16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég er sannfærður um að hér er á ferðinni eitt mesta fjármálahneyksli sem átt hefur sér stað í langan tíma. Rætt hefur verið um það hér, að Framkvæmdastofnun hafi átt stóran hlut að því, að þessi ákvörðun var tekin. Það má vel vera að menn beri það fyrir sig. Hins vegar vil ég greina frá því, að innan Framkvæmdastofnunar var verulegur ágreiningur um það, hvað skyldi samþykkja í þessum efnum, og þegar lögð var fyrir umsögn byggðadeildar um þetta mál, þá létum við í ljós, bæði ég og Ólafur G. Einarsson, að við teldum algerlega órannsakað hvort ekki væri hægt að leysa atvinnumál þessara byggða, sem vissulega eiga við vandamál að etja, á annan og hagkvæmari hátt.

Við sögðumst vera andvígir þessari ályktun og greiddum henni ekki atkv. Ég held að hvorugur okkar hafi gert ráð fyrir því, að þessi umsögn yrði síðan notuð sem aðalröksemd fyrir því, að þessi kaup eru gerð, en svo er reyndar gert. Á fundi í Framkvæmdastofnun síðar, þegar ljóst var að ríkisstj. hafði ákveðið að kaupa togarann og leitað var eftir fyrirgreiðslu Framkvæmdastofnunar, þá lét ég bóka sérstaklega að ég væri þessum kaupum andvígur, sérstaklega vegna þess að það væri vitað mál að fjölgun togara hefði einungis í för með sér rýrnandi kjör fyrir sjómenn og útveginn allan. Það segir sig sjálft, að til þess er ætlast að Framkvæmdastofnun láni 20% af kaupverði, en síðan taki ríkissjóður að sér að fjármagna hinn hlutann, þ.e. 80%.

Tíminn er því miður útrunninn svo að varla er hægt að fara í þetta að nokkru gagni, en ég vildi að þetta kæmi fram til þess að menn áttuðu sig á því, að það var alls engin eining um það í Framkvæmdastofnuninni að útkljá málin eins og gert var. Ég tel að ályktun byggðadeildar hafi ekki verið ígrunduð sem skyldi. Það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir.