17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er eins og fyrri daginn, að menn eiga svolítið erfitt með að ræða þetta mál eins og það liggur fyrir, og nú hv. síðasti ræðumaður sem er eitthvað hneykslaður á því, að börn innan 16 ára aldurs skuli vera kölluð börn í þessu frv. eins og gert er í sjálfum skattalögunum. Þar er ekki talað um unglinga, þar er talað um börn, og það er einungis notað sama orðalagið hér. En ég get mætavel skilið að mönnum, sem aldrei hafa lesið skattalögin og kynnt sér þau, verði það á eins og þessum hv. þm. að geta ekki talað af viti um þessi mál, slá um sig og ætla öðrum mönnum einhverjar undarlegar hvatir, haldinn af þeim sjálfur. Og ég afsegi það með öllu, að verið sé að slá undir belti með þessu frv. Hitt fullyrði ég, að það sé slegið undir belti þegar nýir og óvæntir skattar eru lagðir á löngu eftir að viðkomandi eru hættir að afla sér tekna og hafa þess vegna ekki eigið sjálfsaflafé undir höndum til að greiða skattana með. Og það er meira að segja svo í okkar skattlöggjöf, eins og hv. 3. þm. Austurl. veit mætavel sjálfur, að ef þeir menn, sem skattlagðir eru, verða fyrir heilsubresti, þá er venjan sú, að skattar eru lækkaðir á þeim þó að búið sé að leggja á, vegna þess að greiðsluþolið er skert. Þetta er kjarni málsins. Og það þýðir ekki að tala um þetta á öðrum grundvelli en þeim, að þetta frv. er lagt fram vegna þess, hversu álagningin kom seint, ekki af neinum öðrum ástæðum, það liggur alveg skýrt fyrir. Það hefur aldrei verið talað um þetta mál á öðrum grundvelli. Þess vegna er ekki hægt að verja þetta með einhverjum almennum skattalegum rökum, vegna þess að þegar þessi skattalög voru sett fyrir einhverjum árum var aldrei út frá því gengið að börn innan 16 ára yrðu látin sitja á hakanum varðandi álagninguna. Það er ekki hægt að tala út og suður um mál, enda kemur það fram, að fjölmörg sveitarfélög hafa fellt niður útsvör á þessum barnatekjum. Og forsendurnar fyrir því að gera það eru ævinlega þær sömu. Þessi börn eru farin í skóla, þau eru hætt að afla sér tekna, þau hafa ekki greiðslugetu til að standa undir þessum opinberu gjöldum.

Ég vil ítreka enn það sem ég hef áður sagt um þessi mál, að ég tel að ef það á að viðgangast áfram að börn og unglingar séu skattlögð, þá sé hið opinbera ekkert of gott að innheimta þá skatta um leið og skyldusparnaðurinn er innheimtur, um leið og tekna er aflað. Ég fellst ekki á afturvirka skatta með þessum hætti á þessa þegna þjóðfélagsins sem þjóðfélagið verndar í annarri löggjöf fyrir slíkri kröfu sem hér er um að ræða. Fjárskuldbindingar, sem þetta fólk stofnar til, eru ógildar. Og rökin fyrir því að fella barnaskattana niður eru þau hin sömu, afskaplega einföld og blátt áfram, að skattstofurnar voru of seinar, börnin voru hætt að afla sér tekna, höfðu eytt peningunum í námsbækur, skólaföt og annað því um líkt. Til þess að kenna þeim rétta siði í sambandi við það þjóðfélagslega uppeldi, sem alltaf er verið að tala um þegar verið er að ræða um að þau eigi að standa skil á opinberum gjöldum eins og aðrir, þá er vitaskuld ætlast til þess, að þær greiðslur komi af þeirra sjálfsaflafé, en ekki af einhverju sníkjufé hjá foreldrum þeirra. Það er einfalt.

