17.12.1980
Efri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

176. mál, vörugjald

Frsm. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt hér á allsérkennilega framsöguræðu, sem sögð er flutt af frsm. meiri hl. n. Ég heyrði að ritari n. hváði og var kannske ekki furða, því að okkur var það ekki vitanlegt að í n. væri meiri hl. og minni hl., heldur héldum við að þar væru tveir minni hlutar, þrír og þrír, því að venju mætti þar ekki hæstv. forsrh. og stjórnarsinnar voru þar einungis þrír, og það mun vera bókað þannig. Hitt er rétt, að menn skrifa oft upp á nál. síðar meir, — sérstaklega ef þeir hafa tekið einhvern þátt í störfum n. í einhverju sérstöku máli, sem er komið til afgreiðslu, eða yfirleitt í einhverju máli, sem er varla til að dreifa með hæstv. forsrh. En þess vegna afhentum við okkar nál. og vorum það kurteisir að kalla nál. 2. minni hl. Því hefur nú verið breytt og er nú einungis nál. minni hl. Formaður n. upplýsir sem sagt að forsrh. hafi fundist. Það væri gaman að fá að vita hvort hann hafi sjálfur skrifað upp á þetta. (ÓRG: Hann gerði það sjálfur.) Hann gerði það sjálfur í eigin persónu? Já, þá er það upplýst og þá mun þetta sem sagt allt vera komið í rétt lag nema bókunin. Hún er sjálfsagt röng. Og þá mun þetta líklega geta gengið þó að bókunin hljóði upp á hið gagnstæða.

En ég sagði að flutt hefði verið allsérstæð framsögu ræða fyrir þessu máli og allhátt reitt til höggs, þó að röksemdirnar væru heldur litlar. Það var talað um að hér hefði verið um að ræða hótanir nokkurra verksmiðjueigenda og að atvinnurekendavaldið hefði sagt upp fólkinu og síðan fengið Iðjufólk til að skrifa upp á o.s.frv. Hvaða tilgangi þjónar nú svona nokkuð? Auðvitað er þetta fólk sem þegar óttast um atvinnu sína áður en slík gjöld eru á lögð, uggandi um sínar horfur. Og að formaður Iðju og starfsfólkið í verksmiðjunum sé þannig innrætt, sé með slíkan hugsunarhátt vegna þess að það er búist við að það geti orðið um einhverjar uppsagnir að ræða, — ég held að þær hafi engar farið fram enn þá. Mér er ekki kunnugt um það. (ÓRG: Það hefur verið tilkynnt vinnumálaskrifstofu félmrn.) Ekki held ég að það hafi heldur verið gert hingað til. Það hefur verið boðað að svo geti farið.

Hugsunarháttur hv. formanns n. er með ólíkindum að ætla íslenskum verkalýð það yfirleitt, að hann láti einhverja atvinnurekendur kúga sig, hóta sér og neyða sig til undirskrifta, að ætla þessu fólki öllu saman ennþá lágkúrulegri hugsunarhátt eða álíka lágkúrulegan hugsunarhátt og hann sjálfur hefur. Þetta eru ósæmilegar aðdróttanir. Þetta er dónaskapur og aðdróttanir að því fólki, á sjötta hundrað manns, sem skrifaði undir þau skjöl sem afhent voru þessum hv. þm. Allir skrifa undir eigin hendi. Að þetta sé allt fólk sem láti atvinnurekendur kúga sig og neyða til undirskrifta og það skipti svo sem ekki miklu máli með þennan atvinnuveg, sem svona fólk, svona pakk, vinnur hjá, skildist manni, er ósæmilegur málflutningur með öllu.

Það er líka dálítið einkennilegt að heyra talað um að það hafi táðst að leiðrétta þetta, þessi gjöld hafi verið miklu hærri áður. (Gripið fram í.) Ég kem að þeim — það lýsir líka hugsunarhætti þessa hv. þm. Það hefur láðst að leiðrétta, það hefur láðst að nota þennan tekjustofn, það hefur láðst að skattpína fólk á þennan hátt eins og allan annan. Þetta er óskaplega leiðinlegt fyrir mig og aðra, segir hann. Við höfum gleymt þessu, en nú ætlum við svo sannarlega að bæta úr. Þetta lýsir líka hugsunarhætti þessa hv. þm. mjög greinilega. Hann er allur á þennan veg.

