17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég efa ekki að það hefur verið á ýmsan hátt erfitt verk síðustu vikurnar, og þá ekki síst fyrir hæstv. fjmrh., að sitja í ríkisstj. án þess að hægt væri að fá ríkisstj. til að samþykkja að komast að niðurstöðu um afgreiðslu mála sem henni ber að afgreiða lögum samkvæmt. Það er án efa talsvert mikið álag á ráðh. að búa við þær aðstæður að þurfa að standa í því, eins og hæstv. fjmrh. hefur þurft að gera, að geta ekki lagt fram einn af þýðingarmestu þáttum viðfangsefnis síns í ríkisstj. á þeim tíma, sem lög mæla fyrir um, vegna ágreinings í stjórninni. Sjálfsagt hefur þetta m.a. haft þau áhrif á hæstv. ráðh., að hann hefur verið meira og minna úti á þekju síðustu daga í þinginu og man ekki að eigin sögn sjálfur fyllilega hvernig að málum var staðið rétt fyrir s.l. áramót. Það er alveg sjálfsagt að rifja það upp.

Eins og menn væntanlega muna og hæstv. ráðh. mun reka minni til ef hann skoðar grandgæfilega í skjalasafni sínu, þá stóðu yfir umræður um nýja stjórnarmyndun. Vegna vetrarkosninga og þess, sem á eftir fylgdi, var ekki meirihlutastjórn í landinu, og af þeim mjög óeðlilegu ástæðum þurfti að standa óeðlilega að afgreiðslu ýmissa mála. Eins og hæstv. fjmrh. er kunnugt gerðist það hins vegar í febrúarmánuði s.l., að heiðri Alþingis var bjargað með myndun nýrrar ríkisstj., sem er búin að sitja í landinu síðan og ætti því væntanlega ekki að vera neitt slíkt óeðlilegt ástand í stjórn landsins núna sem varð til þess um þetta leyti í fyrra, að ekki var hægt að framkvæma ýmsar þær aðgerðir sem ríkisstjórnum ber skylda til að láta frá sér fara, svo sem afgreiðslu lánsfjáráætlunar.

En svo að ég rifji þau mál eilítið meira upp, þá voru þau mál afgreidd hér á Alþingi þannig, að lagt var fram, rétt áður en Alþingi fór í jólafrí, frv. um heimildir til ríkisstj. til töku erlends lánsfjár með svipuðum hætti og upphaflega var í 4. gr. frv. þessa ætlunin að gera, þ.e. þáv. ríkisstj., sem var minnihlutastjórn Alþfl., var heimilað að taka erlent lán og ráðstafa því að höfðu samráði við fjvn. Alþingis. Alþm. treystu þá minnihlutastjórn Alþfl., sem ekki hafði þingmeirihluta á bak við sig, til þess að taka og ganga frá slíku erlendu láni, og alþm. treystu henni til þess að halda þannig á málum, þó að hún fengi þessa heimild, að ekki væri ástæða til að draga í efa að sú minnihlutastjórn Alþfl. mundi gæta fyllstu varfærni um ráðstöfun þeirra fjármuna. Einu skorðurnar sem henni voru settar voru þau að hafa samið við fjvn.

Eins og frv. var úr garði gert af núv. hæstv. ríkisstj. bað hún Alþingi um að hafa sama háttinn á við afgreiðslu þessa bráðabirgðaláns eins og gilti gagnvart minnihlutastjórn Alþfl. í fyrra. En þó að núv. hæstv. ríkisstj. hafi meiri hl. á Alþingi varð niðurstaða þessa meiri hl. sú, að þó svo að minnihlutastjórn Alþfl. hafi verið trúað fyrir slíkri afgreiðslu í desembermánuði á s.l. ári væri núv. hæstv. ríkisstj. ekki trúandi fyrir slíkri afgreiðslu á þessu ári.

