27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

29. mál, Grænlandssjóður

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt þremur öðrum þm., hv. 3. þm. Austurl., hv. 4. þm. Reykv, og hv. 4, þm. Suðurl., frv. til l. um stofnun Grænlandssjóðs. Hlutverk þessa sjóðs á að vera samkv. frv. það, að veita styrki til kynnisferða, námsdvalar, listsýninga, íþróttasýninga og annarra málefna á sviði lista, vísinda og tæknimála, er geta stuðlað að eflingu samskipta Grænlendinga og Íslendinga.

Grænland er næsti nágranni okkar, en kynni og samskipti okkar Íslendinga og Grænlendinga hafa verið sáralítil. Grænland hefur fram til síðustu ára verið að verulegu leyti lokað land, en við, sem flytjum þetta frv. og erum úr öllum fjórum þingflokkunum, teljum vera kominn tíma til þess fyrir okkur Íslendinga að sinna málefnum Grænlendinga með það í huga að styrkja, bæta og efla þá nauðsynlegu sambúð sem á að vera á milli þessara tveggja grannríkja.

Grænlendingar fengu heimastjórn 1. maí á s.l. ári. Barátta þeirra fyrir heimastjórn hófst fyrir aðeins u.þ.b. átta árum. Síðla árs 1974 var skipuð nefnd 14 stjórnmálamanna til þess að fjalla um kröfu þeirra um heimastjórn, og áttu sæti í þeirri nefnd sjö grænlenskir stjórnmálamenn og sjö danskir. Niðurstaða þeirrar nefndar var að leggja til að Grænlendingar fengju heimastjórn, og var frv. þar að lútandi lagt fyrir danska þingið og það samþykkt 17. nóv. 1978 með 124 atkv. gegn 29. Í kjölfar samþykktar þess frv. var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í Grænlandi og urðu úrslit þau, að 12 754 samþykktu heimastjórn en 4 705 voru andvígir henni. Þátttakan í kosningunum var, að mig minnir af fréttum, rúmlega 63%.

Fyrstu kosningar til grænlenska þingsins fóru fram í apríl á s.l. ári. Buðu fjórir stjórnmálaflokkar fram, en aðeins tveir þeirra fengu þm. kjörna. Siumut-flokkurinn fékk 13 menn kjörna, en Atassut-flokkurinn fékk átta menn kjörna. Landsstjórnin á Grænlandi er skipuð mönnum úr fyrrnefnda flokknum og eiga sæti í henni fimm menn.

Á árinu 1982 verða 1000 ár liðin frá fyrstu för Eiríks rauða til Grænlands, og finnst okkur flm. þessa frv. vera full ástæða til þess, að Íslendingar minnist þessa afmælis um leið og þeir minnast hins merka þjóðfélags Íslendinga á Grænlandi næstu aldir eftir fund landsins. Með þessu frv. erum við að leggja til að stofnað sé til stóraukinna samskipta á milli þessara tveggja þjóða. Við Íslendingar, sem erum fjórum sinnum mannfleiri þjóð og höfum haft okkar innlendu stjórn svo lengi sem raun ber vitni og höfum verið frjálst og fullvalda ríki nú í 36 ár, viljum sýna þessari litlu þjóð, sem býr við risavaxna erfiðleika í strjálbýlu og erfiðu og hrjóstugu landi, vináttu okkar og það jafnframt, að við viljum verða til þess að leggja henni lið í harðri lífsbaráttu og í þeirri viðleitni að skapa og gera innlenda stjórn þar ráðandi — og helst sem allra fyrst alls ráðandi, alveg eins og við á sínum tíma stefndum sjálfir að.

Við leggjum til að í þennan sjóð verði varið á árunum 1980, 1981 og 1982 75 millj. kr. hvert ár. En verði breyting á gengi danskrar krónu frá því að lög þessi taka gildi, þá skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins breytast í samræmi við það. Auk þess er gert ráð fyrir að sjóðsstjórnin leiti eftir framlögum í sjóðinn frá fyrirtækjum, stofnunum, félagssamtökum og einstaklingum. Menn verða varir við stórvaxandi áhuga Íslendinga almennt á málefnum Grænlendinga. Það er því ekki fjarstæðukennt að láta sér detta í hug að félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir muni verða til þess að styrkja þennan sjóð. Við leggjum jafnframt til að til styrkveitinga verði varið 9/10 hlutum vaxtatekna og að stofnfé sjóðsins verði ekki skert. Enn fremur leggjum við til að gjafir til sjóðsins skuli að jafnaði leggjast við stofn hans, nema stjórn sjóðsins sé sammála um að verja ákveðnum gjöfum eða framlagi til einstaks verkefnis, sem hún telur að sérstaklega sé þörf fyrir.

Þá held ég að ákvæðið um það, að stjórn sjóðsins skuli kosin hlutfallskosningu á Alþ., sé í reynd heppilegasta stjórnarfyrirkomulagið, en að forsrh. skipi formann stjórnarinnar.

Margvísleg samskipti okkar við Grænlendinga hljóta að fara vaxandi. Við erum, eins og ég sagði áðan, nágrannar. Við eigum víðáttumikið hafsvæði saman og við þurfum sannarlega þar einnig á aukinni samvinnu að halda til þess að vernda lífshagsmuni okkar, fiskstofna, þegar innlendri stjórn vex ásmegin í þessu landi. Sumum kann að þykja til of mikils mælst að ráðgera þegar á þessu ári, árinu 1980, framlag til sjóðsins. Um það getur eðlilega orðið meiningarmunur. En til skýringar á því bráðlæti flm. skal ég nefna að fyrir okkur vakir það, að hægt verði að byrja styrkveitingar á árinu 1982 í tilefni af för Eiríks rauða til Grænlands. Það væri merkur áfangi að auknum samskiptum við Grænlendinga að hefja þá styrkveitingar.

Grænlendingar hafa mikinn hug á því að halda upp á þetta 1000 ára afmæli, eins og hefur komið fram hjá bæjarstjóranum í Qaqortoq eða Julianehåb sem áður hét, sem heitir Henrik Lund. Hann hefur lagt það til í blaðaviðtali, sem hann átti við Grønlandsposten snemma á þessu ári, að þessa afmælis verði minnst með veglegum hætti. Og eins og Grænlendingar leggja til að þessa afmælis sé minnst með veglegum hætti, þá held ég að það fari vel á því, að við Íslendingar minnumst þessa afmælis með þeim veglega hætti að ætla þessu frv. greiðan gang í gegnum Alþ. Hér er ekki verið að reyna að gera þetta mál að einhverju flokkspólitísku máli, því að flm. þessa máls eru þm. úr öllum flokkum.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til allshn. og 2. umr.