17.12.1980
Neðri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Frsm. 2. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Eins og þráfaldlega hefur komið fram í umræðum um skattamál nú á undanförnum mánuðum og ítrekað var og endurtekið af hv. síðasta ræðumanni var tilgangurinn sá, þegar gildandi skattalög voru sett, að sú kerfisbreyting yrði jafnframt gerð, að auk skattkerfisbreytingarinnar yrði tekin upp staðgreiðsla á opinberum gjöldum tekjuskattsgreiðenda. Þáv. hæstv. fjmrh., Matthías Á. Mathiesen, lagði fram frv. þessa efnis, sem hins vegar fékk ekki afgreiðslu hér á Alþingi. Vegna þess má segja að öll frekari meðferð málsins hafi verið heldur í skötulíki allt til þessa dags. Menn voru ávallt höndum seinni að afgreiða ýmsar þær breytingar sem gera þurfti á hinum nýju tekjuskattslögum vegna þess að staðgreiðslukerfið fylgdi ekki með, og menn rekur sjálfsagt alla minni til þess hvernig að málum varð að standa á s.l. þingi, þegar dróst von úr viti að afgreiða mjög einfaldar breytingar, sem gera þurfti á tekjuskattslögunum, vegna þess að þau höfðu upphaflega verið hugsuð út frá staðgreiðslu.

Þetta hefur það að sjálfsögðu í för með sér, að fyrst eftir að farið er að leggja á samkv. þessum nýju lögum eiga ýmsir ágallar eftir að koma í ljós, sem laga verður bæði framkvæmdalega í meðferð framkvæmdavaldsins, skattstjóra og ríkisskattstjóra, og eins hvað varðar ýmis ákvæði í þessari nýju lagasetningu. Og mig minnir að hv. þm. Halldór Ásgrímsson hafi sérstaklega tekið það fram hér fyrr í vetur, að menn þyrftu að búa sig undir það að ekki væri hægt að leggja síðustu hönd á þessa lagasetningu fyrr en eftir 1–2 ár, fyrr væri full reynsla ekki á hana fengin, fyrr mætti ekki búast við að umrædd skattalög yrðu fram borin í endanlegri gerð. Það er því ekkert undarlegt þó að menn telji fyrst eftir að farið er að reyna á nýjan lagabálk sem til er orðinn við slíkar aðstæður og hugsaður út frá allt öðru greiðslukerfi skatta en í gildi er — nauðsynlegt að gera ýmsar breytingar á lögunum eftir að menn eru farnir að sjá hvernig framkvæmdin reynist.

Það gerðist tvennt ámælisvert við skattaálagninguna nú í sumar varðandi það sem kallað hefur verið barnaskattar eða skattar á útivinnandi börn og ungmenni.

Í fyrsta lagi dróst von úr viti að leggja þessa skatta á, þannig að álagningin kom ekki fram fyrr en mér liggur við að segja á síðustu vikum ársins. Hjá mörgum fjölskyldum kom því greiðslubyrði þessara sérstöku skattlagningar aðeins fram á síðustu tveimur greiðslumánuðum ársins. Þetta er auðvitað misbrestur á framkvæmd skattalaganna sem kemur illa við margt heimilið og gerir ósköp eðlilegt að menn hugsi með sér hvort við þessar aðstæður sé ekki rétt að fella niður innheimtu þessara skatta, einkum og sér í lagi ef ekki er um mjög miklar fjárhæðir að ræða. Þetta var annað atriðið, þar sem segja má að misbrestur hafi orðið í framkvæmd álagningarinnar frekar en í lagaákvæðinu sjálfu.

Hinn misbresturinn í málinu var ekki í framkvæmd, heldur í lagasetningu. Meðal þeirra breytinga, sem gerðar voru á lögunum um tekju- og eignarskatt, sem nú gilda, var sú, að börn voru nú skattlögð sérstaklega, en tekjur þeirra ekki með tekjum foreldra eins og yfirleitt var áður, en jafnframt var afnuminn sérstakur frádráttarliður, námsfrádráttur, sem heimilaður var áður af tekjum foreldra. Við athugum á tekjuskattsálagningu á fjölskyldur í staðinn fyrir tekjuskattsálagningu á einstaklinga leiddi reynslan í ljós að þessi breyting, niðurfelling námsfrádráttarins og sérsköttun barna, hafði í för með sér að skattbyrði fjölskyldna gat vaxið nokkuð. Allmargar fjölskyldur, einkum fjölskyldur lágtekjufólks og miðlungstekjufólks, þar sem útivinnandi börn við nám voru meðal framteljenda, fengu meiri skatta vegna þessarar breytingar á skattalögunum en þær hefðu fengið ef gömlu reglunni hefði verið fylgt áfram. Þetta er sá meinbugur, sem kom í ljós við álagningu skatta í sumar, sem segja má að sé vegna ákvæða í hinum nýju skattalögum.

