28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

30. mál, skipulag loðnulöndunar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er ekkert nýtt að þau vandamál, sem hér eru til umr. séu rædd á Alþ. og mjög eðlilegt vegna þess að hér er ekki eingöngu um að ræða hagsmuni þeirra sjómanna og þeirra útgerðaraðila sem byggja afkomu sína á þessum veiðum, heldur einnig verksmiðjanna víða um landið og þess verkafólks sem hefur treyst á það á hverju ári að hafa af þessari vinnslu verulegar tekjur. Það virðist vera orðið mun erfiðara að eiga við þessi mál eftir þau tíðindi sem hafa borist, ekki aðeins nú, heldur einnig á s.l. vetri, og útlitið í raun og veru mun dekkra varðandi það að hafa stjórn á dreifingu loðnuafla. Menn undra sig nokkuð á því, hvað dreifingin hefur orðið mikil. Ég hygg að meginskýringin sé sú, að það eru ákveðnar verksmiðjur sem hafa yfir að ráða skipum og leggja að þeim að koma til heimahafnar og vilja leggja á þær útgerðir, sem verksmiðjurnar þá yfirleitt eiga, allverulegan aukakostnað til að fá eitthvað upp í þann mikla fastakostnað sem verksmiðjurnar hafa án tillits til þess, hvort einhver vinnsla fer fram. Það eru eingöngu þær verksmiðjur sem hafa yfir slíku að ráða sem geta með beinum hætti stýrt eigin skipum.

Ég er þeirrar skoðunar, að það verði ekki hjá því komist að hafa hér einhverja stýringu á. T.d. var það svo á s.l. vetri, að ég held að það hafi verið of mikið magn sem ákveðnar ríkisverksmiðjur tóku á móti í lok veiðitímabilsins. Ég vil beina því til hæstv. sjútvrh., hvort ekki sé ástæða til að takmarka það magn, sem verksmiðjur geta tekið á móti og geymt í einu, með tilliti til þess að sæmileg nýting verði á því hráefni sem þær taka á móti. Ég held að það hafi verið svo, sérstaklega á s.l. vetri, að nýtingin hafi lækkað nokkuð vegna þess að hráefni hafi verið geymt of lengi á sama tíma sem aðrar verksmiðjur voru verkefnalausar.