Ég sakna þess nú satt að segja, að hæstv. fjmrh. er ekki hér, en ég sé að varaforsrh. er mættur í stólnum hæstv. dómsmrh., og það nægir mér fullkomlega. Í „Beinni línu“ viðhafði hæstv. forsrh. þau orð, að það þyrfti að leiðrétta þetta með barnaskattana. Hann talaði um þetta á sinn hátt, og vel mátti skilja að honum þótti Matthías Á. Mathiesen ekki hafa staðið sig nógu vel þegar hann var fjmrh. með því að ætlast til þess að börn greiddu skatta. Hann talaði um að það þyrfti að leiðrétta þetta og það yrði leiðrétt. Nú langar mig að fá upplýsingar um það hjá hæstv. dómsmrh., — vegna þess að alveg gegn von minni og mér mjög á óvart hefur skattamálasérfræðingur ríkisstj. lagst gegn málinu eftir athugun, —þá langar mig til að fá það upplýst hjá hæstv. dómsmrh., hvort einhverjar umræður hafi átt sér stað, annaðhvort í ríkisstj. eða þeim hluta þingflokks Sjálfstfl., sem styður ríkisstj., um það, að þær leiðréttingar, sem hæstv. forsrh. talaði um á „Beinni línu“ kæmu til framkvæmda. Ég held að það væri mjög upplýsandi ef við fengjum að vita hvort þetta mál hafi verið rætt í ríkisstj., hvort hæstv. forsrh. hafi beitt sér fyrir málinu eins og hann lofaði spyrli í útvarpinu. Við vitum að „bein lína“ í útvarpinu er reyndar til þess ætluð að gefa þegnunum tækifæri til að ræða beint við ráðamenn landsins og bera fram sínar ábendingar og kvartanir. Og það er ætlast til þess, að menn geti treyst því sem það er sagt. Mér leikur þess vegna forvitni á að vita hvernig á þessu máli hefur verið tekið í ríkisstj. eða þá í þeim hluta Sjálfstfl., sem styður ríkisstj., hvort það hafi komið þar til umræðu.

Hv. 3. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, hefur gaman af því að tala um það, að menn hafi átt að vita það áður og átta sig á því, að barnaskattarnir yrðu lagðir á með þessum hætti. Ég vil minna á það, að núv. hæstv. forsrh. viðhafði þau orð í sambandi við þau skattalög, sem nú eru í gildi, að það væri eiginlega — ég man ekki — siglt út í bláinn eða eitthvað því um líkt. Hann vissi ekkert um það í rauninni hvernig þessi skattalög mundu verka. Og rökstuðningurinn fyrir því, að nefnd var skipuð með fulltrúum þingflokkanna til þess að fylgjast með framkvæmd skattalaganna, var einmitt sú, að menn óttuðust á s.l. vetri að ýmislegt mundi fara aflaga á þessu fyrsta ári, eins og hv. 3. þm. Austurl. reyndar viðurkenndi áðan að gerst hefði. Hann þarf þess vegna að bæta um betur ef hann ætlar að sannfæra menn um að það hafi verið til þess ætlast og það sé eðlileg og réttlát framkvæmd þessara laga að láta börnin sitja á hakanum, eins og gert var við þessa álagningu.

Ég veit að hv. þm. gera sér grein fyrir því, að það hefði ekki verið hægt að bjóða einum einasta fullorðnum manni það, að hann yrði að greiða alla sína skatta á tveim síðustu útborgunardögunum, eftirlaunamanni það, að á hann yrðu lagðir himinháir skattar eftir að hann væri hættur vinnu. Það er tekið tillit til þess, eins og ég sagði áðan, ef gjaldþol hefur minnkað, ef viðkomandi er hættur að afla tekna. Þetta lögmál hlýtur með sama hætti að eiga við um börnin eins og það á við þá sem fullorðnir eru. Framhjá þessu verður ekki hægt að ganga.

Svo er það náttúrlega út af fyrir sig undarleg latína, ef manni hefur orðið á í messunni, að hann megi ekki leiðrétta sínar fyrri misgerðir. Ef Alþingi hefur orðið á í sambandi við skattlagningu á börnum og Alþingi viðurkennir að það hafi ekki haldið nógu vel á þessum málum, þá ber Alþingi að sjálfsögðu skylda til að leiðrétta sínar fyrri misgerðir. Og auðvitað er það svo um skattalög, ekki síst í 70% verðbólgu eins og nú er, að þau hljóta stöðugt að vera til endurskoðunar. Það má lagfæra ýmislegt. Og það er líka af þeim sökum sem fjölmörg mál bíða nú afgreiðslu fyrir þessi jól, að löggjafinn, þeir sem með löggjafarvaldið fara, þykjast sjá það, að með ýmsum hætti megi betrumbæta þá löggjöf sem áður var. Þess vegna eru það ekki rök í máli, að þessi lög og þessi lög hafi einhvern tíma verið sett. Það geta aldrei orðið nein lög. Tími lögbókanna er löngu liðinn, við höfum lagasafn í staðinn. Og starf löggjafans er að vera vakandi í því, hvar mál megi betur fara.

Herra forseti. Ég harma það, að hæstv. forsrh. skuli ekki sýna þessu máli þann áhuga að túlka sín viðhorf hér, hvorki við 1. né 2. umr. málsins. Hann er málsnjall maður og þingreyndur, og ég veit að ef hann legði sig fram mundu margir þeir, sem hafa nú kosið hann til forustu í þjóðmálum, hrífast af rökfimi hans og málsnilli og jafnvel snúast til þessa máls, þótt framgangur þess sýnist örðugur eins og á stendur.