18.12.1980
Efri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

171. mál, jöfnunargjald

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég tek eftir því, að hv. þm. Lárusi Jónssyni er æðimikið niðri fyrir. Hann varði hér löngum tíma áðan til að útskýra það, að stuðningur Sjálfstfl. — að þeim hluta sem hann er forsvarsmaður hans — við þetta ákvæði til bráðabirgða þýddi eina þrjá hluti í senn. Eiginlega væru þeir á móti þessu, þetta ætti að vera brýning til ríkisstj. um að gera það sem ég er að biðja ríkisstj. um að gera, þannig að þeir fylgdu í rauninni minni stefnu. Í annan stað væri þetta bara heimild til að fara í ferðalag til þess að gá að því, hvort þetta væri hægt. Og í þriðja lagi væri þetta auðvitað ekki aukin skattheimta. Það að hækka skattinn um 2% þýddi ekki aukna skattheimtu. Ég fer að halda að samvistir hv. þm. við ýmsa þá aðila innan embættiskerfisins og sérfræðinga, sem hafa verið að fjalla um þessi mál, hafi smitað hann, því að í þeirra málflutningi rakst allt hvað á annars horn, rétt eins og það gerir nú hjá þessum hv. þm.

Hv. þm. lét sig líka hafa það að fara rangt með að Alþfl. talaði um lækkun allra skatta. Alþfl. hefur talað um breytingar á skattforminu þannig að tekjuskatturinn, sem er mjög óréttlátur skattur, fari lækkandi, og hann barðist harðri baráttu fyrir því í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Hv. þm. getur þakkað fyrir, að hann fékk ekki hækkun á þeim skatti líka, og þakkað okkur það.

En auðvitað þarf ríkið að hafa sínar tekjur. Og það er mjög ánægjulegt fyrir hv. þm. — eftir að hafa barist hér harðri baráttu gegn vörugjaldinu í gær og fyrradag — að standa nú upp sem sérstakur forsvarsmaður þess að jöfnunargjaldið — eða er það aðlögunargjaldið eða er það ígildið — verði hækkað um þau 2% sem hér er um að ræða.

Mér þykir þetta harla einkennilegur málflutningur, enda sagði hv. þm. að hér væri um tvö óskyld mál að ræða, jöfnunargjald og aðlögunargjald. En síðan er ákvæði til bráðabirgða bæði um aðlögunargjald og jöfnunargjald og meira að segja í þriðja lagi um ígildi. Hvernig getur þetta dæmi gengið upp?

Nú hefur hv. þm. Lárus Jónsson lýst því yfir, að það séu engar forsendur fyrir því að hækka jöfnunargjaldið. En hæstv. ráðh. hefur beðið um að það orð, sem inni er og heitir aðlögunargjald, verði strikað út. Verður þá útkoman sú, til að þessi samstaða geti haldist, að það standi ekkert nema ígildi eftir í því lagaákvæði til bráðabirgða sem þm. Framsfl. og þess arms Sjálfstfl., sem Lárus Jónsson er talsmaður fyrir, hafa nú sameinast um í einni sæng? Ég get ekki séð annað en þetta sé sú lausn sem þeir geti helst sæst á í þessu efni.

Ég tók eftir því líka, að hæstv. ráðh. sá ástæðu til að taka það fram, að algjör samstaða væri í ríkisstj. um þetta mál. En um hvað samstaðan væri, hvort það var um hækkun jöfnunargjaldsins, um framtengingu aðlögunargjaldsins eða þetta ígildi, það liggur hins vegar ekki ljóst fyrir á þessari stundu. Það væri gott að fá það upplýst nú áður en þetta mál fer lengra.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði líka um það áðan, að auðvitað yrði ekkert ákveðið í þessum málum fyrr en að undangenginni ítarlegri athugun. Hvað hafa mennirnir verið að gera? Og á nú að hespa þessu af athugunarlaust og athuga svo málin á eftir? Ég sé alls enga ástæðu til þess.

Ég vil segja það að lokum, að sú áskorun eða brýning til ríkisstj., sem í þessu felst af hálfu hv. þm. Lárusar Jónssonar um það að fara nú í ferðalög, getur í sjálfu sér verið góðra gjalda verð. en það getur verið, eins og hv. þm. Eiður Guðnason tók fram áðan, að ekki verði um auðugan garð að gresja, a.m.k. ekki í þeirri sendinefnd sem fór þessa för fyrir rúmum 18 mánuðum. Mér er kunnugt um það, að 3/4 hlutar þeirrar sendinefndar hafa ekki geð í sér til að fara slíka ferð aftur. En það getur verið að ferðaglaðasti og ferðareyndasti maðurinn, sem nýlega er kominn um hálfan hnöttinn, sé tilbúinn að fara. Og kannske vilja einhverjir fara með honum.