17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

147. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem ég mæli hér fyrir, er flutt í framhaldi af yfirlýsingum sem ríkisstj. gaf við lausn kjarasamninga 27. okt. s.l. Frv. hefur þegar sætt meðferð í hv. Nd. Alþingis og viðkomandi nefndir, þ.e. heilbr.- og trn. beggja deilda, hafa fjallað um málið vegna þess að það hefur verið lögð á það mikil áhersla af ríkisstj. að málið næði fram að ganga fyrir áramót.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að allir foreldrar, sem lögheimili eiga á Íslandi, eigi rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi.

Í frv. kemur fram að það er gert ráð fyrir, að ákvörðun um rétt til fæðingarorlofs miðist við atvinnuframlag á næstliðnum 12 mánuðum og miðað er við 530 220 kr. á mánuði í þessum tilvikum sem greiðist í 1, 2 eða 3 mánuði eftir vinnuframlagi viðkomandi.

Í frv. er ákvæði um að þetta fæðingarorlof verði greitt úr lífeyrisdeild almannatrygginganna beint, þ.e. úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins.

Talið er að með frv. þessu, ef að lögum verður, mundu um það bil 2000 konur í landinu í fyrsta sinn njóta fæðingarorlofs og er yfirgnæfandi meiri hluti þeirra heimavinnandi konur, en áður hafa konur fengið fæðingarorlof, eins og kunnugt er, greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Það frv., sem hér er á borðum hv. Alþingis, gerir ekki ráð fyrir að hróflað sé við þeim rétti sem um er samið samkv. reglugerð um fæðingarorlof fyrir opinbera starfsmenn né heldur því fæðingarorlofi sem um er samið að því er varðar Samband íslenskra bankamanna.

Þetta fæðingarorlof á að tryggja jafnan rétt eða sömu laun á mánuði hverjum. Það er sem sagt ekki farið út í það hér að mismuna eftir því hvaða laun viðkomandi hafa haft á undanförnum mánuðum eða árum og er það nokkur nýlunda frá því sem áður hefur verið rætt um í þessu sambandi. Í framkvæmd þýðir þetta það, að láglaunakonur, sem taka laun eftir töxtum hinna almennu verkalýðsfélaga, mundu við þetta í rauninni fá nokkru hærri mánaðargreiðslur í fæðingarorlofi en samkv. umsömdum kjarasamningum, en hinar, sem eru með meira en þetta, mundu þá lækka frá því sem ella væri.

Gert er ráð fyrir að þetta fæðingarorlof sé fjármagnað annars vegar af atvinnurekendum og hins vegar af ríkissjóði. Í grg. með frv., á bls. 5, er gerð nokkur grein fyrir kostnaðarskiptingu milli annars vegar atvinnurekenda og hins vegar ríkissjóðs og talið að kostnaður skiptist á milli þessara aðila nokkurn veginn til helminga. Til að tryggja það hefur verið lagt fram á Alþingi frv. frá ríkisstj., en það hefur einnig hlotið meðferð í hv. Nd. Það er 148. mál þingsins og 2. mál á dagskrá hér. Leyfi ég mér, með leyfi forseta, að mæla einnig fyrir því nú.

Í því frv. er gert ráð fyrir að framlag atvinnurekenda til lífeyristrygginganna verði 2% af öllum tegundum launa eða þóknana fyrir starf liðins árs, eins og það er orðað í frv. þessu. Breytingin, sem þetta hefur í för með sér, er fyrst og fremst sú, að til þessa hefur verið við það miðað að atvinnurekendur greiddu 14% af áættuðum kostnaði lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Þetta hefur verið áætlað fyrir hvert ár í senn og samkv. atmannatryggingalögunum er gert ráð fyrir því, að fari þetta framyfir 14% eigi hlutfallið að lækka á næsta tímabili þar á eftir. Nú er þessu þannig háttað, að árið 1980 greiða atvinnurekendur 2% af gjöldum liðins árs, en miðað við þau lög, sem í gildi hafa verið, var talið að þessi prósenta þyrfti að lækka nokkuð á næsta ári. Samkvæmt því frv., sem hér er flutt, 148. máli, er ekki gert ráð fyrir þessari lækkun, heldur borgi atvinnurekendur þessi 2% að fullu áfram. Með því er talið að tryggður sé sá hluti þeirra í fæðingarorlofinu sem umsaminn er. Er gert ráð fyrir að þar komi til nokkrar upphæðir, sem gætu numið á bilinu 2–2.5 milljarðar kr., og geta menn, til þess að glöggva sig á hvað það þýðir, einfaldlega borið töluna saman við þær tekjur sem hvert launaskattsprósent gefur í raun á árinu 1980. Það er ekki nóg að miða við það sem var í fjárlagafrv., heldur verða menn að miða við það sem fram kemur í launaskattinum á þessu ári, sem er nokkru hærri upphæð.

Ég vil þá aðeins nefna það, að ef Alþingi samþ. frv. þetta verður unnið að því að setja reglugerð samkv. því, sem er vafalaust mjög vandasamt verk og verður gert í samráði við hagsmunaaðila eftir því sem tök eru á. Í þeim efnum vil ég láta það koma fram, sem nefnt var í hv. Nd., að nokkur vandi væri í þessum efnum að meta vinnuframlag bændakvenna og verður haft samráð við Stéttarsamband bænda um það með hvaða hætti reglugerðarákvæði verða um þau efni.

Í hv. Nd. Alþingis var sett inn ákvæði til bráðabirgða. Það er ákvæði sem gerð var í raun og veru tillaga um af stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eða kom a.m.k. frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég trúi ekki öðru en stjórnarmenn hafi verið látnir vita um þá tillögu. Þar er gert ráð fyrir að þrátt fyrir ákvæði 3. gr. frv. þessa eigi Atvinnuleysistryggingasjóður að ljúka greiðslu atvinnuleysisbóta í fæðingarorlofi samkvæmt lögum nr. 56/1975 til þeirra kvenna sem fæða fyrir árslok 1980. Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins endurgreiðir Atvinnuleysistryggingasjóði þann kostnað sem af þessu leiðir eftir 1. janúar 1981.

Ég fer þess á leit við hv. heilbr.- trn. Ed. að hún skoði þetta ákvæði mjög vandlega vegna þess að það skiptir ákaflega miklu að skiptin á milli þessara kerfa séu hrein og skýr. Það verður einhvers staðar að setja þar ákveðin mörk, en þau þurfa að vera ljós þannig að ekki sé nokkur vafi á því, hver er réttur þeirra sem fæða annars vegar fyrir áramót og hins vegar eftir áramót 1981.

Ég endurtek óskir mínar til hv. deildar um að málið fái skjóta afgreiðslu og verði afgreitt fyrir hátíðar þannig að fæðingarorlofið taki gildi frá 1. janúar 1981.

Ég tel mig, herra forseti, einnig hafa mælt fyrir 148. máli í þessari framsöguræðu og legg til að frv. verði báðum að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.