17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Dómsmrn. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Út af þeirri fsp., sem hv. 7. landsk. þm. beindi til mín, vil ég aðeins taka þetta fram:

1. Allir þingflokkar bera sem kunnugt er meiri og minni ábyrgð á núgildandi skattalögum.

2. Það var ljóst, að margt hlaut að verða á huldu um framkvæmd laganna. Að þeim var það mikið nýjabragð.

3. Ég heyrði ekki yfirlýsingu þá sem hv. þm. ræðir um að hæstv. forsrh. hafi gefið í áminnstu útvarpsviðtali eða þættinum „Beinni línu.“

Að því er varðar umræður um hina svonefndu barnaskatta í ríkisstj. vil ég geta þess, að þar hefur þá borið á góma oftar en einu sinni að sjálfsögðu. Okkur var það ljóst, að framkvæmdin hefði orðið seinni og öðruvísi en æskilegt er. Ber að sjálfsögðu að harma það þegar framkvæmdin er ekki eins og skyldi, ekki síst þegar lagðir eru á skattar, sem er yfirleitt ekki gleðiefni þeim sem þá eiga að greiða. En það hefur ekki verið talið fært að fella þessa skatta niður af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að fara út í að telja hér upp. Margar af þeim ástæðum hafa menn rætt hér í kvöld. En það er ekkert nýtt, að svipuðum athugasemdum sé hreyft. Og það vita allir, sem við þessi mál hafa fengist, að ævinlega má benda á eitt og annað þungbært við álagningu og innheimtu opinberra gjalda.