16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir það sem kom fram hjá ýmsum sem hér hafa talað og m.a. hv. fyrirspyrjanda, að togaraflotinn er of stór fyrir þann þorskafla eða botnfiskafla sem við getum leyft. Þetta er alveg rétt. Ég vil hins vegar leggja á það ríka áherslu, að það ber að stuðla að því að togaraflotann megi endurnýja á eðlilegan hátt. Ég vil þó lýsa undrun minni á því, að þegar menn tala um, að togaraflotinn sé of stór, og hneykslast á því, að togari skuli koma á þetta svæði, þá minnist enginn á þá sex togara sem eru í smíðum innanlands. Þeir eru allir viðbætur við flotann, — allir, hver einasti.

Það var upplýst á mjög athyglisverðri ráðstefnu skipasmíðastöðvanna s.l. föstudag, að togari sá, sem verið er að smíða fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur, muni kosta um 5 milljarða. Og ég vil alveg sérstaklega taka undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., að ef smíða á skipin innanlands — sem ég tek undir að er ákaflega æskilegt — þá er útilokað að færa það iðnaðarvandamál yfir á útgerðina. Það er útilokað mál. Ég vil hins vegar að það komi fram, að fulltrúar skipsmíðastöðvanna halda því fram að þessi samanburður sé ekki réttur, og hafa fært ýmis rök að því, að skipasmíði innanlands sé ekki að ráði a.m.k. dýrari en erlendis. Hins vegar get ég upplýst það, að ágætir útgerðarmenn úr Vestmannaeyjum, sem ég veit að hv. fyrirspyrjandi þekkir vel, hafa verið hjá mér oftar en einu sinni og sækja það mjög stíft að fá að láta smíða þrjá báta erlendis. Þeir halda því fram mjög ákveðið, að verð á þessum bátum hér innanlands sé um 80–90% hærra en þeir fá erlendis. Ég hef óskað eftir því, að þeir láti fara fram samkeppnistilboð svo að menn geti séð í raun og veru hver þessi verðmunur er. Reynt hefur verið að gera verðsamanburð en það er ákaflega erfitt á grundvelli þeirra lýsinga sem liggja fyrir.

Ég hef gaman af að vita hvort hv. fyrirspyrjandi mæli með því, að þessir ágætu útgerðarmenn kaupi sín skip innanlands ef kostnaðarmunurinn er svona mikill. Þeir tjá mér að þeir treysti sér alls ekki til þess. Ég efast um að rétt sé að þvinga þá til slíks. En ég vil leggja á það áherslu, að hvort sem togari kemur erlendis frá, ef enginn fer í staðinn, eða hann er smíðaður innanlands, þá er það viðbót við flotann.

Smíðin innanlands hefur farið fram eftir nánast sjálfvirkum reglum. Menn hafa komið með 15% kostnaðarins sem eigið fé. Þannig voru þrír togarar samþykktir í fyrra og þrír samþykktir nú. Hv. fyrirspyrjandi spurði hvort mér væri kunnugt um togara sem ætti að kaupa frá Frakklandi til Vestfjarða. Það er mér ekki, ég hef ekki heyrt á hann minnst. Hins vegar virðist vera alveg endalaus áhugi á því að kaupa togara, því að það er stöðugur straumur slíkra málaleitana og menn hafa varla við að hafna alls konar hugmyndum um togarakaup. Er það furðulegt þegar maður heyrir um rekstrarafkomu togaranna, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. áðan og ég get reyndar rakið fjölmörg önnur dæmi um.

Ég verð nú að segja það, að ég er dálítið undrandi á því, að hv. þm. Kjartan Jóhannsson skuli halda áfram að kasta grjóti úr sínu stóra glerhúsi. Í hans stjórnartíð samþykkti Fiskveiðasjóður þrjá togara til smíði innanlands, og hv. þm. samþykkti að togari, sem búið var að selja úr landi, yrði fluttur inn til Keflavíkur. Ég efast ekki um að hv. þm. hefur gert það vegna þess að hann taldi skort á hráefni til þess svæðis. Ég veit það reyndar, því að um þetta var mikið rætt í ríkisstj. og hann taldi þörfina mjög mikla fyrir aukið hráefni til Keflavíkur. Og ég dreg enga dul á það, að ég féllst á það með hv. þm. þegar hann var sjútvrh.

Það er dálítið skrýtið að heyra hv. þm., sem sitja í stjórn Framkvæmdastofnunar, sverja af sér alla aðild að þessu máli. Satt að segja hélt ég að Framkvæmdastofnun hefði haldið nokkuð vel á þessu máli. (Gripið fram í.) Já, kannske einstakra þm., en ég tala um stjórnina sem heild. Og ég held að stjórn Framkvæmdastofnunar hafi ekkert að skammast sin fyrir í þessu máli. Stjórn Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóður tóku málið ítarlega fyrir, og ef við eigum að treysta þeirri stofnun til nokkurs, þá er það þó að skoða byggðavanda. Ég er líka hér með í fórum mínum skýrslu byggðadeildar og ég sé ekki annað en þar séu færð rök fyrir , að það verði að færa togara inn á svæðið. Ég las upp áðan hluta af ályktun stjórnar stofnunarinnar og ég sé ekki að stofnunin þurfi að skammast sin fyrir það sem hún hefur gert í þessu máli. Á grundvelli þessarar samþykktar og þeirrar athugunar, sem mér var kunnugt um að hefði farið fram inni í Framkvæmdastofnun lengi á atvinnumálum Þórshafnar, ákvað ég að styðja þetta mál. Það er byggt á þeim niðurstöðum, sem fengust þar inn frá, og að mínu mati af þeim mönnum sem gerst þekkja til, m.a. undirskrifað af manni sem þekkir mjög vel til togaraútgerðar.

Ég ætla ekki að segja hverjum er hér um að kenna, eins og menn tala um. Kannske gætu þeir sagt: Hverjum er hér að þakka? Einhverjir mundu e.t.v. segja það. Hver á upphafið? Þm. fara fram á að þetta sé keypt, Framkvæmdastofnun vinnur þetta mjög vel. Ríkisstj. fellst á tillögur Framkvæmdastofnunar. Ég kannast hins vegar ekki við það, að í samþykkt ríkisstj. hafi neitt verið sagt um að lána 100%. Framkvæmdastofnun var falin forsjá málsins. Það má vel vera — ég efast ekki um að það sé rétt hjá hv. 6. þm. Suðurl. — að þeir hafi skilið málið svo. En ekkert var um það sagt í samþykkt Framkvæmdastofnunar. Ég vil að lokum taka undir það, og það er einlæg von mín, að útgerð þessa togara gangi vel og verði byggðarlaginu til vaxtar og eflingar. En ég get vel játað að ég hef vissar áhyggjur af því máli. Ég hef áhyggjur af því, að mér þykir togarinn orðinn nokkru dýrari en ég hefði talið æskilegt að hann væri. Hins vegar skal ég viðurkenna það, að ég hef ekki fylgst svo náið með hvernig þessi togari hefur aukist í verði, t.d. við þær breytingar sem á honum eru ráðgerðar. En ég endurtek að það er von mín að þetta gangi vel hjá þeim á Norðausturlandi.