16.12.1980
Efri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

6. mál, söngmálastjóri og Tónskóli þjóðkirkjunnar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til laga um söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar. Það er í meginatriðum byggt á frv. sem samþykkt var á síðasta kirkjuþingi. Á frv. — eins og kirkjuþing gekk frá því — hefur dóms- og kirkjumrn. gert óverulegar breytingar og fylgja því skýringar.

Frv. var lagt fram á 102. löggjafarþingi, í þinglok vorið 1980, en hlaut ekki umfjöllun í þinginu.

Það er óþarfi að hafa mörg orð um þetta frv. Helstu nýmæli þess eru þau, að stofnaður verði Tónskóli þjóðkirkjunnar í tengslum við embætti söngmálastjóra, og það er eðlilegt framhald af þeirri starfsemi sem hefur þróast á undanförnum árum.

Ég held að frv. sé einfalt og auðvelt að átta sig á því. Það hefur verið samþykkt einróma í Nd., gerðar á því nokkrar breytingar þar, sem ég hygg að hafi verið til bóta. Ég vænti þess, að hv. Ed.-menn taki frv. vel og þeim lítist svo vel á það, að þeir geti afgreitt það nú fyrir þinghlé í syngjandi sólskinsskapi.