27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

29. mál, Grænlandssjóður

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þetta frv., sem mér finnst tímabært og eðlilegt að veki athygli okkar þm. Hér er um að ræða samskipti við þjóð sem við eigum að taka alvarlega.

Ég vil aðeins segja það til viðbótar við það sem hv. flm. sagði áðan, að á sviði sveitarstjórnarmála er þegar hafið nokkurt samstarf við Grænlendinga og hafa þegar byrjað nokkuð viðamikil samskipti með gagnkvæmum heimsóknum. Hafa sveitarstjórnarmenn hér á landi og á Grænlandi, m.a. fyrir tilstilli stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, þegar komið á þessum gagnkvæmu heimsóknum og hefur verið reynt með nokkrum árangri að koma á samstarfi og styrkja upplýsingaöflun héðan til Grænlendinga almennt. Það hefur einnig verið áformað hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga að auka þetta samstarf á flestum sviðum eftir því sem hægt er við að koma.

Mér finnst rétt að láta þetta koma fram við þessa umr. því að þetta eru samskipti sem ég tel mikilvæg og eigi að auka og efla. Það má minnast á það hér einnig í leiðinni, að vinabæjasamskipti eru þegar hafin og þar hafa Akureyringar haft visst frumkvæði.

Ég vildi aðeins koma hér til að lýsa stuðningi við þetta frv. og vænti þess, að Íslendingar almennt skilji nauðsyn þess að efla samstarf og samskipti við þessa ágætu granna okkar á sem flestum sviðum, báðum þjóðunum til góðs ef rétt verður á málum haldið.