16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

147. mál, almannatryggingar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. vegna þessa og ég skal ekki verða til þess að tefja hér umr. um þetta mál, þó að mér virðist hv. 8. landsk. þm. gera tilraun til að draga það á langinn. Hún segir að það sé ákaflega erfitt að ræða þetta mál við þá sem þekkja ekki lögin um atvinnuleysistryggingar. Mér þykir þm. gerast allstórorður. Ég sagði áðan í framsöguræðu minni fyrir þessari brtt., að þessi till. hefði verið borin undir framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs og hann sæi enga annmarka á framkvæmd þessara laga. Hv. þm. verður að láta sér það vel líka þó að fleiri þekki inn á lögin um atvinnuleysistryggingar. Hún hefur oft komið inn á þetta mál varðandi almannatryggingar, en það eru fleiri, sem þekkja þessi lög, heldur en hún. Og ég tel hana ekki sanngjarna við framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar hún segir að það sé erfitt að ræða þetta mál við þá sem ekki þekkja lögin, vegna þess að þessi till. var borin undir hann og hann sá enga annmarka á framkvæmd hennar.