17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef því miður verið bundinn við umr. í hv. Nd. og hef ekki getað fylgst með umr. um þetta mál hér. En það vill nú svo vel til, að ég þekki vel það atriði sem hér hefur einkum borið á góma, þ.e. spurninguna um rekstrarafkomu Rafveitu Siglufjarðar, og þar sem ég hef verið á fundum þar sem þessi mál hafa verið rædd ætla ég að leyfa mér að bæta nokkrum orðum við það sem þegar hefur verið sagt. Þegar afkoma rafveitna er annars vegar er það tvennt sem hefur fyrst og fremst á bjátað hjá slíkum fyrirtækjum. Annaðhvort hefur reksturinn verið erfiður vegna þess, að óhjákvæmilegt hefur verið að leggja í miklar fjárfestingar sem ekki hafa skilað sér með venjulegum hætti og rekstur hefur því orðið neikvæður og erfiður, eins og dæmin eru um varðandi Rafmagnsveitur ríkisins, eða það er vandamál að rafveitur hafa staðið í mjög verulegum fjárfestingum, sem bundnar hafa verið lánum til tiltölulega skamms tíma, og þær hafa ekki ráðið við að borga upp lánin á tiltölulega skömmum tíma.

Það er ljóst að Rafveita Siglufjarðar á við töluverða rekstrarfjárerfiðleika að etja og ræður engan veginn við þær miklu greiðslur sem fram undan eru og áttu að eiga sér stað á þessu ári. En hitt er ekki alveg jafnljóst, sýnist mér, af hvaða ástæðum þessi rekstrarvandi er og hvort hægt er að setja þessa rafveitu í flokk með þeim rafveitum sem verst er ástatt um — þá á ég auðvitað fyrst og fremst við Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins — eða hvort vandinn er eingöngu af síðara taginu, að óhjákvæmilegt er að framlengja lán, breyta gömlum lánum í ný lán.

Í þessu sambandi hefur taxta rafveitunnar mjög borið á góma og menn hafa velt fyrir sér þeirri spurningu, hvort taxtarnir væru sambærilegir við það, sem er hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða, eða hvort eðlilegra sé að líkja töxtunum við það sem gildir um rafveitur í þéttbýti hér á Suðurtandi eða víða annars staðar þar sem lægstir taxtar eru. Mér finnst að þeir, sem gefið hafa upplýsingar um þetta atriði, hafi verið mjög tvísaga og að ég hafi alls ekki fengið í hendur gögn sem skera úr um hvor fari með rétt mál í þessum efnum.

Hv. seinasti ræðumaður, Eyjólfur Konráð Jónsson, var einmitt að bera hér fram ábendingar sem áttu að sýna fram á að ekki væri allt sem sýndist í sambandi við þessi taxtamál og það sem hefði verið sagt um þann þátt málsins væri kannske ekki alveg jafneinfalt og sumir vildu vera láta. Ég held að nauðsynlegt sé að fá gleggri upplýsingar um þetta atriði og að gott væri að fá það sem skýrast á hreint, hvernig taxtarnir eru, og þá ekki bara einn taxti sem miðað er við heldur taxtarnir í heild, og jafnframt að það fáist á hreint, hvort staðan er þannig hjá Rafveitu Siglufjarðar að hún geti ekki raunverulega staðið undir lánum og afborgunum af lánum og vöxtum af lánum öðruvísi en hún sleppi að meira eða minna leyti við að greiða þetta verðjöfnunargjald. Þetta verður vafalaust að athuga nánar, og þar sem ég hef ekki fylgst með tölum nefndarinnar, sem um þetta fjallaði, og ekki heldur með umr. hér vil ég ekki bæta þar miklu við.

Ég vil hins vegar segja það, að bersýnilegt er að ekki verður undan því vikist að framlengja lánin. Síðari leiðina verður örugglega að fara, hvort sem sú fyrri verður farin eða ekki. Það stafar ekki síst af því, að afborgunum og vöxtum ársins 1980, sem munu hafa numið um 470 millj. kr., hafa aðeins 130 millj. verið greiddar á þessu ári, en óhjákvæmilegt virðist að velta 340 millj. yfir á næsta ár, og á næsta ári kemur til útborgunar í einu lagi stórt lán sem tekið var fyrir fimm árum og er upp á 340 millj. kr. Þannig er ljóst að á næsta ári er vandinn, sem þessi hitaveita á við að glíma, upp á 600–700 millj. kr. Sjá því auðvitað allir að jafnvel þó að ráðstafanir væru gerðar í sambandi við rekstrarstöðu fyrirtækisins, þannig að annaðhvort fengi það að sleppa við verð jöfnunargjald eða fengi það að einhverju leyti endurgreitt eða aðrar ráðstafanir gerðar til að styrkja rekstrarstöðu fyrirtækisins, þá mundi það eitt ekki duga, heldur hlyti að verða að gera verulegar ráðstafanir til að framlengja lánin. Ég vil því lýsa því yfir við þetta tækifæri, að ég mun beita mér fyrir því, að svo verði gert í tengslum við afgreiðslu lánsfjáráætlunar á næsta ári.