Þess vegna herra forseti og hæstv. fjmrh., ákvað fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis að gera þá breytingu á 4. gr. umrædds frv. að fara ekki að þeim tilmælum núv. hæstv. ríkisstj. að láta hana fá sömu heimild og sambærilega afgreiðslu og minnihlutastjórn Alþfl. fékk fyrir einu ári. Fjh.- og viðskn. hv. Nd. var alfarið sammála um að verða ekki við þeirri ósk hæstv fjmrh. Ragnars Arnalds, en breyta þess í stað 4. gr. á þá lund, að honum væri og ríkisstj. með öllu óheimilt að ráðstafa einni krónu af þessu fé, jafnvel að höfðu samráði við fjvn.

Það er ekki rétt munað af hæstv. fjmrh., að hér sé verið að endurtaka sömu afgreiðslu og í fyrra. Aðstæðurnar eru allt aðrar núna en þá voru. Nú er meirihlutaríkisstj. búin að sitja í landinu síðan í febrúarmánuði. Þá var minnihlutastjórn. Og afgreiðslan, herra forseti, er allt önnur. Hún er á þá lund, að þingmeirihlutinn á Alþingi núna trúir hæstv. ríkisstj. ekki fyrir sams konar afgreiðslu og minnihlutastjórn Alþfl. fékk hjá Alþingi fyrir einu ári. Og hvers vegna skyldi nú þingmeirihluti hæstv. ríkisstj. ekki treysta henni til sambærilegrar afgreiðslu og minnihlutastjórn Alþfl. var veitt fyrir einu ári? Jú, svarið kom, herra forseti, fram í máli formanns hv. fjh.- og viðskn. Alþingis. Ástæðan er 1. og 2. gr. þessa frv., 172. máls. Formaður fjh.- og viðskn., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, þurfti nefnilega að láta þess sérstaklega getið, eins og dm. væntanlega tóku eftir, að hann teldi ástæðu til þess að líta mjög alvarlegum augum á það sem gerst hefði í framhaldi af afgreiðslu Alþingis á lánsfjárheimildalögunum á s.l. vori.

Eins og kemur fram í aths. við lagafrv. þetta var fjmrh. 6. júní s.l. heimilað að taka lán á yfirstandandi ári allt að 11.3 milljörðum kr. Hann tók hins vegar í heimildarleysi lán sem nam 4 milljörðum 750 þús. kr. hærri fjárhæð en Alþingi heimilaði honum. Þetta samsvarar því, að hæstv. ríkisstj. hafi á hverjum einasta mánuði af starfstíma sínum farið 790 millj. kr. umfram heimildir Alþingis í erlendum lántökum. Á hverjum einasta mánuði starfstíma núv. ríkisstj. hefur hún samkv. þessu tekið að meðaltali 790 millj. kr. að láni erlendis umfram það sem Alþingi heimilaði henni að gera. Og þó svo — eins og hæstv. fjmrh. minntist á hér áðan — að fjölmörg fordæmi megi finna fyrir því, að ríkisstj. hafi farið fram úr heimildum Alþingis til að taka lán erlendis, þá er ég alveg sannfærður um að slíkt og þvílíkt fordæmi verður aldrei fundið, að ein ríkisstj. skuli á sex mánaða tímabili fara 41.8% fram úr heimildum Alþingis til erlendrar lántöku, að ein ríkisstj. skuli að meðaltali á hverjum einasta mánuði, sem hún hefur setið, taka 790 millj. kr. að láni erlendis umfram það sem Alþingi hefur heimilað henni. Slík ríkisstj. hefur aldrei, herra forseti, setið að völdum á Íslandi fyrr.

En það er ekki bara það. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að í verðbólgu af því tagi, sem orðið hefur í valdatíð Alþb. verða menn að horfast í augu við þá staðreynd, að áætlanir, sem gerðar eru jafnvel í júní, jafnvel á miðju ári, standast ekki 2–3 mánuðum síðar. Og menn verða þá að vera við því búnir að þurfa að afla meira fjár til að standa undir ráðgerðum framkvæmdum, ef á að ljúka því framkvæmdamagni sem áformað var, vegna þess að áætlanir standast ekki. Í ræðu minni áðan gagnrýndi ég þetta athæfi ekki mjög mikið, því að það eru fjölmörg fordæmi til fyrir því, þó að mismunurinn á milli áætlunartalna og framkvæmdatalna eða kostnaðartalna hafi sennilega aldrei verið meiri en á s.l. sex mánuðum, af þeim einföldu ástæðu að verðbólguvöxturinn hefur sjaldan verið hraðari.

