16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

95. mál, sparisjóðir

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 69 frá 1941, um sparisjóði.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og haft samband við bankaeftirlit Seðlabanka Íslands og einnig við Samband ísl. sparisjóða og leitað álits þeirra aðila á frv. Nefndin komst að því við nánari athugun, að gera þyrfti fleiri breytingar á lögunum en fram kemur í frv. á þskj. 105, og hefur því samið brtt. og borið þær undir bankaeftirlitið og Samband ísl. sparisjóða. Hefur bankaeftirlitið ekkert við brtt. að athuga og Samband ísl. sparisjóða hvetur til að þær verði samþykktar.

Í nál. var gert ráð fyrir því, að þessar brtt. yrðu ekki tilbúnar fyrr en við 3. umr., en þær hafa nú verið lagðar fram hér í deildinni. Brtt. miðast fyrst og fremst við það að koma aðalefni frv., þ.e. heimild sparisjóða til að veita ábyrgð, inn í þann ramma sem sparisjóðalögin setja um fjárhagslegar skuldbindingar.

Fjárhagslegar skuldbindingar viðskiptamanna sparisjóðs eru takmarkaðar með ýmsu móti sem eðlilegt er. Þótti eðlilegt að bæta við þetta frv. ákvæðum, sem hnigu í sömu átt og núgildandi sparisjóðslög kveða á um, svo að enginn vafi léki á að til heildarskuldbindinga viðskiptamanna sparisjóðs teldust einnig ábyrgðir sem sparisjóðurinn veitti viðskiptamönnum sínum.

Ég hef ekki miklu fleiru við þetta að bæta, en nefndin er sammála um að mæla með samþykkt frv. og brtt. á þskj. 276.