17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna fsp., sem kom áðan fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., Árna Gunnarssyni, þykir mér rétt að gera grein fyrir því, hvers vegna miðað er við 25 milljarða lántöku.

Íslendingar eiga þess kost að taka lán í Lundúnaborg í janúarmánuði n.k., og fjmrn. og Seðlabankinn hafa undirbúið að sú lántaka geti farið fram 12. jan. n.k. Þetta lán er ekki enn fastákveðið að fjárhæð, en talað hefur verið um að lántökuupphæðin yrði á bilinu 12–20 millj. punda. Ekki hefur verið gert ráð fyrir því að lánið næði hámarkstölunni. Það hefur verið gert ráð fyrir að lánsfjárupphæðin yrði einhvers staðar á bilinu 15–18 millj. punda og 18 millj. punda nægja sennilega nokkurn veginn, en það eru 25 milljarðar. Það er rétt, sem kom hérna fram hjá hv. þm., að við gætum hugsanlega tekið þarna 20 millj. punda lán, en við höfum ekki gert ráð fyrir að lántakan yrði meiri en á bilinu 15–18 millj. Þetta fer líka nokkuð eftir eftirspurn á bréfum, og sennilega hafa menn ekki gert ráð fyrir að bréfin mundu seljast alveg 100%.

Ég held sem sagt að ekki þurfi að gera neina breytingu á frv. hvað þetta snertir, því að talan 25 milljarðar er í fullkomnu samræmi við það sem við höfðum gert ráð fyrir.

Ég hirði ekki um að fjölyrða um það sem hefur að öðru leyti komið fram í umr. frá því að ég talaði hér seinast. Mér heyrðist að ræður hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesens og Birgis Ísl. Gunnarssonar væru meira eða minna endurtekning á því sem áður var fram komið, án þess að nokkur minnsta tilraun væri gerð til að svara því sem ég hefði sagt hér og bent á. Ég benti á það sem er óvefengt að ríkisstj. viðkomandi fagráðuneyti, hefur heimild í lögum til lántöku með samþykki fjmrn., ef um B-hluta fyrirtæki er að ræða, og flestar þær lántökur, sem um er rætt í 2. gr., eru þessa eðlis, þannig að það skortir ekkert á um heimildir til að taka þessi lán. Má segja að formsins vegna hefði mátt fella út úr frv. nokkur af þessum lánum, þar eð Alþingi hefur veitt almennar heimildir í almennum lögum varðandi rekstur B-hluta stofnana og þessar lántökur rúmast innan þeirra. Hins vegar er þörf á ábyrgðarheimildum í nokkrum tilvikum og rétt þótti að setja þetta fram í heilu lagi þannig að þm. fengju fullkomið yfirlit yfir hvað hér er um að ræða.

Það er verið að fjölyrða hér um það af hverjum þm. af öðrum, að verðlags- og gengisþróun hafi orðið önnur en ríkisstj. gerði ráð fyrir á s.l. vetri, og það sé nú aldeilis stórhneyksli, að fjmrh. skuli hafa gert ráð fyrir einhverju allt öðru en var. Það hefur líklega aldrei gerst áður, að fjárlög eða lánsfjáráætlun hafi verið miðuð við ákveðnar forsendur sem síðan hafi reynst aðrar. Auðvitað er þetta þess háttar málflutningur að hann er ekki svara verður. Þetta hefur gerst á hverju einasta ári um mjög langt skeið, og verðlags- og gengisþróun hefur venjulegast ekki orðið nákvæmlega eins og búist var við.

Nú gerum við ráð fyrir því í lánsfjáráætlun og fjárlögum, að verðlagsþróun frá miðju þessu ári til miðs næsta árs verði 42%, og við höfum miðað okkar áætlanir við þetta markmið. Hins vegar er engin vissa fyrir því, að þetta takmark náist. Auðvitað er ósköp auðvelt fyrir þm. að standa upp og vara við því, að þetta geti brugðist. Auðvitað vita allir að þetta getur brugðist. En þetta er markmið okkar og við það munu okkar efnahagsráðstafanir miðast á næstu mánuðum, þó við hins vegar gerum okkur ljóst að í þessum efnum er margt sem getur breyst, margháttuð óvissa, svo að ekki er hægt að fullyrða nákvæmlega hvernig til tekst. Það væri þá kannske frekar að spyrja hv. þm. Sjálfstfl. sem mest tala um það hér, að verðbólga verði meiri en 42% og þess vegna séu fjárlög og lánsfjáráætlun byggð á sandi. Vilja þeir setja markið hærra? Vilja þeir reikna með því, að verðbólgan verði töluvert hærri en 42%?