17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Eyjólfur Konráð Jónsson, spurðist áðan fyrir um afskipti mín af málum Alusuisse eða Straumsvíkurverksmiðjunnar meðan ég var iðnrh. Í stuttu svari skýrði ég frá því, sem ég tel mikilsvert, að þó að samningurinn væri gerður til mjög langs tíma með bindandi ákvæðum um orkuverð og skattlagningu voru teknir upp samningar um að endurskoða þessi ákvæði með þeim árangri að verulegar breytingar fengust á hvoru tveggja, þannig að það hefur fært Íslendingum verulegt fé til viðbótar við það sem hefði orðið samkvæmt fyrri ákvæðum, og varðandi orkuverðið fékkst sú mikilvæga breyting, að þessi tekjuauki nemur í lok þessa árs 8.7 milljörðum ísl. kr. Þetta kemur hv. þm. Eyjólfi Konráð ekkert við. Hann talaði um að ég hefði verið að hreyfa við einhverjum samningum. Þetta er mál sem skiptir hann engu.

Þó að Íslendingar hafi haft hagnað af þessari endurskoðun samninganna og þeim árangri, sem þar fékkst, og þannig hagnast um marga milljarða á þessu árabili kemur það Eyjólfi Konráð ekkert við. Nei, hann spyr um hvort ég hafi ekki sett rannsókn á hverju ári, sérstaka rannsókn, á Alusuisse. Það er orðinn mikill áhugi hjá þessum hv. þm. á að Alusuisse sé undir sérstakri rannsókn á hverju ári. Málin liggja einfaldlega þannig fyrir, sem þessi hv. þm. virðist ekki vita eða gleyma eða þegja um, að vitanlega eru sérstakir endurskoðendur fyrir þetta fyrirtæki sem endurskoða allar gerðir stjórnarinnar og alla reikninga. Það er furðulegt ef alltaf á að vantreysta þessum endurskoðendum þannig að á hverju ári eigi að fyrirskipa að erlend endurskoðunarfyrirtæki skuli yfirfara þetta allt saman. Ríkið hefur fulltrúa í stjórn ÍSALs og auk þess eru þar tveir endurskoðendur sem fjalla um þessi mál. Því aðeins að eitthvað sérstakt komi fram frá stjórnarmönnum eða frá endurskoðendum, sem gefi tilefni til sérstakrar endurskoðunar, fer hún fram. Þetta hefur gerst í þrjú skipti sem þetta alþjóðlega endurskoðunarfyrirtæki hefur verið beðið um sérstaka athugun. Þriðja endurskoðunin fer fram núna og niðurstöðu af henni er að vænta bráðlega.