Ég vek athygli á því, að það var ekki ætlun löggjafans, þegar þessi nýju skattalög voru sett, að sú breyting að taka upp sérsköttun barna og fella niður námsfrádrátt foreldra leiddi til aukinnar tekjuskattsbyrði fjölskyldna lágtekju- og miðlungstekjufólks, frekar en það væri ætlun Alþingis, að álagningin á börn og ungmenni kæmi ekki fram fyrr en síðustu vikur ársins.

Annað þessara atriða er hægt að leiðrétta. Annað þessara atriða getur Alþingi sjálft leiðrétt, það sem lýtur að lagasetningunni.

Það er áður búið að rekja mjög ítarlega dæmi þess, hvaða áhrif sú breyting að taka upp sérsköttun barna í staðinn fyrir samsköttun með foreldrum og fella námsfrádrátt niður hefur haft á skattlagningu á líðandi ári. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson gerði það mjög ítarlega í umræðum utan dagskrár í Ed. Alþingis 22. okt. s.l. Þá rakti hv. þm. með mörgum dæmum hvernig þessi breyting leiddi til mjög aukinnar skattbyrði hjá fjölskyldum miðlungstekju- og lágtekjufólks sem eiga börn í námi sem unnið hafa fyrir einhverjum tekjum. Sama gerði hv. þm. Magnús H. Magnússon við 1. umr. um frv. þetta í þessari hv. deild. Hann sýndi einnig fram á það í ræðu sinni með mörgum dæmum, hvernig álagningin hefði verkað gagnvart fjölskyldum meðaltekju- og lágtekjufólks og hátekjufólks, hver áhrif þessi breyting á tekjuskattslögunum hefði haft á tekjuskattsaðlögun þessara fjölskyldna.

Svo að farið sé fljótt yfir sögu sýndi hv. þm. Magnús H. Magnússon fram á það í sinni ræðu, að í fyrsta lagi hafi sveitarfélög tapað mjög verulega á þessari breytingu.

Í öðru lagi hafi þessi breyting haft það í för með sér, að lágtekjufjölskyldur stórtapa á henni, hvort sem börn í lágtekjufjölskyldum hafa haft lágar tekjur eða miðlungstekjur.

Í þriðja lagi tapar fjölskylda, sem hefur haft meðaltekjur, einnig á breytingunni ef tekjur barna í fjölskyldunni eru lágar, en fer að vinna á, fer að græða á breytingunni ef tekjur barnanna eru mjög háar.

Í fjórða lagi sýndi hv. þm. fram á að hátekjufjölskyldur stórgræða, stórhagnast á þessari breytingu. Hátekjufjölskyldurnar hagnast því meir sem tekjur barnanna eru hærri.

Ég leyfi mér að fullyrða að þetta hafi aldrei verið tilgangur löggjafans þegar þessi ákvæði voru sett í hin nýju skattalög. Ég tel að það hafi aldrei verið tilgangur löggjafans að sú breyting, að hvert barn og ungmenni, sem vinnur sér fyrir tekjum samhliða skólanámi, fer nú að telja fram sérstaklega, í staðinn fyrir að telja fram með foreldrum sínum og námsfrádráttur fellur niður, yrði til þess fjölskyldur lágtekjufólks og miðlungstekjufólks töpuðu á þessari breytingu skattalega séð, en fjölskyldur hátekjufólks högnuðust stórlega á henni. Ég finn hvergi í öllum þeim umræðum, sem orðið hafa um þessi nýju skattalög hér á Alþingi að þetta hafi verið tilgangur flokka né heldur einstaklinga sem um málið hafa fjallað. Og það finnst mér alveg fráleitt, ef flokkur hæstv. fjmrh. — sem virðist nú ætla að axla allar syndir og öll mistök sem allar ríkisstjórnir kunna að hafa gert í skattamálum, gersamlega án tillits til þess, hvort Alþb. hefur átt aðild að þeim eða ekki — ef hæstv. fjmrh. og flokkur hans ætlar af einhverju misskildu stolti og misskildu yfirlæti að hafna því, að breytingar séu gerðar og lagfæringar á tekjuskattslögunum í þá veru að koma í veg fyrir það, að sú einfalda breyting, sem gerð var á skattalögunum að tilhlutan annarra aðila en Alþb., geti komið þannig út að lágtekjufólkið í landinu stórtapi á henni, miðlungstekjufólkið stórtapi á henni, en hátekjufólkið stórgræði á breytingunni.

