16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

147. mál, almannatryggingar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil mótmæla harðlega því sem felst í ákvæði til bráðabirgða frá heilbr.og trn. Ég tel að þetta ákvæði feli í sér svo mikla mismunun á greiðslum fyrir fæðingarorlofstímabil, sem greitt verður fyrir á fyrstu mánuðum eftir gildistöku laganna, að við það verði ekki unað. Um þetta er hægt að taka dæmi.

Þetta felur í sér að kona, sem fæðir til að mynda síðasta dag desembermánaðar, verður af 537 þús. kr., en kona, sem elur barn nokkrum klukkutímum seinna, fær þessar 537 þús. kr. Ég tel tvímælalaust að þegar um fæðingarorlofstímabil er að ræða, sem tekur yfir gildistökutíma þessara laga, eigi sá hluti þess, sem eftir stendur, að greiðast samkv. nýju lögunum.

Ég skal fúslega viðurkenna, að brtt. heilbr.- og trn. er eitthvað einfaldari í framkvæmd, en að sama skapi svo óréttlát að ekki ber að horfa í það þó framkvæmdin sé eitthvað þyngri í vöfum með þeirri brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni, því að hún er vel framkvæmanleg. Ég hef borið það undir framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs, hvort svo sé, og telur hann að þetta sé hægt að framkvæma. Í þessari brtt. felst að það, sem eftir stendur af fæðingarorlofstímabilinu — ef það er hafið fyrir áramót, en ekki lokið, — það greiðist samkv. nýju lögunum. En þar sem útreikningar Atvinnuleysistryggingasjóðs nú samkv. gildandi lögum taka til 18 vikna tímabils eða rúmra fjögurra mánaða skapar það vissan vanda, sem einnig er tekið á — og ég vil undirstrika það — sem einnig er tekið á í brtt. með ákvæði þess efnis,að ekki skal greiða hærri upphæð samtals á fæðingarorlofstímabilinu en lögin gera ráð fyrir.

Fullar greiðslur nú hjá Atvinnuleysistryggingasjóði 1053 360 kr. og hæsta greiðslan er 1346 850 kr., ef um er að ræða að viðkomandi hefur þrjú börn að auki á framfæri sínu. Greiðast þessar upphæðir fyrir rúmlega fjögurra mánaða tímabil. Með því þaki, sem sett er á greiðslur í brtt., komast greiðslur ekki upp fyrir það hámark, sem kveðið er á um í lögunum, þrátt fyrir mismunandi lengd greiðslutímabils. Hér er því spurningin aðeins um það, að þm. afgreiði málið með þeim hætti, að ekki komi upp svo mikil mismunun á fæðingarorlofsgreiðslum við gildistöku laganna eins og gerast mun verði það ákvæði framkvæmt sem fram kemur í brtt. á þskj. 259. Það er ekkert annað en sanngirnismál, að lögin nái einnig til fæðingarorlofstímabils sem eftir stendur hjá þeim konum sem fæða fyrir gildistöku laganna, enda getur verið í mörgum tilfellum um nær allt fæðingarorlofstímabilið að ræða.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir taldi ekki eðlilegt, eins og hún orðaði það að mig minnir, að lögin giltu aftur fyrir sig. Ég mótmæli þessu vegna þess að það sem við eigum við í þessari brtt., er aðeins að lögin taki gildi varðandi þann hluta fæðingarorlofs, sem eftir stendur við gildistöku laganna. Því eiga þessar mótbárur hv. þm. ekki við nein rök að styðjast. Til þess að leiðrétta þetta misræmi flyt ég brtt. við það ákvæði til bráðabirgða, sem fram kemur á þskj. 259. Samkv. brtt. minni hljóðar ákvæðið svo, með leyfi forseta:

„Nú hefur foreldri hafið töku fæðingarorlofs samkv. lögum nr. 56/1975 og greiðslutímabili er ekki lokið við gildistöku laga þessara og skal þá greiðsla fyrir þann tíma, sem á vantar, vera samkv. lögum þessum. Þó skal heildargreiðsla í fæðingarorlofinu aldrei vera hærri en verið hefði samkv. þessum lögum. Í þessu sambandi skal reikna þá daga, sem atvinnurekandi kann að hafa greitt laun í fæðingarorlofinu, sem bótadaga.

Með sama hætti skal greiða þeim, sem öðlast í fyrsta sinn rétt með lögum þessum samkv. 3. tölul. 1. gr. og fætt hafa barn fyrir gildistíma þeirra, þann hluta orlofstímans sem þessi lög gera ráð fyrir og eftir er við gildistöku þeirra.“

Ég vil að lokum, herra forseti, vona að þm. sjái hvað mikil mismunun og óréttlæti felst í þeirri brtt. sem fram er komin hjá heilbr.- og trn. og að þeir leggi þeirri brtt. lið sem felur í sér að afnema þá mismunun.