17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

155. mál, ferðagjaldeyrir

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. kom hér að mjög stóru og merkilegu máli. Það er rétt sem hann segir, að það er afskaplega takmarkað frelsi sem fólk hefur þegar það er einu sinni komið til Íslands. Íslendingar, sem státa af algeru frelsi, átta sig ekki á því, að hér er eitt mesta ófrelsi sem ég hef þekkt í nokkru landi, og hef ég þó búið í einum 4–5 löndum erlendis um þó nokkurt árabil. Hér er ekki athafnafrelsi til nokkurs skapaðs hlutar ef menn vilja færa sig á milli landa.

Ég hafði það að atvinnu í rúman áratug að ferðast á milli landa og vinna í ýmsum löndum og átti aldrei nokkurn tíma í neinum vandræðum með að flytja eignir mínar með mér. En komi einhver maður, íslenskur eða erlendur, til Íslands einu sinni með það sem hann á, hvort sem það er í peningum eða öðrum eignum, þá er útilokað að yfirfæra þær eignir milli landa eða andvirði fasteigna ef fjármagnað hefur verið í þeim. Ef um lausafé er að ræða fer það eftir svo ströngum gjaldeyrisreglum að hér ríkir algert ófrelsi hvað einstaklinga snertir. Hér er fólk í átthagafjötrum, ef það vill ekki skilja eignir sínar hér eftir. Ég veit um erlenda konu sem kom hingað og giftist íslenskum manni. Hún kom með talsvert fé með sér og hún fjárfesti í fasteign sem þau bæði nutu. Síðan skildu þau. Hún seldi eignina og fékk fyrir hana um 1970, eitthvað um 12–13 millj. kr. Hún hafði heimild til þess að yfirfæra sem svaraði 100 eða 150 þús. kr. á ári. Þannig eru reglurnar. Hér er eitt hið ófrjálsasta land sem ég þekki til í þessum efnum.

Svo að ég komi inn á það mál sem ég flutti hér fyrir nokkrum dögum þegar ég var að leggja til að fella niður stimplun á innflutningsskjölum, þá er alveg óskiljanlegt að íslenskir aðilar og íslenskir bankar skuli gæta svo hags þeirra, sem búa annars staðar, að alla vöru, sem flutt er til Íslands, á að greiða fyrir fram. Það er hvergi hægt að koma upp frjálsum viðskiptum eða frjálsu samkomulagi á milli manna. Þetta er alveg furðulegt. Og svo höldum við að við búum í frjálsu samfélagi. Það er óralangt frá því.

Hv. þm. gat líka um það, að allt gjaldeyrisbrask hefði dottið niður við tilkomu þessa ferðagjaldeyris og að ferðagjaldeyrir væri nú óskammtaður, svo að menn gætu gengið inn og keypt það magn sem þeir vildu. Þetta er langt frá því að vera rétt. Ég skildi hv. þm. þannig og ég bið afsökunar ef ég hef misskilið hann. (SighB: Þetta gjald hefur aukið skammtinn.) Það má nú sjá minna. Þetta eru lög nm. að auka hann, þ.e. verðgildið, um 10% í íslenskum krónum. Auðvitað lækkar gengið á erlendum gjaldeyri, en það er ekki stóraukið sem menn fá, það er ekki frjálst sem menn geta keypt.

Gjaldeyrisbrask verður stundað svo lengi sem erlendir aðilar á Íslandi nota erlendan gjaldeyri á Íslandi. Ef hv. þm. loka augunum fyrir því, að hér streymir inn gjaldeyrir frá herstöðinni í Keflavík, þá veit ég ekki á hvað menn horfa þegar þeir líta á gjaldeyrismálin í heild. Ferðamálaráð telur að það séu 2–3 milljarðar í erlendum gjaldeyri sem koma frá Keflavíkurflugvelli á hinn svarta markað sem hv. þm. gat um að væri kannske ekki til. Það er fyrir löngu orðið tímabært, að þeir aðilar verði skyldaðir til að nota íslenskar krónur, þ.e. að skipta því, sem þeir þurfa að nota, í gjaldeyrisbönkunum í staðinn fyrir að nota erlendan gjaldeyri í hluta landsins. En þetta er aukainnskot sem ég ætlaði ekki að tala um hefði tilefni ekki gefist.

