17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

176. mál, vörugjald

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Okkur fjh.- og viðskn.-mönnum í Nd. gafst kostur á að fjalla um þetta mál á sameiginlegum fundum með fjh.- og viðskn. Ed. Við erum því ekkert ókunnugir málinu og höfum getað fylgst með þeim umræðum, sem hafa orðið í fjh.- og viðskn. Ed., og þeim upplýsingum, sem þar hafa verið gefnar. Ég þarf því ekki að hafa mörg orð núna við 1. umr. um þetta mál, aðeins lýsa því yfir, að við þm. Alþfl. erum andvígir frv.

Ég vil þó benda á örfá atriði í mjög stuttu máli.

Í fyrsta lagi leyfi ég mér að vekja athygli hv. þm. á því, að þegar fjárlagafrv. var lagt fram fyrr á þessu hausti var teknamegin í því gert ráð fyrir tekjum af aðlögunargjaldi sem átti samkv. samningum, sem við höfum gert, og samkomulagi og lögum um aðlögunargjald að falla úr gildi frá og með næstu áramótum. Engu að síður gerði hæstv. ríkisstj. ráð fyrir að hafa tekjur af þessu gjaldi á árinu 1981 þó það yrði þá ekki til. Hins vegar gerði hæstv. ríkisstj. ekki ráð fyrir því, að útgjaldamegin á fjárlögum væri neinu ráðstafað af því aðlögunargjaldi sem átti að innheimta á næsta ári. Útgjaldamegin á fjárlögum var aðeins verið að ráðstafa eftirstöðvum af aðlögunargjaldi sem lagt var á á yfirstandandi ári, er ekki hafði verið greitt.

Nú virðist hæstv. ríkisstj. hafa tekið ákvörðun um að framlengja ekki viðkomandi aðlögunargjald og fellur þá færslan á tekjum vegna aðlögunargjalds á árinu 1981 niður úr tekjuhlið fjárlaga. Þá skapast að sjálfsögðu fjáröflunarvandi vegna þess að þessu bókfærða aðlögunargjaldi tekjumegin í fjárlögum hafði ríkisstj. ráðstafað útgjaldamegin til annarra þarfa. Nú hafði hæstv. ríkisstj. ekki lengur þetta gjald til ráðstöfunar, sem notað var til að fullnægja almennri fjárþörf ríkissjóðs, þó að það ætti að vera til sérstakra nota fyrir iðnaðinn. Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. gripið til þess ráðs — um leið og aðlögunargjaldið er fellt niður, sem hafði það að yfirskini að vera aðstoð við íslenskan iðnað — að leggja á iðnaðinn öllu hærri fjárhæð, eða öllu heldur á þá landsmenn sem nota íslenska iðnaðarframleiðslu, þannig að aðgerðin stangast gersamlega á við upphaflegan tilgang hæstv. ríkisstj.

Hæstv. fjmrh. tók það fram, að hér hefðu verið á ferli framkvæmdastjórar nokkurra gosdrykkjaverksmiðja og sælgætisgerða sem hefðu verið að mótmæta þessum skatti, þessir menn væru ýmsu vanir og mundu sjálfsagt ekki bregða sér mikið við þetta gjald. En af einhverjum ástæðum gleymdi hæstv. ráðh. að taka það fram, að hér voru fleiri á ferðinni í Alþingishúsinu en nokkrir forstjórar gosdrykkja- og sælgætisgerða. Hér voru einnig á ferðinni í Alþingishúsinu formælendur félaga iðnverkafólks sem þiggur lægst laun allra launþega í landinu. Hæstv. ráðh. lét þessara forsvarsmanna láglaunafólksins að engu getið. Hann hafði engan áhuga á að greina frá því, hæstv. ráðh., að þeir hefðu átt erindi við sig. Kannske hafa forustumenn íslensks iðnverkafólks ekki náð tali af ráðh. A.m.k. var ekki á máli hans að heyra hér áðan að hann hefði gefið neinn gaum að því, hvað þessir menn höfðu að segja. A.m.k. taldi hann enga ástæðu til að geta þess, að þeir hefðu við sig rætt svo mikið sem eitt aukatekið orð. (Gripið fram í.) Þeir ræddu hins vegar bæði við okkur í Alþfl. og formenn fjh.- og viðskn. beggja deilda til þess að koma á framfæri mjög alvarlegum viðvörunum og eindreginni andstöðu við þetta gjald. Þetta er ein ástæða þess, að við þm. Alþfl. munum greiða atkv. gegn þessu frv. Við viljum ekki standa í því hér á Alþingi að vera með annarri hendinni að reyna að styðja við bakið á íslenskum iðnaði, en síðan með hinni hendinni á sama tíma að kippa stoðunum undan þessum sama iðnaði. Við viljum ekki vera að reyna með sérstökum aðgerðum að vernda atvinnu starfsfólks í öl- og sælgætisgerðum, en með hinni hendinni að ógna afkomuöryggi þess. Og það segir kannske sína sögu, hæstv. ráðh., að forsvarsmenn iðnverkafólks, sem komu hér í Alþingishúsið til að afhenda mótmæli sín við þessu gjaldi, hafa ekki talað við hæstv. fjmrh. Forsvarsmenn iðnverkafólks á Íslandi telja það sem sé ekki ómaksins vert að ræða við hæstv. ráðh. um þetta mál. Þeir hljóta þá að þykjast vera svo vissir um neikvæð viðbrögð hæstv. ráðh. Hins vegar töluðu þeir við flesta aðra sem málið varðar.

Ég ætla ekki að fara frekari orðum um þetta mál, en það er ýmislegt sérkennilegt í því. M.a. telur hæstv. fjmrh. ástæðu til að gera sérstaka breytingu á þeirri meðferð sem ýmsar sælgætisvörur mundu ella hafa fengið ef sama hefði verið látið ganga yfir allar vörur. Það kemur m.a. fram í því, að álag á negrakossum verður öllu lægra en það hefði þurft að vera. Þar er e.t.v. að verki áhugi Alþb. á málefnum þriðja heimsins.