17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

156. mál, tímabundið vörugjald

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í áliti meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. skrifa ég undir nál. meiri hl., þar sem lagt er til að frv. þetta sé samþykkt, með fyrirvara. Fyrirvari minn lýtur að því, að ég tel löngu orðið tímabært að hv. Alþingi og ríkisstj. taki til skoðunar hversu lengi menn hyggjast hafa þetta vörugjald og þá með hvaða hætti. Þetta vörugjald var upphaflega lagt á sem sérstakt tímabundið gjald og heitir svo enn, en ávallt hefur verið brugðið á það örþrifaráð að framlengja þetta gjald um eitt ár í senn rétt í þinglok. Þessi afgreiðslumáti, að líta ávallt á gjald þetta sem bráðabirgðaráðstöfun frá einu ári til annars, hefur orðið til þess, að menn hafa raunar aldrei gefið sér tíma til að skoða þetta gjald, hvernig það er framkvæmt og hvernig það er á lagt, eins og menn hefðu gert í upphafi ef þeir hefðu ætlað þessu gjaldi jafnlanga lífdaga og því hefur enn auðnast.

Ég tel að ekki megi við svo búið standa, heldur verði menn að fara að gera upp við sig hvernig þeir ætla að haga þessari gjaldtöku í framtíðinni, hvort þeir ætla að hafa þetta sérstaka tímabundna vörugjald með óbreyttum hætti og framlengja það alltaf frá ári til árs, eins og gert hefur verið með heldur lélegum árangri eða hvort ástæða þykir til að gera það einfaldlega upp við sig, að eitthvert gjald af þessu tagi verði menn að hafa til frambúðar, af þeirri einföldu ástæðu að ég hygg að enginn flokkur hafi treyst sér til þess að leggja til slíkan niðurskurð á útgjaldaliðum fjárlaga sem þyrfti ef gjaldið ætti að leggjast niður, og þá — að tekinni ákvörðun um að framlengja eða fastsetja eitthvert gjald hliðstætt þessu — að ákveða með hvaða hætti það gjald ætti að vera. Þessa ákvörðun draga menn stöðugt þegar þeir framlengja svona gjald frá ári til árs. Slíkur starfsháttur verður til þess, eins og ég sagði áðan, að menn geta aldrei gefið sér tíma til þess að skoða, hvernig þetta gjald vinnur, og sníða af því ýmsa vankanta.

Ég vil aðeins vekja athygli í þessu sambandi á því, herra forseti, að eins og ríkisstj. sjálf raunar tekur fram í grg. með fjárlagafrv. er meginhlutinn af tekjuöflunarhlið fjárlaga í hreinu uppnámi. Hæstv. ríkisstj. lýsir því yfir í aths. með fjárlagafrv., að ekki sé að marka tekjuskattslögin eins og þau séu því að þau verði tekin til endurskoðunar, ekki sé að marka þær tölur, sem í fjárlagafrv. séu um sjúkratryggingagjald, því að ákvæðin um sjúkratryggingagjald verði tekin til endurskoðunar, og ekki sé að marka þær tölur, sem í frv. séu og gildandi ákvæði um eignarskatta, þar sem þau ákvæði muni verða tekin til endurskoðunar af hæstv. ríkisstj., og með því frv., sem hér er flutt, er raunar verið að lýsa yfir að einn snarasti þáttur í óbreyttri skattheimtu ríkissjóðs, hið sérstaka tímabundna vörugjald, standi einnig í uppnámi.

Ég held að farið sé að verða mjög nauðsynlegt fyrir menn að reyna einhvern veginn að hverfa frá svona bráðabirgðaafgreiðslu ár eftir ár — og þar eigi engin ein ríkisstj. frekar sök en aðrar — og skoða tekjuöflunarmál ríkissjóðs í heild sinni, þ. á m. þetta gjald, svo að ekki þurfi að reka að því ár eftir ár, eins og nú á sér stað, að tekjuöflunarhlið ríkissjóðs standi bókstaflega öll meira og minna í uppnámi. Ég vil einnig koma því að í þessu sambandi, að svo nauðsynlegt sem það er að endurskoða vörugjaldið, álagningu þess, tekjuskatt á einstaklingum o.s.frv., þá held ég að það sé einna nauðsynlegast af öllum tekjustofnum ríkissjóðs að hyggja sérstaklega að söluskattinum, vegna þess að það söluskattskerfi, sem nú er notað, er orðið svo götótt, svo fullt af undantekningum og undanþáguákvæðum og svo erfitt í framkvæmd, að nærri lætur að söluskattskerfið, eins og það er nú í dag, sé með öllu óhæft sem tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð.

Herra forseti. Þessi mál þarf að skoða í heild þ. á m. þetta tímabundna vörugjald. Við Alþfl.-menn höfum ekki flutt um það till. við afgreiðslu fjárlagafrv. nú að lækka útgjaldaliði fjárlaga um þá upphæð sem þyrfti að lækka fjárlagaútgjöld um ef ætlað er að fella niður umrætt vörugjald. Við lítum svo á, að ef menn flytja tillögur um niðurfellingu vörugjaldsins, eins og hv. sjálfstæðismenn hafa gert, á sama tíma og verið er að afgreiða fjárlög, þá séu menn jafnframt skuldbundnir til að sýna fram á það með tillögugerð í fjárlagaafgreiðslunni, hvernig ætti að mæta þeim tekjuvanda sem skapast við niðurfellingu vörugjaldsins, hvort menn hyggjast mæta honum með niðurskurði á útgjöldum ríkisins og þá hverjum eða hvort þeir hyggjast mæta honum með annarri tekjuöflun. Eins og ég segi, þrátt fyrir þá aths., sem við Alþfl.-menn gerum um þetta sérstaka tímabundna vörugjald og ég hef lýst hér, höfum við ekki við fjárlagaafgreiðsluna nú flutt till. um niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs, sem nemur þeirri upphæð sem ríkissjóður hefur í tekjur af vörugjaldi, né heldur flutt till. um tekjuöflun sem gæti komið þar á móti. Þess vegna finnst okkur óeðlilegt að leggja til að þetta tímabundna vörugjald sé fellt niður, þó svo við sjáum ýmis tormerki á gjaldinu eins og það er úr garði gert.