Og hver hefur hækkunin á öli orðið nú á síðasta ári, segir hann, og hrósar sér af. Jú, hún hefur orðið 88%, hvorki meira né minna. Það var nú önnur saga þegar Alþb. fór með viðskiptamál. Hvernig lýsir þetta hv. þm. Hann hefur dróttað því að samstarfsflokkum sínum í ríkisstj., að þeir leyfi meiri verðhækkanir en ástæður séu til, kannske hvetji til þeirra. Hann er að ráðast vísvitandi á viðskrh. rétt einu sinni, að honum fjarverandi náttúrlega. Þetta lýsir líka hugsunarhætti þessa hv. þm. og hans flokksmanna. Nei, takk, þegar við tókum við, þegar við vorum með viðskiptamálin var þetta eitthvað öðruvísi. Það er bara illgirni Tómasar Árnasonar, hæstv. viðskrh., sem ræður því, hvað allt rýkur upp úr öllu valdi. Verðbólgan á þessu sviði eins og öðrum er öll honum að kenna. Þetta er það sem þm. er að segja.

Svona mætti lengi halda áfram. Ég skal taka eitt dæmi í viðbót. Hann ætlar sér að biðja þingfréttaritara Morgunblaðsins að koma því á framfæri, að Davíð Scheving hafi kallað þetta smámál. Hvað kallaði Davíð Scheving þetta? (Gripið fram í.) Smámál í samanburði við hækkun á jöfnunargjaldi eða aðlögunargjaldi — við það stórmál sem á eftir að koma til afgreiðslu hér á morgun eða hinn daginn. Og ég segi líka: Þetta er smámál á móti því. Þar á að firra íslenskan iðnað þeirri litlu vernd sem hann hefur haft, og það á að taka nýja skatta af iðnaði án þess að hann fái nokkuð til iðnþróunar eða nokkurs annars, sem þó hefur verið gumað af og búnar til heilu skýrslurnar, heilu starfshóparnir unnið nótt og dag við útreikninga og áætlunargerðir til að byggja upp íslenskan iðnað. Nú á að taka af iðnaðinum alla iðnþróunarhjálp og annað slíkt. Það er það sem verið er að gera. Er þetta ekki smámál miðað við það? Það er smámál miðað við það að 100–200 menn í þessum starfsgreinum missi atvinnuna vegna þess að mörg hundruð eða þúsundir missa atvinnuna með meginstefnunni sem hv. formaður fjh.- og viðskn. Ed. er að knýja fram. En það eigum við eftir að ræða betur þegar það kemur hér til umr. — Nei, nei, en þegar blaðamaður Morgunblaðsins var beðinn að koma þessu á framfæri var bara sagt að Davíð Scheving hefði sagt að þetta væri smámál. Viðbótinni var sleppt, vísvitandi auðvitað. Það sýnir líka innræti þessa manns.

Það er kannske hægt að hlæja að þessu máli í aðra röndina, að negrakossum og öðru slíku. Það er verið að rekja þetta aftur um 40 ár til þess að reyna að réttlæta það. Nú get ég vel tekið undir að það er ýmislegt skoplegt í grg. rn. um hvernig þetta hafi allt saman þróast. Þingmaðurinn nefndi negrakossana, að þær birgðir væru tiltölulega lítið skattlagðar. Hér er t.d. talað um ölkelduvatnið og það er talað um ófylltan brjóstsykur og fylltan með mismunandi gerðum. Svo er talað hér um einhverjar gúmmítöflur og annað slíkt. Þessi grg. er öll með endemum. Hvað kemur okkur þetta allt saman við? Mergurinn málsins er sá, að það er verið að skattleggja þessar atvinnugreinar, þessar iðngreinar sem þegar eiga í vök að verjast, til þess að ná peningum í ríkishítina. Það er mergurinn málsins. Það má alts ekki nota neina skatta á iðnaðinn til að auka iðnþróun eða slíkt. Nei, það er bannað. Það verður gaman að sjá upplitið á hæstv. iðnrh. þegar hann ætlar að fara að segja hvernig hann ætli að framfylgja öllum starfshópaskýrslunum og því öllu saman. Og kómedían í öllu saman er sú, að í ágústmánuði kemur neyðaróp til sendiráðs Íslands í Genf, algjört neyðaróp. Ég var staddur þar þá og við gátum ekki annað en hlegið — fulltrúarnir sem þar vorum, allir saman, held ég. Þá er þess krafist að sendiráðið þar heimti aukafund í EFTA-ráðinu, — ég held ég muni dagsetningarnar rétt — 4. sept., þó að fastafundur eigi að vera 14. sept., til þess að fá lagt á 40% gjald á sælgæti og 32% á kex. Það mátti ekki bíða í tíu daga. Ég held ég fari rétt með þessar dagsetningar. Það er hringt út um allan heim með fyrirskipanir að heiman, mönnunum, sem voru í fríi úti um allan heim, skipað að koma til Genfar til að afgreiða þetta mál. Leyfið fékkst. Menn voru náttúrlega guðsfegnir að komast í sólskinið aftur og afgreiddu þetta í hvelli. En hvaða áhrif haldið þið að þetta gjald hafi nú? Fresturinn er náttúrlega til 3–4 vikna. Hvað haldið þið að hafi gerst á honum. Það var allt fyllt hér af sælgæti. Og þetta gjald á að vera í 18 mánuði. Mér er sagt af þeim, sem best þekkja til, að þeir haldi að þetta sælgæti verði til alla þessa 18 mánuði. Og þeir, sem fara rétt með verðlagningarákvæði og slíkt, geta flutt inn smáfarm af sama gumsinu og tekið þessi 40% líka. Látum þetta nú allt saman vera. Svo er komið núna fjórum mánuðum seinna eða hvað það nú er og sagt: Þessi starfsgrein er svo vel á vegi stödd að það er hægt að skattleggja hana til að bjarga ríkiskassanum. Það er þetta sem verið er að segja.

