17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

156. mál, tímabundið vörugjald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins gera aths. við þau ummæli hv. 3. þm. Vestf., að menn megi ekki gera tilraun til þess að flytja till. um að einhverjir af þessum sköttum lækki eða falli niður án þess að útskýra jafnframt í smáatriðum hvernig maður vilji mæta því. Það yrði til að ergja óstöðugan, er ég hræddur um, ef ætti að demba yfir Alþingi öllu því pappírsflóði sem því fylgdi, ef öllum till., sem hér koma fram, fylgdi nákvæmur útreikningur um útfærsluna síðar meir.

Kjarni málsins er að sjálfsögðu sá, hvort meiri hl. þessarar deildar er til viðræðu um að leggja þetta vörugjald niður. Ég efast ekki um að við getum fundið leiðir til að skera niður útgjöldin á eftir. Útgjöldin hafa vaxið svo mikið á síðustu árum, að það ætti að vera vandalaust — og það er einmitt hlutverk þessarar stofnunar og þeirra sem hér sitja — að stilla útgjöldunum svo í hóf að þau séu ekki manndrápsklyfjar á fólkið í landinu.

Ég vil aðeins minna á það, sem ég hef oft gert áður, að á sama tíma og þjóðartekjur dragast saman tekur ríkið hlutfallslega meira í sinn hlut. Það dregur ekki útgjöld sín saman í réttu hlutfalli við minnkandi þjóðartekjur, eins og eðlilegt væri. Það er þessi vinstri villa, sem við viljum ekki fara inn á. En ég spyr: Er þessi hv. þm. til viðtals um að leggja vörugjaldið niður og við fyndum okkur svo í sameiningu tíma til þess að skera niður útgjöldin? Það er kjarni málsins.