Mér finnst það eiginlega orðið dæmi um hroka Alþb. og yfirlæti, að jafnvel svona einföld ábending er tekin mjög illa upp á þeim bæ. Það er alveg útilokað að þm. Alþb. fáist nú orðið til að samþykkja nokkra ábendingu um einfaldar breytingar, jafnvel þó að þeim sé leitt fyrir sjónir í fyrsta lagi, að breytingin kosti ekki ríkissjóð mjög verulegt fé, og í öðru lagi, að hún sé gerð til þess að hátekjufólkið hagnist ekki á henni og lágtekjufólkið tapi ekki á henni.

Það er til vansa, finnst mér, fyrir fylgismenn Alþb., miðað við þann málflutning sem það hefur haft uppi, að þeir skuli vera bæði blindir og heyrnarlausir þegar þeim er bent á slíkt. Það sýnir aðeins fram á hvílík stökkbreyting hefur orðið á þeim flokki við þá nýju forustu sem hann hefur fengið, við þá nýju forustu blúndubolsa sem þeir hv. þm. Vilmundur Gylfason og Jón Baldvin Hannibalsson nefna svo. Ég er hræddur um að Lúðvík Jósepsson, sá ágæti maður, hefði hvorki gerst blindur né heyrnarlaus, meðan hann sat hér á þingi, við svona ábendingu um mjög einfaldar breytingar sem gera þyrfti á skattalögum sem fjmrh. Sjálfstfl. setti og reynast meingölluð að því leyti að þau íþyngja lágtekjufólki, en ívilna hátekjufólki. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefði ekki verið blindur og heyrnarlaus gagnvart slíkri ábendingu.

En hroki þeirra blúndubolsa, sem nú ráða ferðinni í Alþb., er slíkur að þeir hlusta ekki einu sinni á þetta, það kemur þeim hreint ekki við. Þetta er mál sem þeir hafa ekki minnsta áhuga á. Ég vek athygli hv. þm. á því, að hér er verið að ræða um tiltölulega mjög einfalda breytingu á skattalögum, og enginn þm. Alþb. — utan einn, sem er neyddur til að sitja í stól forseta þessarar hv. deildar — hefur nokkurn áhuga á því að fylgjast með umræðum einu sinni, kynna sér hvað menn hafa hér fram að færa né taka þátt í þessu á einn eða neinn veg. Hæstv. fjmrh. er víðs fjarri. Formaður Alþb.- (Gripið fram í: Hann er að flytja mál í Ed.) — Ekki eru þeir allir að flytja mál í Ed., ekki tala þeir allir í einu. — Formaður Alþb., hæstv. félmrh., sér enga ástæðu til þess að vera hér, ekki nokkra. Iðnrh., sem sér það helst til bjargar íslensku atvinnulífi að loka álverinu við Straumsvík og finna það sem hann kallar þjóðlegri störf fyrir fólkið sem vinnur þar, hefur engan tíma til að fylgjast með umræðum af þessu tagi og enginn þm. Alþb. utan sá einn sem situr í forsetastóll. (Gripið fram í: Hefur hann nokkurn áhuga á því?) Hann hefur engan áhuga á því heldur, og þó leyfi ég mér að fullyrða, að af öllum þm. Alþb. er hv. þm. Garðar Sigurðsson sennilega sá eini sem líklegur væri til að hafa enn þá áhuga á málefnum láglaunafólksins í landinu. (Gripið fram í.) Blúndubolsarnir, sem stjórna Alþb., hafa allir stungið af.