Svo er náttúrlega ráðgert að fella niður alla styrki til iðnþróunar, eins og ég áðan gat um.

Við skulum gá að því, að Hagstofan hefur reiknað út vísitöluhækkun af völdum þessara 3.4 milljarða sem talið er að þetta gjald muni gefa. — Það verður auðvitað ekki, af því það dregur eitthvað úr sölu og þá minnka líka önnur gjöld. Gjöldin, sem var verið að gera grín að áðan, minnka náttúrlega líka hlutfallslega, sem auðvitað gerir kannske miklu minna. — Vísitalan hækkar sem sagt um 0.26%. Það lítur út fyrir að vera lítið. En hvað gerir þetta samt í vinnulaunum ríkisins og atvinnuveganna? Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar og atvinnuveganna gerir það strax á næsta ári 2.1–2.9 milljarða, áður en uppsöfnunaráhrif, ef nota má það orð, fara að koma fram, þegar ein hækkunin leiðir til annarrar meiri, eins og menn þekkja í vísitöluskriðunni. Ég held að hægt sé að fullyrða að það, sem ríkissjóður fær í auknum gjöldum fyrir þessa athöfn, þetta merkilega mál, verði mun minni fjárhæð en atvinnuvegirnir og ríkissjóður sjálfur verða strax að greiða í hækkuðum launum. Látum það nú vera út af fyrir sig, en þetta er ein smáskvetta í viðbót á verðbólgubálið. Hún er kannske ekki stór miðað við allt annað sem á undan er gengið. En hún sýnir á hvaða braut á að halda áfram. Þessi langversta ríkisstjórn, sem á Íslandi hefur setið frá því að við öðluðumst sjálfstæði, ætlar sér að keyra verðbólguna áfram vísvitandi, — ekki bara af vesaldómi, heldur vísvitandi. Það væri hægt að fyrirgefa það ef eitthvert gjald væri lagt á iðnaðinn eða jafnvel lagt á okkur með einhvers konar öðrum sköttum til að halda uppi iðnþróun, til að bjarga iðnaðinum sem er að hrynja í rúst, eins og raunar aðrir atvinnuvegir líka, enda er engu líkara en að stjórnarherrarnir, ráðherrarnir, stefni vísvitandi að því að kippa stoðunum undan öllum atvinnuvegunum og eru komnir vel á veg með það. (Gripið fram í: Ekki saltfiskverkun). Ja, ég þekki ekki vel til saltfiskverkunar, en ég hygg þó að ég þekki eitthvað meira til hennar en hv. þm., sem ég hygg að aldrei hafi dýft, svo maður orði þetta ekki öðruvísi, hendi í saltan sjó, og muni aldrei gera. Ég held að hann þekki nákvæmlega ekkert til íslensku atvinnuveganna, einskis þeirra, ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann er eins og blindur kettlingur í því sambandi.

Það má auðvitað segja að þetta sé kannske eins og dropi í hafið, en það er samt mikilvægt að Alþingi felli þetta frv. til að sýna að það ætlar ekki að láta ríkisstj. endalaust vaða áfram út í gapandi verðbólguna, brenna upp alla fjármuni þjóðarinnar eyðileggja atvinnuvegina. Það má segja að það sé smámál í þeim skilningi, hv. þm.

