflann frá þessum togara. Ég held að við verðum að hafa það í huga, að það er miklu verra við að eiga þann skort, sem er á fiski í sjónum hér í kringum landið, heldur en í frystihúsunum á þessum ákveðna stað. Ég er hræddur um að þessi röksemd sé harla veigalítil þegar menn skoða hana ofan í kjölinn og kanna með sama hætti hvernig fara mundi ef við notuðum þessa röksemd alls staðar á landinu þar sem hægt er að koma við auknu atvinnulífi.

Það hefur komið fram, að sú lífsskerðingarstefna, sem lýsir sér í þessum togarakaupum þýðir ekkert annað en það, að aðrir togarar á landinu þurfa að draga saman milli 4 og 6 daga á þorskveiðum hjá sér. Ofan á þetta bætist síðan það, að nú er vitað mál og búið að vera um nokkurn tíma að loðnuflotanum verður beitt á þorskveiðarnar upp úr áramótunum, þannig að það leggst allt á eitt í þessu máli, sem sýnir fram á hve vitlaus áhætta þetta er ofan á allt fjármálahneykslið.

En það, sem er kannske merkilegast í þessu sambandi, er hvernig Framkvæmdastofnunin kastar í fjölmiðlunum boltanum til ríkisstj. og ríkisstj. aftur til Framkvæmdastofnunarinnar. Ég held að þetta skólabókardæmi þurfi að gera upp við þjóðina. Ég sjálfur vona það virkilega, að útgerðin á þessum stað verði heimamönnum til góðs úr því sem komið er, og ég vona að þetta skip afli vel og að byggð aukist á þessum stöðum. En þetta mál er þannig vaxið, að það hefur ekki bara áhrif á þessum stöðum, heldur um land allt, til skerðingar á lífskjörum fólks. Ég vil þess vegna skora á hæstv. ráðh. — af því að hann hefur öll gögn í höndum- að láta birta opinberlega í blöðum öll bréf, öll skjöl, allar bréfaskriftir, sem hafa farið á milli hæstv. ríkisstj. og Framkvæmdastofnunar ríkisins, og yfirlýsingar og ákvarðanir um niðurstöður í þeim málum. Ef það væri gert væri kannske möguleiki að þetta mál gæti orðið okkur sú kenning, sem við þurfum á að halda.