17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

147. mál, almannatryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ráðh. er greinilega heitt í hamsi út af þessum málum. Það er alveg greinilegt, að hann finnur fyrir því, að menn eru óákveðnir með hvernig hann tekur á þessum málum. En samkv. því bráðabirgðaákvæði, sem samþykkt var í Nd. og er sjálfsagt að tillögu ráðh. eða með samþykki hans —Atvinnuleysistryggingasjóður er skrifaður fyrir því — er konum feikilega mismunað, sem nemur hundruðum þúsunda.

Það er alveg rétt sem ráðh. sagði, a8 það þarf að koma málum þannig fyrir að skýrt sé hvað hvert kerfi á að taka. Ég legg til að till. mín komi í staðinn fyrir það bráðabirgðaákvæði sem áður var samþykkt. Samkvæmt henni er alveg skýrt, hvernig með þetta mál skuli farið, og komist hjá mismunun.

Ég greindi hér frá bréfi sem Verslunarmannafélag Reykjavíkur sendi þm. rétt áðan, þegar fréttist hvernig með þetta ætti að fara, og þar kemur fram að formaður félagsins, sem átti einmitt þátt í því að semja um þetta ásamt mér og öðrum, tetur að þarna sé um annan skilning að ræða en samninganefndarmennirnir höfðu. Við höfðum þann skilning á þessu að greiðslur samkv. nýja kerfinu ættu alfarið að hefjast 1. jan. Það, sem samþ. var í Nd., hefur verið að kvisast núna síðustu klukkustundirnar til hinna ýmsu verkalýðsfélaga, sem vissulega munu mótmæla því að svona verði með málið farið. Og ég get greint ráðh. frá því, þó það sé ekki beint umræðuefni hér, að ég hef haft samband við stjórnarmenn Verkamannasambands Íslands, enda form. sambandsins núna, og eru allir stjórnarmenn á því máli, að hér sé um svik að ræða eða það sé ekki farið að eins og skyldi. (Félmrh.: En ekki svik.) Ég sagði svik.