16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

147. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umr. Ég koma aðallega til þess að bæta fyrir það sem ég gleymdi áðan í framsöguræðu minni. Nokkur umræða varð um það í nefndinni, hvernig meta skyldi vinnutíma bændakvenna þegar til fæðingarorlofs kæmi. Vil ég leyfa mér að benda á að í 8. mgr. 1. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Fæðingarorlof greiðist úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku viðkomandi samkv. nánari reglum er ráðh. setur í reglugerð.“

Ég vil einnig leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í framsöguræðu hæstv. heilbrmrh., en þar sagði hann:

„Varðandi konur bænda sérstaklega mætti t.d. byggja á búreikningum viðkomandi bús eða annarri sönnun um atvinnuþátttöku viðkomandi konu í búrekstrinum. Ýmsar aðrar upplýsingar gætu komið til greina í þessu sambandi, en hugsanlega er þó eðlilegasta niðurstaða sú að móta ákveðnar reglur hvað sérstakar starfsgreinar snertir og reyna þar með að nálgast það meðallag, sem eðlilegast og sanngjarnast er, og láta það gilda um alla í þeirri starfsgrein.“

Þetta var rætt nokkuð með fulltrúum ASÍ — og er þá væntanlega svarað fsp. hv. þm. Karvels Pálmasonar — tveim fulltrúum Stéttarsambands bænda og fulltrúa Vinnumálasambandsins. Nefndin ræddi við fulltrúa Stéttarsambands bænda og hafði við orð — eða ég leyfði mér að fullyrða fyrir hönd hæstv. heilbrmrh., að hann vildi koma því atriði inn í reglugerð, að allar bændakonur sætu þarna við sama borð, og ég lofaði því, að sú reglugerð yrði gerð í samráði við Stéttarsamband bænda, svo að ég held að þetta atriði ætti að vera tryggt. Nefndin var sammála um að óeðlilegt væri að taka inn í sjálf lögin atriði sem þetta, þ.e. einn hóp kvenna.

Í sambandi við það sem menn hafa verið að tala um hér, skiptingu á greiðslum milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og Tryggingastofnunar ríkisins samkv. því frv. sem hér liggur fyrir, þá er ákaflega erfitt að ræða það í smáatriðum við fólk sem þekkir ekki afgreiðslu á þeim lögum sem nú eru í gildi. g ætla aðeins að taka hér eitt dæmi um hvernig þessi tvenn löggætu skarað eða gætu ekki farið saman. Ef menn eru að tala um t.d. þrjá mánuði aftur í árið 1980 skulum við taka dæmi. Ef kona hefur eignast barn 1. okt. er hún um áramót búin að fá þriggja mánaða orlof. Hún á eftir samkv. lögum um atvinnuleysistryggingar 11/2 mánuð, þ.e. hún á eftir tíma sem hún getur ekki fengið greiðslu fyrir samkv. hinum nýju lögum, ef frv. verður að lögum; vegna þess að þar er ekki um að ræða nema þrjá mánuði. Þarna koma upp dæmi þar sem óhugsandi er að þessi tvenn lög gætu farið saman. Og ég held að ég verði að leyfa mér — ég vona að ég tefji ekki tímann of lengi — með leyfi forseta að lesa erindi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, en þar segir:

„Á fundi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs þann 10. þ. m. var rætt um fram komið frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar, þ.e. um fæðingarorlof. Í frv. er svo ráð fyrir gert í 3. gr., að ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar um greiðslu atvinnuleysisbóta í fæðingarorlofi falli úr gildi við gildistöku hinna nýju laga. Ekki eru í frv. ákvæði um hvernig fara skuli um greiðslur fæðingarorlofs, sem hafnar eru fyrir áramót, en bótatímabili ekki lokið. Var það einróma álit stjórnarinnar að kveða þyrfti á um það, hvort og þá hvernig hið nýja kerfi tæki við orlofsgreiðslum eða tryggt væri með öðrum hætti að réttur þeirra kvenna, sem rétt eiga nú til fæðingarorlofs, yrði ekki skertur.“

Stjórnin samþykkti samhljóða að leggja fram til athugunar að við umrætt frv. verði bætt svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða, — ég tel mig ekki þurfa að lesa það þar sem það hefur þegar verið gert. Hér er því um að ræða ákvæði til bráðabirgða til að hindra það, að upp komi slík dæmi sem ekki er hægt að afgreiða. Það er ekki mismunun á réttindum þegar ný lög eru sett til þess að veita þegnunum aukin réttindi, við þá þegna sem ekki nutu þeirra réttinda áður en lögin tóku gildi, og ég held að það segi sig sjálft, að slíkt er óhjákvæmilegt við alla lagasetningu.

Ég skal reyna að lengja þessar umr. ekki frekar, en ég vil mælast til þess, að hv. deildarþm. reyni að stytta þessar umr. og flýta fyrir afgreiðslu þessa máls, því að það væri mikill skaði að því ef umr. hér yrðu til þess, að málið næði ekki fram að ganga fyrir þinghlé.