16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

147. mál, almannatryggingar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta frv. til l. um fæðingarorlof gerði ég nokkrar aths. og lýsti þeirri skoðun minni, að ég teldi að þetta frv. næði ekki því marki sem ég og fleiri væntanlega erum sammata um, að fæðingarorlof, fyrst farið er að taka upp þessa stefnu, ætti að veita öllum foreldrum sama rétt, hvort sem þeir væru á vinnumarkaði eða ekki. Ég byggði þetta m.a. á því, að ég hafði á síðasta þingi flutt ásamt fleiri þm. þáltill., sem samþykkt var, um endurskoðun á almannatryggingalögunum. Við lögðum þar áherslu á að sú endurskoðun — sem yrði víðtæk — leiddi til þess, að þetta mál, sem ég tel stórt og þýðingarmikið mál, fengi þá meðferð er leiddi til þeirrar niðurstöðu að allir fengju þarna sama rétt.

Ég hafði hug á því að flytja brtt. við þetta frv. sem fæli í sér þessa stefnu eða það álit sem ég hef á þessu máli. Ég gerði mér vonir um það, að hv. n., sem um málið fjallaði, mundi komast að samkomulagi um að gera þær breytingar á frv. að það yrði um skýrari markmið að ræða að allir fengju þarna sama rétt. Því miður hefur nefndin ekki orðið við því. Hins vegar tel ég að sá tími, sem nú er til stefnu, sé of naumur til að gera grundvallarbreytingu á þessu frv., sem ég hefði viljað gera, þar sem þarna er um að ræða samning sem gerður var við aðila vinnumarkaðarins um málið í heild, og það mundi taka lengri tíma að gera þá breytingu á þessu frv. sem ég vil ná fram. Þess vegna hef ég ákveðið að flytja ekki brtt. núna við málið.

En ég vil láta það koma fram hér ákveðið, að á þingi eftir áramót mun ég beita mér fyrir grundvallarbreytingu á þessum lögum, miðað við það að þessi réttur, sem ég tala um, taki gildi 1. jan. 1982. Ég skal ekki segja um það, hvort fylgi er hér meðal hv. þm. um þessa stefnu, en ég tel svo mikið grundvallaratriði að jafna þennan rétt og gera þetta mál allt miklu einfaldara en hér kemur fram, að ég tel að það væri að bregðast eigin sannfæringu að gera ekki tilraun til að fá fram lagfæringu á þessu máli í heild.

Það mætti tala langt mál um ágalla sem ég tel á þessu máli, en ég ætla ekki að tefja þinghaldið með því. Ég vil aðeins láta það koma hér fram, að ég mun beita mér fyrir því strax á þingi í vetur eftir áramót að ná fram þeirri stefnu sem ég tel að eigi að vera í þessu máli.