28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

30. mál, skipulag loðnulöndunar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um veiðitímann, að ákveða annan veiðitíma. Um þetta var mikið fjallað. Ég sagði áðan að ég féllst á kvótafyrirkomulag að tillögu loðnuskipstjóra og gerði það m.a. með tilliti til þess, að ég vonaði að þá yrði hagkvæmnin öll sem mest og látin sitja í fyrirrúmi. Þetta held ég að hafi gefið góða raun. En þegar þetta var ákveðið settu þeir ýmis skilyrði, sem eru ákaflega vel skiljanleg ef gæta ætti mestu hagkvæmni, m.a. að þeir mættu veiða loðnuna þegar þeim hentaði og þegar hún væri feitust og gæfi mest af sér. Ég sá mér ekki fært að leggjast gegn þessu, því að það var þegar ljóst, miðað við 52 skip og 658 þús. lesta afla, að afkoman yrði vægast sagt mjög á mörkum.

Hér hefur áður verið nefnt af öðrum, sem hafa tekið til máls, og hafa þeir tekið undir það með mér, að ekki er hægt að leggja flutningskostnaðinn á flotann einan, eins og nú er ástatt. Það verður að finna þar aðrar leiðir. Olíukostnaður hefur auk þess aukist. Þetta er því orðið töluvert erfiðara viðfangs allt saman.

Hitt er svo annað mál, að einmitt þetta kvótakerfi stuðlar að því að sumir bíða. Og ef ég man rétt eru ekki allir loðnubátar enn farnir af stað. Ég hygg að a.m.k. tveir bíði enn. Þetta eru skip, sum hver, sem vilja landa annars staðar en nú þykir borga sig og vilja bíða með kvóta sinn þar til nær er komið þeim höfnum og hafa þá að sjálfsögðu minni olíukostnað þótt loðnan sé ekki eins verðmæt. Ég hygg að verði fróðlegt að sjá, hvort þessi tilraun fær fullan framgang, — því miður eru blikur á lofti um það nú, — hvort ekki verður meiri dreifing að eigin vali skipanna en hefur verið í kapphlaupinu sem ríkt hefur áður um sem mestar veiðar.

Það er sjálfsagt að verða við beiðni hv. 1. þm. Vestf. um skýrslu um spár og tillögur í þessu sambandi og hvernig þessi mál hafa þróast. Ég hef reyndar þegar rætt það við vísindamenn og skal ítreka það að fá skýrslu þeirra um það.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að erfiðleikar loðnuflotans eru náttúrlega stærstir í þessu sambandi. Því verður áreiðanlega ekki neitað. Vitanlega eru vandræði verksmiðjanna víða mikil. Margar hverjar hafa gert sölusamninga og geta e.t.v. ekki við þá staðið ef niður er skorið af magninu svo mikið sem gert hefur verið til bráðabirgða. En vandi loðnuflotans er tvímælalaust langsamlega stærstur. Því er eðlileg spurning, hvað skuli til bragðs taka. Ég er ekki reiðubúinn að svara þeirri spurningu hér og nú. En að sjálfsögðu er þegar byrjað að hugleiða það. Spurningin er sú: Eru til aðrir fiskstofnar þar sem við erum frekar aflögufærir, og getum við kannske leyft þessum flota að dýfa þar niður veiðarfæri, ef ég má orða það svo? Er óhætt að láta þennan flota hafa eitthvað af þorski? Þar er vitanlega þröngt setinn bekkurinn. Er óhætt að auka eitthvað síldveiðar fyrir þennan flota? Ég get alls ekki svarað því nú. En þetta mun verða skoðað vandlega og samráð haft við vísindamenn um það.

Hv. 3. þm. Austurl. nefndi að takmarka mætti móttekið magn hjá vissum verksmiðjum. Þetta er hugsanleg leið. En ég vek athygli á því, að sjómenn munu mótmæla þessu mjög og leggja á það áherslu, eins og kom fram þegar ég svaraði hæstv. fyrirspyrjanda, að fá að stunda þessar veiðar með sem mestri hagkvæmni og landa þar sem olíukostnaður þeirra verður minnstur. En ég tel erfiðleika á því einnig.