16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

147. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar, fæðingarorlof. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um málið á nokkrum fundum, þar af tveimur fundum með heilbr.- og trn. Ed., en eins og menn minnast óskaði hæstv. heilbr.- og trmrh. sérstaklega eftir því, að nefndirnar hefðu samvinnu. Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins verið kallaðir á fund nefndarinnar.

Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með frv. með þeim brtt. sem hér liggja fyrir á sérstöku þskj.

Guðmundur G. Þórarinsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins, hv. þm. Pétur Sigurðsson var erlendis, en hann hafði áður lýst stuðningi við frv.

Einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja öðrum sem fram kunna að koma.

Ég vil aðeins leyfa mér að gera grein fyrir þeim brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 259.

Fyrsta breytingin er sú, að í 1. og 2. málslið 4. mgr., sem hefst á orðunum: „Vilji móðir hefja störf“ o.s.frv., komi í stað „14 daga fyrirvara“ á báðum stöðum: 21 dags fyrirvara. Með þessu er komið til móts við vilja þeirra aðila vinnumarkaðarins sem nefndin ræddi við.

Önnur breytingin er að 6. mgr. hljóði svo — þar er fyrst og fremst um lagfæringu á orðalagi að ræða: Fæðingarorlofsgreiðslur miðast við 530 221 gkr. á mánuði miðað við 1. des. 1980 og breytast ársfjórðungslega í samræmi við kaupbreytingar á hverjum tíma samkv. 8. flokki kjarasamnings Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrepi.

Þriðja breytingin er að við 10. mgr. bætist tilvísun í 7. mgr. Þar er vísað í 6. mgr., en eins og menn sjá hlýtur að verða að vitna í 7. mgr. líka. Þetta eru þær greinar, sem byrja á „Fæðingarorlofsgreiðslur miðast við“ og næsta mgr. „Fæðingarorlof greiðist sem hér segir.“

Þá þótti orðalag 13. mgr. ekki vera nógu skýrt og því er lagt til að í stað orðanna „með óbreyttum greiðslum“ komi: án þess að orlofsupphæð breytist.

Síðan leggur nefndin til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, en það ákvæði er komið frá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs upphaflega og hljóðar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal Atvinnuleysistryggingasjóður ljúka greiðslu atvinnuleysisbóta í fæðingarorlofi samkv. lögum nr. 56/1975 til þeirra kvenna, sem fæða fyrir árslok 1980. Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins endurgreiðir Atvinnuleysistryggingasjóði þann kostnað, sem af þessu leiðir eftir 1. jan. 1980.“

Þar sem hér liggur fyrir till. um verulega breytingu á þessu ákvæði frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Magnúsi H. Magnússyni skal aðeins gerð grein fyrir þessu máli. Það hefur verið rannsakað af framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs, að veruleg vandræði kæmu upp ef skipta ætti fæðingarorlofi milli aðila þegar lögin taka gildi. Er hægt að hugsa sér t.d. konu sem hefur verið í fæðingarorlofi vegna réttar síns hjá Atvinnuleysistryggingasjóði í tvo mánuði þegar lögin taka gildi. Þá á hún raunverulega eftir mun lengri tíma en fæðingarorlof er samanlagt samkv. því frv. sem hér liggur fyrir, auk þess sem alkunn venja er að lög taki gildi á gildistökudegi, þannig að óeðlilegt er að blanda þessu tvennu saman. Það er alveg ljóst, að þær konur, sem fæða fyrir árslok 1980, eiga hvergi rétt nema hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er jafnljóst, að ef þær eiga hann ekki eiga þær ekki rétt á fæðingarorlofi. Ég hygg að þetta sé gamalt vandamál þegar ný lög taka gildi, að ákaflega erfitt er að setja mörkin annars staðar en við þann dag sem lögin taka gildi. Ef menn vilja setja þar einhver mörk — við skulum segja að mörkin væru sett við 1. des. árið 1980þá yrði næsta spurning: Af hverju ekki einhvern annan dag? Hvað á að gera við konurnar sem fæddu 30. nóv., svo að dæmi sé tekið? Nefndin telur því hiklaust að þarna verði að skilja á milli og fullkomlega óeðlilegt sé, eins og brtt. hv. áðurnefndra þm. bendir til, að konur, sem fæddu fyrir árslok 1980, hljóti rétt — þó það sé ekki nema brot af rétti — samkv. lögum sem fyrst taka gildi 1. jan. 1981.

Sjálfsagt þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. í heild. Þetta er annað frv. sem lagt er fyrir hér í þinginu um fæðingarorlof. Fæðingarorlof er mikilvægt atriði í nýafstöðnum kjarasamningum, og ég hygg að flestir hv. þm. hafi fylgst mjög vel með vinnslu þessa máls. Við nm. teljum ákaflega mikilvægt — og væntanlega allir hv. þm. deildarinnar — að þetta frv. nái fram að ganga fyrir þinghlé, því að ella væri um svik að ræða við þá sem þessu frv. var lofað. Auk þess má benda á að greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til fæðingarorlofs yrðu í uppnámi vegna þess að þær er ekki hægt að greiða nema til 1. jan. 1981. Ég vil því beina þeirri áskorun til allra hv. þm. hér í deild að flýta sem unnt er fyrir afgreiðslu þessa máls, svo að það nái fram að ganga fyrir þinghlé.