16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

118. mál, Lífeyrissjóður barnakennara og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Guðrún Hallgrímsdóttir):

Herra forseti. Ég mæti fyrir nál. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um sameiningu Lífeyrissjóðs barnakennara og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Frv. það, sem hér um ræðir, kveður á um að Lífeyrissjóður barnakennara verði sameinaður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Með slíkri sameiningu vinnst tvennt. Það er í fyrsta lagi aukið hagræði að því að fækka lífeyrissjóðum ríkisstofnana, í öðru lagi samræming lífeyrisréttinda sjóðfélaga í Lífeyrissjóði barnakennara réttindum sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Fjh.- og viðskn. Nd. hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt. Undir nál. skrifuðu reyndar hv. þm. Matthías Bjarnason, Matthías Á. Mathiesen og Sighvatur Björgvinsson með fyrirvara og hv. þm. Albert Guðmundsson var fjarverandi afgreiðsluna.