17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örstuttar athugasemdir vegna þess sem fram hefur komið.

Í sambandi við þá meinbugi, sem taldir voru liggja fyrir vegna reikningsfærslu Íslenska álfélagsins fyrir reikninga árið 1974, eins og fram hefur komið í umr. í dag, þá voru þau mál til framhaldsmeðferðar á vegum aðila sem fjölluðu um þá samninga sem leiddir voru til lykta í desember 1975. Þeir voru þar áframhaldandi á dagskrá samkvæmt þeim málsgögnum sem ég hef séð um þetta efni.

Varðandi framhald málsins taldi ég mig hafa svarað fsp. hv. 4. þm. Vestf. Ég greindi honum frá að málið væri nú til meðferðar hjá umræddri og títtnefndri endurskoðunarskrifstofu og þaðan væri að vænta grg. innan ekki langs tíma. Ég geri ráð fyrir að gerð verði grein fyrir því. Og þegar málsatvik liggja ljósar fyrir tel ég sjálfsagt að það verði tekið til athugunar, með hvaða hætti megi tryggja sem besta og eðlilegasta meðferð málsins, einnig þannig að stjórnarandstaðan og almenningur fylgist með meðferð þess. En ég er ekki með tilteknar tillögur þar að lútandi á þessari stundu. Ég tel mig hafa svarað þessari fsp. hér með þeim hætti sem ég tel rétt hér og nú.

Í sambandi við spurninguna um að kynna málið í þinginu í gær hefur komið fram að það er vissulega álitamál. Það var ekki vilji minn eða ásetningur að vera að skrópa frá þingstörfum. Ég sá ekki betur en það væru ein 35 mál — a.m.k. var það langur listi — á dagskrá Sþ. Ég gerði ráð fyrir að þar væri af nógu að taka þ6 að ég kæmi ekki inn í þá umr.

Nefnd var fsp. sem ég hefði ekki verið tilbúinn að svara hér í þinginu, þ.e. varðandi Blönduvirkjun. Hún bíður svars, það er alveg rétt. Hún hefur verið á dagskrá þingsins. Við hv. 5. landsk. þm. vorum á mjög fjölmennum fundi norður í Húnaþingi fyrir skömmu þar sem þessi mál voru til umræðu, og ég býst við að honum sé ljós staðan í því þýðingarmikla máli engu síður en mér, og hann geti getið sér nokkuð til um hvert verða muni efnisinntak þeirra svara sem hægt er að gefa við þeirri fsp.

En það er sannarlega margt á dagskrá þingsins núna og brýnt að þingstörf geti gengið greitt þá fáu daga sem eftir eru til jólahlés. Ég ætla ekki að orðlengja þessa umr. hér frekar, ekki að lengja mál mitt. (EKJ: Það eru mótsagnirnar ráðh.) Ég ætla ekki að gera það frekar að umræðuefni nú. Það getum við lesið okkur til um.