27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

29. mál, Grænlandssjóður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins fylkja mér í sveit þeirra sem styðja það frv. sem hér er til umr. Þetta frv. og umr. um það leiða hins vegar hugann að ýmsum skyldum málum. Það eru þau mál sem snúa að samskiptum Íslendinga við nágranna sína og frændur sem búa á hinum svonefndu jaðarsvæðum í hinu norræna samfélagi.

Mönnum er að verða það æ ljósara, að vegna samskipta þessara jaðarsvæða við stóru menningarsamfélögin hefur menningu þessara þjóða, þessara smáhópa, verið stefnt í voða. Ég vil aðeins í þessu sambandi, til að lengja ekki umræður um þetta mál, fjalla örlítið um samskipti okkar t.d. við Færeyinga. Ég held að áhugaleysi okkar Íslendinga á samskiptum við þessa frændur okkar í Norður-Atlantshafi sé Íslendingum nánast til skammar. Þessi samskipti hafa verið sáralítil og líklega vegna þess að við höfum trúað Dönum fyrir sáluhjálp Færeyinga. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það væri orðið tímabært að koma á fót samstarfsnefnd Færeyinga og Íslendinga, sem starfaði allt árið, m.a. í þeim tilgangi að fjalla um fiskveiðimál og önnur mál af svipuðum toga. Á sama hátt vil ég víkja að sambandi okkar og aðstoð við þær þjóðir sem minna mega sín og eru undirokaðar í þessum heimi okkar. Ég vil minna á það, að enn þá hafa Íslendingar ekki náð því marki að greiða einn hundraðshluta eða 1% til þróunarhjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þetta er auðvitað þessari þjóð, sem alltaf hælir sér af miklum dugnaði, lífsgæðum á hæsta stigi, til háborinnar skammar. Væri nú vel að þetta þing beindi kröftum sínum í þá veru að auka framlag Íslendinga til þróunaraðstoðar. Á því höfum við mikil og góð efni.

Ég vildi eingöngu nefna þessi mál vegna þess að skoðun mín er staðfastlega sú, að við höfum vanrækt á undanförnum árum samskipti okkar við þær þjóðir sem standa okkur næst, þjóðir eins og Færeyinga, þjóðir eins og Grænlendinga, sem hafa vissulega átt undir högg að sækja vegna þess að þetta hafa verið nýlendur Dana. Ég held að það væri mjög mikils virði, ef hér á hinu háa Alþingi hæfust umræður um stöðu þessara þjóða gagnvart okkur og stöðu okkar gagnvart þeim, hvað við getum gert t.d. til þess að efla atvinnuvegi á Grænlandi, eins og hv. þm. nefndi áðan, og einnig til þess að vernda hina dýrmætu og mikilvægu menningu þessara þjóða sem búa í næsta nágrenni við okkur.

Ég vildi eingöngu minnast á þetta í sambandi við það frv. sem hér er til umr. Þetta er í áttina að því starfi sem þessi ágæta samkunda á að vinna. Þess vegna fagna ég framkomu þessa frv. og allri þeirri umræðu sem fram gæti farið um það og mál af svipuðum toga spunnin.