18.12.1980
Efri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

171. mál, jöfnunargjald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd út af ummælum hv. þm. Eiðs Guðnasonar um það, að við sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu séum að taka undir skattastefnu núv. hæstv. ríkisstj. með þessu ákvæði til bráðabirgða. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þarna er um að ræða lækkun á skattstofni um eitt prósentustig og þarna er verið að heimila ríkisstj. að gera þessar ráðstafanir að höfðu samráði og eftir viðræður við forráðamenn EFTA og Efnahagsbandalagsins.

Ég vil í þessu sambandi minna hv. þm. á það, að Alþfl. á dálítið mórauða sögu í skattamálum nú síðustu árin. (Gripið fram í: Hann er nú ekki einn um það.) Jú, hann er einn um það. Hann hefur haldið því mjög á lofti og gerði það á sínum tíma, að það ætti að lækka alla skatta, en svo tók hann, ef ég man rétt, fullan þátt í þeirri gífurlegu skattahækkun sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar beitti sér fyrir á sínum tíma. Og hann hefur síðan þá, honum hefur runnið blóðið til skyldunnar síðan þá um að styðja ýmis skattamál, framlengingu ýmissa þeirra skatta sem voru jafnvel heldur stórfelldari en skattahækkanir núv. hæstv. ríkisstj. Ég vil að vísu ekki gera þarna mikinn mun á, en við höfum stundum gleymt að geta garmsins Ketils í þessu sambandi. Ég held að það megi oftar en gert er minna hv. þm. Alþfl. á forsögu þeirra í skattamálum.