17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. deildar hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um breyt, á lögum nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald af raforku, sbr. lög nr. 99/1979, um breytingu á þeim. Þetta frv. felur í sér framlengingu um eitt ár á gildistíma laga um verðjöfnunargjald af raforku, en ráðh. er þó heimilt samkv. 1. gr. frv. að lækka gjaldið úr 19%, eins og það er nú, í 16% frá og með 1. júlí 1981. Gert er ráð fyrir að gjaldinu verði skipt eins og nú er, þ.e. á milli Orkubús Vestfjarða, sem fær 20%, og Rafmagnsveitna ríkisins, sem fá 80%. Innheimta verðjöfnunargjalds á árinu 1979 nam 2 milljörðum 686 millj. kr., í fjárlögum 1980 er gert ráð fyrir að gjaldið nemi 3 milljörðum 875 millj. kr. og samkv. fjárlagafrv. 1981 er gert ráð fyrir 5.5 milljörðum kr.

Ég lít svo á, að öllum hv. þm. sé vel kunnugt um eðli og tilgang þess verðjöfnunargjalds sem hér er um rætt þannig að um það þurfi í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum. Að vísu hefur oft verið gagnrýnt að verðjöfnunargjald af raforku verki ekki til verðjöfnunar, þ.e. að gjaldið leggist hlutfallslega ofan á grunnverð rafveitna og því hærra sem grunnverðið er því hærra sé gjaldið. Eins og fram er tekið í aths. með frv. hefur verið í athugun hvort rétt sá að breyta verðjöfnunargjaldinu í fast gjald á orkueiningu.

Ég vil geta þess, að á fund iðnn. kom Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri ríkisins. Einnig barst n. bréf frá Sambandi ísl. rafveitna, en tekið er fram í bréfinu að Samband ísl. rafveitna leggist gegn álagningu svonefnds verðjöfnunargjalds af raforku sem nú er fyrir, og tetur að leysa beri fjárhagsvanda Orkubúsins og Rafmagnsveitna ríkisins með öðrum hætti. Sambandið telur þó þá stefnu stjórnvalda spor í rétta átt að leggja Rafmagnsveitum ríkisins fé til vissra framkvæmda. í bréfinu er bent á að fleiri raforkufyrirtæki eigi við fjárhagsvanda að etja og er Rafveita Siglufjarðar nefnd sérstaklega í því sambandi. Niðurstaða iðnn. Ed. er hins vegar sú, að frv. verði samþykkt óbreytt. Fjarverandi afgreiðstu málsins var Egill Jónsson, en Kjartan Jóhannsson skrifar undir með fyrirvara.

Í bréfi Sambands ísl. rafveitna er vikið sérstaklega að Rafveitu Siglufjarðar, eins og ég áður gat um. Enda þótt sú áminning hefði ekki komið er iðnn. þessarar hv. deildar vel kunnugt um að Rafveita Siglufjarðar á við fjárhagsörðugleika að stríða og hafa um. af því þungar áhyggjur. Þegar verðjöfnunargjaldið var til umræðu á liðnu ári komu forsvarsmenn Rafveitu Siglufjarðar á fund iðnn. þessarar hv. deildar og lýstu fjárhagsörðugleikum Rafveitu Siglufjarðar og óskuðu eftir því, að bætt yrði úr þeim vanda með því að veita Rafveitu Siglufjarðar hlutdeild í því fé sem verðjöfnunargjaldið gefur. Nefndarmenn töldu þá ekki fært að gera þetta að tillögu sinni. Hins vegar töldu nm. ljóst að Rafveita Siglufjarðar ætti við fjárhagserfiðleika að etja, og lagt var til að stjórnvöld aðstoðuðu við að leysa þann vanda með sérstökum aðgerðum. Við umfjöllum málsins nú hefur iðnn. komist að sömu niðurstöðu. Því miður hefur lítið eða ekkert gerst í því að treysta fjárhag Rafveitu Siglufjarðar, en nm. leggja áherslu á það nú sem fyrr, að það verði gert hið allra fyrsta, þ.e. að bæta aðstöðu og treysta rekstrargrunn Rafveitu Siglufjarðar.

Að gefnu tilefni vil ég segja frá því hér, að mér er kunnugt um að forsvarsmenn Rafveitu Siglufjarðar hafa staðið í viðræðum allra síðustu daga við hæstv. iðnrh. Jafnframt hafa þeir setið á fundi með hæstv. fjmrh. ásamt þm. viðkomandi kjördæmis og gert þessum hæstv. ráðh. grein fyrir stöðu rafveitunnar. Eins og hv. alþm. hafa tekið eftir mun hæstv. iðnrh. vera viðstaddur þessa umr. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. láti jafnframt sjá sig hér, og þá munu þeir væntanlega, annar þeirra eða jafnvel báðir, greina okkur frá því, hvar þessar viðræður standa, þ.e. viðræður við forsvarsmenn Rafveitu Siglufjarðar. Vonandi liggur eitthvað fyrir um það, með hvaða hætti talið er eðlilegt að greiða úr þeim erfiðleikum sem rafveitan er í. Vænti ég þess að við 2. umr. skýrist það eitthvað með tilvísan til þess sem ég hef áður sagt.