En það, sem við fyrst og fremst gagnrýndum, ég og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, frsm. og formaður fjh.- og viðskn. Nd., var ekki þetta, heldur hitt, sem hæstv. fjmrh. minntist ekki á í ræðu sinni hér áðan, að hæstv. ríkisstj. hefur brugðið á það ráð, á þessum fáu mánuðum sem hún hefur setið, að afla lánsfjár ekki bara til að ljúka framkvæmdaáformum sem rædd höfðu verið og staðfest af Alþingi, heldur að ákveða sjálf lánsfjáröflun til framkvæmda sem fjárveitingavaldið og Alþingi höfðu aldrei fjallað um. Það er allt annar handleggur heldur en hitt, að framkvæmdakostnaður kunni að fara fram úr áætlun í 50–60% verðbólgu og menn verði að útvega meira fé af þeim ástæðum. Það er allt annar handleggur, herra forseti, hvort ríkisstj. þarf á auknum fjármunum að halda af þeim sökum eða hvort ástæðan er sú, að ríkisstj. hafi upp á sitt eindæmi ákveðið að ráðast í framkvæmdir, sem kosta þjóðina hundruð millj. kr. í erlendum lántökum, án þess að hafa nokkurn tíma rætt það við Alþingi eða fengið það samþykkt af Alþingi.

Það var fyrst og fremst þetta sem við gagnrýndum, ég, hv. þm. Matthías Bjarnason og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, formaður fjh.- og viðskn. Og þetta, herra forseti, held ég að hæstv. fjmrh. ætti að gera sé ljóst. Það er þetta sem fyrst og fremst er verið að gagnrýna. Það er það, að hæstv. ríkisstj. skuli leyfa sér að hafa lánsfjárlög að engu með þessum hætti, með þeim hætti, að hún ákveði sjálf nýjar framkvæmdir upp á hundruð millj., sem kosta verður með erlendu lánsfé, — framkvæmdir sem aldrei hafa verið ræddar við Alþingi, hvað þá staðfestar eða samþykktar af Alþingi.

Það er þetta fordæmi sem við þurfum fyrst og fremst að óttast, fordæmi eins og virðist hafa verið, að ríkisstj. skuli a.m.k. eftir á segjast hafa vitað að tiltekin framkvæmd stæði til, eins og var t.d. með kaupin á þyrlu Landhelgisgæslunnar, en vegna þess, eins og hæstv. dómsmrh. lét út úr sér við fjölmiðla, að erlendum lántökum hafi verið ákveðinn stakkur skorinn, hafi ríkisstj. ákveðið að láta þessarar framkvæmdar að engu getið við Alþingi, leyna Alþingi því, að þetta stæði til, og koma svo eftir á. (Gripið fram í.) Hæstv. dómsmrh. sagði þetta víst. (Gripið fram í: Aldrei.) Hann sagði það, hæstv. ráðh., í viðtölum við fjölmiðla, að ríkisstj. hefði, vegna þess að lánsfjáráætlun hefði verið sniðinn ákveðinn stakkur, ákveðið að lánsfjáröflunar vegna þyrlukaupa Landhelgisgæslunnar yrði þar ekki getið. Hæstv. ráðh. bætti því einnig við, að ríkisstj. hefði ekki átt von á því, að til þess kæmi fyrr en eftir áramótin að ganga þyrfti frá þessum þyrlukaupum, en þar sem fregnir hefðu borist af því til ríkisstj. að þyrlan væri tilbúin fyrr, þá hefði að sjálfsögðu ekki verið um annað að ræða en ganga frá kaupunum og tilheyrandi fjármagnsútvegun. En hæstv. ráðh. sagði, ég ítreka það, að um þessa framkvæmd hefði ríkisstj. vitað áður en lánsfjárheimildir voru afgreiddar og samt sem áður ekki haft fyrir því að láta fjárveitingavaldið, Alþingi, vita af því.

