28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

30. mál, skipulag loðnulöndunar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans og grg. í þessum málum í heild. Ég óttast að hér sé um aukið vandamál að ræða og það sé því ekki síður ástæða til að ræða það nú en á þeim tíma sem fsp. var fram borin.

Annmarkarnir á þessu skulu sannarlega viðurkenndir, það er alveg ljóst. Olíukostnaðurinn hjá flotanum vegur vissulega þungt. Og þá vaknar auðvitað enn þá spurningin um veiðitímann og hvenær á að leyfa veiðarnar, hvenær þær eiga að taka gildi, og reynt verði að taka upp aukið skipulag þar. Eins og minnst var á var í fyrra mjög rætt um það, m.a. meðal sjómanna, hvort ekki hefði átt að bíða þess, að loðnan gengi nær landinu. Það er að vísu álitamál og fáir þess umkomnir að dæma það fyrir fram hvort svo eigi að gera. En ég held að ljóst sé, að því minni sem veiðin verður eða leyft er að veiða af loðnu, þeim mun meiri þörf sé einmitt aukinnar skipulagningar varðandi löndun og dreifingu loðnunnar, því hér er um geysilega dýrar verksmiðjur að ræða sem eru verkefnalausar og þarf einhvern veginn að koma til móts við.

Við mig ræddu í gær tveir forsvarsmenn verksmiðju á Austurlandi. Þeir drógu ekkert úr kvíða sínum. Það má kannske lesa það út úr fsp., að ég fullyrði að enginn afli berist á þessar hafnir. Við skulum vona að svo verði ekki, en ég óttast að svo verði. Þeir sögðu líka að þetta mál væri ekki auðvelt og þeir gerðu sér alveg ljósa annmarkana, ekki síst eftir að þessi svartari skýrsla hefur komið fram sem sjútvrh. rakti hér áðan. En þeir bentu á það, að þrátt fyrir olíukostnað flotans og marga þætti, sem þar spiluðu inn í, væri þar einnig annar kostnaður sem þyrfti að koma til álita við allar aðgerðir. Þar væri um að ræða kostnað verksmiðjanna sjálfra vegna fjármagns — vegna vaxta — og þar yrði að líta á hvort eitthvað kæmi á móti til greiðslu. Menn yrðu því að skoða dæmið í heild. Og þeir sögðu að það kynni að verða svo, að í staðinn fyrir að beina aðstoð sinni að loðnuflotanum yrði aðstoð hins opinbera til að koma við þessar verksmiðjur, og sú beina aðstoð yrði þá að koma fyrr en síðar, ef svo illa færi sem þeir kviðu, til þeirra verksmiðja sem út undan yrðu, þeirra fyrirtækja sem þar treysta á í meira eða minna mæli.

Ég vil aðeins ítreka að áhyggjur manna eru miklar. Menn viðurkenna erfiðleikana, ekki síst í ljósi síðustu staðreynda — eða síðustu spáa um þetta því staðreyndir eru vitanlega ekki síðustu spár um þetta. Því ítreka ég það, að ég vænti þess, að svigrúm gefist til þess, samkomulag náist um það með einhverjum hætti, að reynt verði að koma á einhverju skipulagi sem tryggi betri dreifingu loðnunnar en til þessa hefur verið.