Það, sem ég vildi benda á, er að hér er um tekjur af ferðamönnum að ræða, hvort sem þeir eru á leið til útlanda eða eru að koma til landsins, því að erlendum gjaldeyri er yfirleitt skilað inn í bankana þannig að hann gefur tvöfaldar tekjur þegar hann kemur inn í bankakerfið og eins þegar hann fer út aftur. Á sama tíma sem ríkisbankarnir hér eiga að innheimta 2 400 millj. kr. í aukaskatta á almenning, þá vill svo til annað árið í röð, að tekjur ferðamálaráðs eru skornar svo niður, að miðað við það framlag, sem því er nú ætlað á fjárlögum, er ráðið ekki starthæft. Það á að hafa ákveðnar prósentutekjur af sölunni á Keflavíkurflugvelli. Nú minnkar umferð um Keflavíkurflugvöll og þá minnka tekjur þess að sjálfsögðu líka. Ferðamálaráð fékk ekki s.l. ár það sem því ber samkv. lögum. Og Ferðamálaráð fær enn minni tekjur í ár en s.l. ár, en kvaðirnar, sem á því hvíla samkv. lögum, minnka ekki. Þær eru þær sömu eftir sem áður. En því tala ég um þetta hér og nú í sambandi við ferðagjaldeyri, að þetta er tengt eins og hver og einn hlýtur að sjá.

Ég hef staðið hér upp og því væri freistandi að ræða annað sem tengist þessu óbeint, en ég mun koma að því þegar það mál kemur á dagskrá. Það snertir ferðamál að sjálfsögðu, og það eru flugmálin. Ég vil bara benda á það, að ef allar óskir þm. um framkvæmdir um land allt hefðu verið teknar til greina, þá hefðu flugmálayfirvöld komið með óskir um fjárfestingar upp á ca. 2.4–2.5 milljarða kr. Nú er það svo, að rn. hafði gert flugráði boð um að koma ekki með tillögur fram yfir 1 885 millj., en í frv. núna er 2.2 milljarðar eða rúmlega það. Sem sagt, framlag til allra framkvæmda í flugmálum og framlag til Ferðamálaráðs núna nær tæplega því sem kemur inn bara fyrir sölu á ferðagjaldeyri. Þessu til viðbótar koma svo tekjur af flugvallagjaldinu sem er hér til umræðu svolítið seinna. Ef við sleppum Ferðamálaráði úr þessu og tökum bara það sem á að fara sem framkvæmdafé til flugmála um land allt á komandi ári, þá eru það rúmir 2.2 milljarðar. En tekjurnar af þessum ferðagjaldeyri einum, bara þessi 10%, — við skulum ekki láta það blekkja okkur, það eru meiri tekjur af ferðagjaldeyri en það, þetta er bara aukagjald, — aukagjaldið eitt gefur ríkissjóði sem svarar um 200 millj. kr. meira í þessum skatti heldur en fer til flugmála samtals. Síðan skulum við sjá hvað kemur inn fyrir flugvallagjaldið til viðbótar. Segjum svo að ríkissjóður sé ekki í sæmilegum „bisness.“

Þetta er það sem ég vildi benda á. Allt er þetta tengt ferðamálum flugmálum og starfsemi Ferðamálaráðs að sjálfsögðu. Ég vildi bara benda á þessi atriði. Ég held að það sé fyrir löngu kominn tími til þess — og ég hef áður sagt það í þessari hv. deild — að endurskoða tekjur og gjöld. Hvað er það í fari ríkisins sem gerir það að verkum, að einn lítill liður, sem snertir ferðamál bæði innlendra og erlendra, skuli af sölu til innlendra aðila taka 200 millj. kr. meira en fer í framkvæmdir á vegum flugmála á öllu landinu? Hvað gerir það að verkum, að við þurfum alla þessa peninga, alla þessa háu skatta? Ég veit það ekki. Ég vil benda á þetta af því að mér finnst það afskaplega ósanngjarnt og lítið hugsað.