Þetta er að sjálfsögðu fordæmi sem er ekki góð forspá, vegna þess að þetta þýðir, ef Alþingi fellst á svona afgreiðslu mála, að ríkisstj. geti gert sér leik að því að leggja fram ófullburða lánsfjáráætlun — eins og hæstv. ríkisstj. lagði fram á s.l. vori ófullburða fjárlagafrv. — þ.e. lánsfjáráætlun þar sem ekki kemur fram nema hluti af ráðgerðum framkvæmdum og fjáröflun, til þess að láta í veðri vaka að erlend fjáröflun eigi að vera minni en ríkisstj. hefur í raun réttri ákveðið.

Og, herra forseti, nú rétt áðan benti hv. þm. Matthías Á. Mathiesen mér á þá athyglisverðu staðreynd, að einmitt þetta er verið að gera í lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj. sem nýlega hefur verið lögð fram. Það eru talin upp tiltekin verkefni sem á að útvega erlent lánsfé til. Síðan er listinn lagður saman og niðurstöðutala fengin og sagt: Þetta eru þau erlendu lán sem taka á. En í næstu setningum á eftir eru talin, að mig minnir, þrjú lántökuverkefni sem segir að ríkisstj. hafi auk þess áformað að sinna, en útgjöldin vegna þeirra eru hvergi sýnd.

Það er þetta fordæmi, herra forseti, sem ég varaði við að væri verið að gefa með afgreiðslu á þessu frv. hér. Og það er þetta fordæmi, herra forseti, ein ríkisstj. er svo fljót að grípa, að á sama tíma og hún er að biðja okkur um að afgreiða og staðfesta þetta fordæmi sitt frá því í ár leggur hæstv. fjmrh. fram skýrslu um lánsfjáráætlun, sem liggur á borðum hv. þm., þar sem er beinlínis fram tekið að þessi vinnubrögð eigi að viðhafa áfram.

Þetta var það, sem við þremenningarnir, sem hér höfum talað úr fjh.- og viðskn., og stjórnarstuðningsmaðurinn hv. þm. Halldór Ásgrímsson, höfum harðlega gagnrýnt. Það er jafngott að hæstv. fjmrh. geri sér ljóst hvað það er sem menn, þ. á m. hans eigin stuðningsmenn, eru að gagnrýna ríkisstj. fyrir. Það er ekki það, að framkvæmdakostnaður kunni að hafa farið fram úr áætlunum og því þurft að afla meira lánsfjár en gert var ráð fyrir í upphafi, heldur hitt, að ríkisstj. skuli gera sér leik að því að halda ákveðnum áformuðum framkvæmdum og útgjöldum leyndum fyrir fjárveitingavaldinu, þegar verið er að afgreiða tilmæli hennar um lánsfjártökur til þessara verkefna, og ætla svo að eyða fénu engu að síður, ráðast í framkvæmdirnar engu að síður og fá það síðan staðfest eftir á.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Ég hef þegar gert það mjög ítarlega. Við Alþfl.menn höfum oft lýst því yfir, að ýmislegt í svokölluðum Ólafslögum sé mjög þarft og gott ef þeim atriðum væri framfylgt. En eins og hv. þm. Matthías Bjarnason sagði áðan er gallinn við Ólafslög sá, að þau atriði í þeirri lagasetningu, sem skipta mestu máli, eru virt að vettugi af stjórnvöldum, ríkisstj. framfylgir þeim ekki. Og það fer e.t.v. ekkert illa á því, að þessi lög, sem kennd eru við einn af helstu forvígismönnum Framsfl., séu í þessari ríkisstj. að jafnlitlu hafandi og Framsfl. sjálfur er þar.