17.12.1980
Neðri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Frsm. 1 minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft þetta frv. til umfjöllunar um nokkurt skeið. Ég gerði grein fyrir áliti mínu á frv. þessu við 1. umr. málsins, en almennt um málið vil ég segja það, að vorið 1978 voru sett skattalög. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, þáv. fjmrh., lagði á það mikla áherslu þá - og þykir mér vænt um að hann skuli vera genginn í salinn — að lög þessi skyldu miðuð við staðgreiðslu skatta. Ég var þeirrar skoðunar þá, að það væri óraunhæft að koma á staðgreiðslukerfi skatta í ársbyrjun 1979 og því væri betra að miða lögin ekki við það. Á þetta var hins vegar lögð mikil áhersla, og niðurstaðan varð sú, að lögin voru miðuð við það að staðgreiðslukerfi skatta yrði upp tekið 1. jan. 1979.

Í þeirri umræðu komust menn að niðurstöðu um það, að nauðsynlegt væri að hafa sérstakan skatt af tekjum sérhvers einstaklings, hversu gamall sem hann væri eða í hvaða hjúskaparstétt eða hvort hann væri giftur, ógiftur o.s.frv. Þar af leiðandi var talið nauðsynlegt að hafa sérstakan skatt af tekjum ungmenna. Menn urðu um það sammála, að þessi skattur skyldi vera mun lægri en af tekjum annarra, en samt skyldi þessi hópur fólks, sem ynni sér fyrir tekjum, eigi að síður greiða einhvern hluta þeirra til þarfa samfélagsins.

Síðan gerist það, að lög þessi koma til framkvæmda 1. jan. 1980. Gerð var á þeim breyting á síðasta þingi, veturinn 1980, og full samstaða náðist um málið. Það var full samstaða um að halda þessum skatti af tekjum ungmenna. Hins vegar var þetta frv. afgreitt mjög seint og við vorum í hinum mestu vandræðum með málið hér á Alþingi. Við vissum það, þegar frv. var samþykkt, að ýmsir erfiðleikar varðandi framkvæmd laganna mundu koma fram á þessu ári. Það hefur líka komið í ljós, að þessir erfiðleikar hafa verið fyrir hendi, bæði varðandi þessa álagningu og ýmislegt annað. Þessi álagning á tekjur ungmenna var að sjálfsögðu allt of seint á ferðinni. En spurningin er: Er það eitt og sér nægileg ástæða fyrir því að fella þennan skatt niður eða er þetta aðeins almennur áhugi á því að finna áróðursmál í þjóðfélaginu eins og oft áður?

Á s.l. vetri töldu foreldrar fram fyrir þessi ungmenni með sérstöku framtali. Menn vissu þá að af þeim tekjum, sem þar væru taldar fram, skyldi greiða 11% skatt. Þeir þm. Sjálfstfl., sem hafa flutt þetta mál hér, vissu að sjálfsögðu þá líka, að það skyldi greiða af þessu 11% skatt. Svo vakna menn upp af einhverjum dauðasvefni á haustdögum og láta sem þeir viti ekkert um þetta mál. Mér finnst þetta mjög undarleg afstaða til mála.

Ég vil aðeins ítreka það, sem ég hef áður sagt varðandi þetta mál í minni framsögu, og legg til að frv. verði fellt.