Ég ætlaði mér svo sannarlega ekki að tala lengi um þetta og hef kannske þegar talað nógu lengi, en það voru sannarlega gefin tilefni til þess af hv. frsm meiri hl., skulum við segja. — Hann varð meiri hl. þó hann væri ekki meiri hl. í morgun. — Eitt er þó enn að athuga í þessu, og það hafa ráðherrarnir líklega ekki vitað þó að embættismennirnir viti það. Samkvæmt nýja vísitölukerfinu, sem verið er að reikna út, þeim grundvelli sem það er reiknað á, munu sælgæti og gosdrykkir vega miklu miklu þyngra en nú er, þannig að 0.26% verði miklu, miklu meira, þannig að það geti vel svo farið að útgjöld ríkissjóðs eins af launagreiðslum, ef þessi breyting verður á vísitölukerfinu, verði allar tekjurnar eða meira til. Þá koma útgjöld atvinnuveganna að auki í auknum launagreiðslum. Þetta hafa þeir sjálfsagt ekki vitað. Og jafnvel þó þetta sé nú upplýst og þeir kynnu að kynna sér þetta á morgun dettur mér ekki í hug að þeir dragi frv. til baka. Þeir munu kýla það áfram. (Gripið fram í: Það er rétt skilið.) Já, það er rétt skilið. Það er aldrei tekið neinum rökum. Það er ekkert hugsað um velfarnað þjóðarinnar, heldur þjösnast áfram, hvaða upplýsingar sem liggja fyrir. Þó að allt sé byggt á röngum upplýsingum, röngum grunni, skiptir það engu máli hvað nýtt er upplýst. Það skal áfram, segir form. þess þingflokks sem ræður stefnu þjóðmála á Íslandi, sem ræður yfir hæstv. forsrh. t.d. Það eru aðalbrandararnir hjá embættiskerfinu núna, að það sé að verða þannig og muni verða strax þegar þetta nýja kerfi er komið upp, að það sé alveg sjálfsagt að hætta niðurgreiðslum á mjólk og greiða niður kók, það sé eina leiðin til að halda verðbólgunni í skefjum. Nei, þó það séu mótmæli á fimmta hundrað verksmiðjufólks og slíks, skal það að engu haft, okkur kemur það ekkert við.

Ég skal ekki fara mjög langt út í þessa umræðu, en verð þó að vekja á því athygli aftur, að það er stóra málið sem formaður félags iðnrekenda vék að og við höfum rætt mikið á mörgum fundum. Ég kann form. fjh.- og viðskn. alveg sérstakar þakkir fyrir hvað hann hefur lagt sig fram um að afla upplýsinga sem við höfum beðið um. Sumar hafa komið seinna en bæði við og hann hefðum viljað, en hann hefur lagt sig verulega fram, því þetta er miklu flóknara mál en ég get útskýrt hér á skömmum tíma og menn áttað sig á.

Það, sem er að gerast núna, er að 3% aðlögunargjaldið, sem hefur verið iðnaðinum töluverð vernd og hefur lagt verulegt fé til iðnþróunar, er að falla niður, en áfram stendur jöfnunargjaldið, sem að vísu kemur iðnaðinum að nokkrum notum í sambandi við uppsafnaðan söluskatt, en peningarnir, sem áttu að fara til iðnþróunar, verða hvergi finnanlegir, þeir hverfa út. Það er mjög athyglisvert, að formaður nefndar, sem fór til allra EFTA-landa í febr. 1979, hygg ég að það hafi verið, Ingi R. Helgason, kom á nefndarfund til okkar að okkar ósk og lýsti þar yfir að hann væri algjörlega ósammála því sem ríkisstj. væri að gera í þessu máli. Hann teldi að það væri alveg fullkomlega mögulegt að halda aðlögunargjaldinu áfram, því sem er fyrst og fremst til verndar iðnaðinum og styrkir hann, það þyrfti ekkert annað en halda vel á málum og af manndómi. Hann margendurtók það, ítrekað aðspurður, að hann teldi það rétta stefnu, en þá, sem hér er farið inn á, ranga. Það eru ummæli Inga R. Helgasonar, sem var formaður þeirrar nefndar sem út fór og tókst að fá aðlögunargjaldið samþykkt. Að vísu hafa einhverjar munnlegar yfirlýsingar verið gefnar um að reiknað væri með að það mundi falla niður nú um áramót, en Ingi R. Helgason taldi að það væri ekki nokkur minnsti vafi á að það væri hægt að framlengja þetta gjald, það gjald sem hefði getað orðið iðnaðinum að gagni.

