17.12.1980
Neðri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég tel enga ástæðu til að tefja afgreiðslu þessa máls á einn eða neinn veg og mun ekki gera það, heldur stend að samþykkt þess eins og kemur fram á nál. En ég vil aðeins taka fram í þessu sambandi og vekja athygli manna á því, þegar málið er nú afgreitt, hversu gífurlegt djúp er orðið staðfest á milli lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna annars vegar og hins vegar félagsmanna í hinum almennu lífeyrissjóðum. Og ég vek sérstaklega athygli á því, að hæstv. ríkisstj., sem nýlega hefur samið við starfsmenn ríkisins um stórbætt lífeyrisréttindi, hefur svo til í sömu andránni neitað lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði um sambærileg lífskjör.

Svo að örfá dæmi séu tekin, þá er lágmarksaldur til töku lífeyris á venjulegum vinnumarkaði nú 70 ár, en hjá ríkinu getur starfsmaður öðlast fullan rétt til lífeyristöku aðeins 60 ára að aldri. Það er orðinn 10 ára réttindamismunur þarna á milli ríkisstarfsmanns annars vegar, sem nýtur auk þess fullrar verðtryggingar á sínum lífeyri, og hins vegar aðila úr hinum almennu lífeyrissjóðum. Og ég vek athygli á því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð ástæðu til að bæta úr þessu mikla misrétti þó að eftir því hafi verið sótt.

Í annan stað er það mjög verulegt misrétti þarna, á sama tíma og félagar í hinum almennu lífeyrissjóðum fá aðeins 1.8% fyrir hvert iðgjaldsár 30 tekjuhæstu árin, en 0.9% fyrir hvert ár umfram 30 þá fá félagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ávallt í öllum tilvikum 2% á ári í starfi allt fram til sjötugs. Þarna er mjög verulegur réttindamismunur á milli starfsmanna ríkisins og alls annars atmennings í landinu, sem hæstv. ríkisstj. hefur aukið á, en ekki jafnað, og hefur ekki verið fáanleg til að veita félögum í hinum almennu lífeyrissjóðum sambærileg réttindi og þau sem hún hefur samið um við starfsfólk ríkisins.

Þá hefði einnig þurft að taka til sérstakrar athugunar þau ákvæði um greiðslur úr lífeyrissjóði opinberra starfsmanna sem virðast gera það fært að maður, sem t.d. hefur starfað hjá ríkinu í hálfu starfi mestalla sína starfsævi, geti öðlast fullar lífeyrisgreiðslur með því einu að breyta til úr hálfu starfi yfir í fullt starf t.d. síðasta starfsár sitt. Þetta er ekki æskilegt og eðlilegt fyrirkomulag, á sama hátt og það er ekki æskilegt og eðlilegt fyrirkomulag að starfsmaður hjá því opinbera, sem hefur unnið heils dags starf alla sína ævi, en ákveður síðustu ár starfsævi sinnar að draga við sig vinnu og færa starfsemi sína hjá ríkinu niður í hálfs dags starf, skuli verða að taka greiðslu sem miðast við hálfan lífeyri. Þetta eru atriði sem sérstaklega hefði þurft að athuga í sambandi við afgreiðslu þessa máls, en verður væntanlega gert eftir áramótin, ef marka má orð formanns hv. nefndar.

En ég vildi láta þetta frv. fara svo í gegn, að ég reyndi ekki að vekja sérstaka athygli hv. alþm. á hinni gífurlegu mismunun sem hæstv. ríkisstj. hefur enn aukið á, milli annars vegar almennings í landinu, sem á ekki aðild að lífeyrissjóðum á vegum opinberra aðila, og hins vegar starfsmanna ríkisins. Og ég vek enn og aftur athygli á því, að hæstv. ríkisstj. hefur verið ófáanleg til að veita öllum almenningi í landinu sambærileg lífeyrisréttindi og hæstv. ríkisstj. hefur samið um við starfsmenn ríkisins.