Herra forseti. Við þm. Alþfl. höfum þá afstöðu, að okkur finnst mjög eðlilegt og sjálfsagt að allir einstaklingar í þessu þjóðfélagi greiði sanngjörn gjöld af sínu aflafé. Okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt að börn og ungmenni geri það líka, vegna þess að það er snar þáttur í uppeldi að kenna fólki það, að láta fólk venjast við það frá því að það byrjar að afla tekna, að það verður að leggja fram af tekjum sínum til sameiginlegra þarfa, hver eftir efnum og ástæðum. Það er engin ástæða til þess að undanþiggja þar frekar einn en annan. Og það er sjálfsagt og eðlilegt, ef börn afla tekna til jafns við fullorðið fólk, að þau þurfi að leggja fram í sameiginlega sjóði ekkert síður en aðrir.

Við erum því, þrátt fyrir það að þessi álagning kom svo seint fram sem raun ber vitni, ekki fylgjandi því, að það sé nægileg ástæða til að fella alla skatta á börnum og ungmennum niður án þess að fyrst sé leitað annarra leiða. Og hin eðlilegasta leið til þess að teita að er sú leið að koma í veg fyrir að þessi breyting, sem gerð var að tilhlutan Alþingis með hinum nýju skattalögum, verði til þess, sem Alþingi ætlaðist aldrei til, að íþyngja stórlega lágtekju- og miðlungstekjufólki. Athuganir okkar benda til þess, þó svo að þar geti munað nokkru á einstökum fjölskyldum, að að meðaltali verki þessar reglur hinna nýju skattalaga íþyngjandi hjá fjölskyldum, þar sem börn hafa á annað borð einhverjar tekjur, sem nemur um það bil 40 þús. kr. í tekjuskatti á hverja meðalbarnafjölskyldu. Þetta er allnokkru meira hjá sumum fjölskyldum allnokkru minna hjá öðrum, en það lætur nærri, að þetta séu um það bil 40 þús. kr. til íþyngingar hjá láglauna- og miðlungstekjufólki í landinu.

Í framhaldi af því legg ég til á þskj. 265, að 1. gr. frv., sem hér er til umr. verði breytt á þá lund, að álagður tekjuskattur og útsvar, sjúkratryggingagjald og kirkjugarðsgjald á börn, sem voru innan 16 ára aldurs á s.l. ári, verði felld niður séu gjöld þessi samanlögð 40 þús. kr. eða lægri. Fari gjöldin á börnin hins vegar fram úr 40 þús. kr. skuli þau lækkuð um 40 þús. kr. og skiptist lækkunin hlutfallslega milli gjaldanna í sama hlutfalli og þau eru lögð á. Álögð gjöld, sem þegar hafa verið greidd, en afsláttur tekur til, verði síðan að sjálfsögðu endurgreidd. Ég legg til að 1. gr, verði breytt eins og ég hef hér lýst og frv. síðan afgreitt að þeirri breytingu gerðri og samþykkt. Fari svo hefur verið komið í veg fyrir að sú breyting, sem Alþingi gerði við afgreiðslu gildandi laga um tekju- og eignarskatt, verki til íþyngingar fyrir fjölskyldur tágtekju- og miðlungstekjufólks, þar sem meðal framteljenda eru börn sem hafa aflað einhverra tekna. Og ég ítreka enn og aftur: Það var aldrei tilgangur löggjafarvaldsins, að breytingin hefði þau áhrif. Og þar sem það var ekki tilgangur löggjafarvaldsins, þá tel ég skýlaust að löggjafinn verði að leiðrétta þessa yfirsjón, því að hér eru ekki miklar fjárhæðir í húfi, þó að það geti munað heimilin mjög verulegu, einkum og sér í lagi núna í jólamánuðinum.

Mér finnst alveg fráleit sú afstaða flokks hæstv. fjmrh., Alþb., að ávallt þegar rætt er um smávægilegar lagfæringar á skattalögum, sem þessi flokkur átti ekki þátt í að leggja á þjóðina, skuli hroki þeirra vera slíkur að þeir skuli ávallt loka bæði augum og eyrum fyrir öllum röksemdum, öllum óskum og öllum beiðnum af því tagi og velja þann kostinn að vera ekki viðstaddir þegar umræða fer fram um málið.