28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

30. mál, skipulag loðnulöndunar

(Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 31 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh.:

„Hvað hyggst sjútvrh. gera til þess að koma í veg fyrir, að loðnuaflinn á komandi vetri dreifist þannig á löndunarhafnir, að útgerðarstaðir á sunnanverðum Austfjörðum verði afskiptir með öllu vegna stöðvunar veiða eða takmörkunar á heildarafla?“

Hér gildir í raun hið sama um hafnir á Miðausturlandi eins og horfir og reyndar einnig um Suðurland.

Frá því að þessi fsp. var fram lögð hafa gerst tíðindi nokkur varðandi heildarloðnuveiðina, svo sem menn þekkja. Er ekkert síður nú, miðað við hinar nýju aðstæður, ástæða til að hyggja að hvort möguleiki sé til að finna til þess færar leiðir að jafna loðnulönduninni niður á staði svo sem frekast væri kostur.

Menn þekkja forsögu þessara mála: ákveðið skipulag og dreifingu loðnunnar um landið með sérstökum flutningasjóði mynduðum af gjaldtöku af allri landaðri loðnu. Þannig var flotanum dreift á löndunarhafnir og þannig fór allt verksmiðjukerfið í raun og veru í gang. Í kjölfar þessa voru endurbætur víða framkvæmdar og ráðist í fjármagnsfrekar framkvæmdir, enda var þá miðað við miklu meiri veiði en nú er um talað og ekki aðvaranir uppi þá um breytingar svo sem nú eru, og sífellt syrtir í ál hjá spámönnum okkar.

Í fyrra varð hér á mikil breyting. Þar kom til miklu einangraðra veiðisvæði, sem svo takmarkast enn frekar í ár að því er séð verður, og sömuleiðis ráðstafanir opinberra aðila um takmarkanir og stöðvun. Afleiðingin varð sú, að margar verksmiðjur fengu enga eða nær enga loðnu, m.a. þær sem höfðu búið sig alveg sérstaklega undir það með bættri tækni, betri útbúnaði o.s.frv., enda veiðarnar áður beinn hvati þar að. Nú stefnir allt í það sama. Allri loðnu er landað á ákveðnum tíma meðan hún enn er fjærst landi. Útlitið fyrir sömu verksmiðjur er enn dekkra og fleiri verksmiðjur koma inn í myndina og því von að áhyggjur skapist ekki síður en í fyrra þegar þessi mál voru hér rækilega til umr., en þá í lok veiðitímabils og vart unnt að gera ráðstafanir til úrbóta.

Enn eru möguleikar á að leita lausnar og því er spurt, ekki síst í ljósi síðustu tíðinda, hvort aðgerða sé að vænta af hálfu hæstv. ráðh. til einhverrar jöfnunar eða til einhvers skipulags í loðnulöndun nú og eins síðar í vetur.