Úr því að hæstv. iðnrh. hefur heiðrað okkur með komu sinni hingað vil ég gjarnan segja það, að ég var að geta þess áðan, að mér sýnist horfa þunglega fyrir iðnaðinum og iðnþróunaráætlunum og þeim störfum sem starfshópar hafa verið að vinna, ef málin verða knúin fram með þessum hætti, stórfelldri skattlagningu á þær iðngreinar án þess að iðnaðurinn njóti nokkurs, aðlögunargjaldið falli niður, en jöfnunargjaldinu verði haldið áfram. Það er aðför að íslenskum iðnaði. Það er enn ein atvinnugreinin sem á að keyra niður. Ég sagði: ein atvinnugreinin enn.

Skoðum hvernig atvinnuvegirnir eru staddir um þessar mundir. Við vitum um vanda sjávarútvegsins. Það sér enginn fyrir endann á því, hvernig hann verður leystur núna um áramótin. Hann er gífurlegur, bæði fiskveiðar og fiskvinnsla. Tökum svo til við iðnaðinn. Við höfum verið að lýsa því núna, hvert horfir þar. Það er enginn vafi á að það verður stórkostlegur samdráttur í íslenskum iðnaði strax á næstu mánuðum og atvinnuleysi, held ég að allir viti, hvort sem þeir játa það eða ekki, vegna verðbólgu og óstjórnar á öllum sviðum þjóðlífsins.

Og hvað með landbúnaðinn? Ég hygg að hag bænda hafi aldrei verið stefnt í annan eins voða og einmitt núna. Nýja lénsskipulagið, kvótakerfið, á eftir að verða landbúnaðinum dýrkeypt.

Tökum til dæmis verslunina. Hvað er sagt um dreifbýlisverslunina? Hún er í gífurlegum vanda stödd og verslun öll á landinu.

Við getum lítið á samgöngurnar. Það munaði minnstu að tækist að gera aðalsamgöngufyrirtæki landsins upp, þó það ætti gífurlegar eignir. Einnig þar sýndi hv. form. n. innræti sitt, í sambandi við Flugleiðamálið. Það er sem sagt í öllum atvinnugreinum sem stefnir í hreinan voða.

Ég ætla ekki að halda því fram, að ráðh., a.m.k. ekki allir, stefni beinlínis að því að setja allan atvinnurekstur á hausinn. Sumir stefna áreiðanlega að því að þrengja svo að einkaframtaki að hægt sé að auka þjóðnýtingu, t.d. í sjávarútvegi, að þjarma þannig að honum, eins og nú er gert, að fleiri og fleiri einstaklingar gefist upp og fyrirtækin færist yfir til ríkisins eða þá til sveitarfélaga og hægt og hægt verði þá komið á sósíalisma, enda er fjármagnið í þjóðfélaginu nú flutt í stríðum straumum frá fólkinu til ríkiskerfisins, til félagsmálabákns á öllum sviðum, sem öllu á að bjarga, og yfir til SÍS. Það er þangað sem peningarnir streyma. (ÓRG: Til SÍS?) Já, þeir streyma til SÍS. Veit hv. þm. ekkert um hvernig háttað er afurðalánagreiðslum t.d.? Það er verið að færa allt fjármagnið frá fólkinu. Það er verið að stjaka okkur í átt til sósíalisma og það vill auðvitað hv. þm. Hann er sósíalisti, ekki satt? (ÓRG: Ekki SÍS-sósíalisti.) Hann er sósíalisti, já. Hann vill sem sagt þjóðnýta sem mest af atvinnuvegunum. Þá er þetta vísvitandi gert með góðum árangri. Ég veit t.d. að hæstv. forsrh. vill þetta ekki þó hann geri það. Það er öðruvísi með þennan hv. þm. Hann beinlínis vill þetta. Hann keppir að þessu.

Við leggjum megináherslu á að þetta frv. verði fellt, og ég á von á að það verði fellt. Ég trúi því ekki, að svo sé hægt að „súrra“ saman þetta stjórnarlið að það gegn betri vitund ráðist með þessum hætti að iðnaði og gefi þessa innspýtingu í vísitöluna og þessa enn nýju yfirlýsingu um það, að áfram skuli haldið á sömu braut, þannig að verðbólgan verði engin 70% á næsta ári, eins og reiknað er með án allra viðbóta. Hún verður örugglega 100% þegar allir fá á tilfinninguna að það eigi að halda áfram á sömu braut, það eigi bara að skattpína fyrirtæki og einstaklinga endalaust, klekkja á einstaklingunum, klekkja á fyrirtækjunum, lama atvinnureksturinn, rýra lífskjörin og keyra verðbólguna áfram. Þetta eru menn að gera með opnum augum. Þess vegna vona ég sannarlega að þetta frv. verði fellt, nema þau undur skyldu ske að ríkisstj. í eitt skipti sýndi einhverja stjórn í þessu, einhver hyggindi og drægi málið til baka.