28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

344. mál, lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni að leggja fram fsp. á þskj. 31 til hæstv. fjmrh. um lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja. Tilefni þessarar fsp. er að á tveim síðustu þingum hafa verið lögð fram frv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá o.fl. er lutu að lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja. Um hefur verið að ræða, þegar þessi frv. eru lögð fram, að fá heimild Alþingis til að hækka niðurfellingu á gjöldum til samræmis við verðlagshækkanir sem orðið hafa.

Á síðasta þingi lögðu ég og hv. þm. Árni Gunnarsson fram brtt. við þetta frv., þess efnis, að heimilt væri að hækka þessa undanþágu á bifreiðum öryrkja árlega í hlutfalli við verðlagshækkanir á hverjum tíma. Til þess þyrfti þá ekki að koma, að svo sjálfsagt mál yrði lagt fyrir hvert Alþingi til samþykktar. Einnig komu þá fram fleiri brtt. og ábendingar um leiðréttingu á þessu ákvæði tollskrárlaga er lutu að fjölda þeirra bifreiða, sem féllu undir þetta ákvæði, og skilyrðum er fylgdu þessari undanþágu.

Það var skoðun fjh.- og viðskn. Nd., að þetta mál þyrfti nánari endurskoðunar við, og óskaði fjh.- og viðskn. Nd. eftir að fram komnar brtt. yrðu dregnar til baka á þeirri forsendu að endurskoðun færi fram á þessu ákvæði tollskrárlaga í sumar með hliðsjón af þeim breytingum og ábendingum, sem fram höfðu komið, og tillögur til breytinga yrðu síðan lagðar fyrir í byrjun næsta þings. Í því sambandi vil ég — með leyfi forseta — lesa upp bréf það er formaður fjh.- og viðskn. sendi fjmrh., en það kom fram við 3. umr. um þetta mál, 16. apríl s.l., er formaður fjh.- og viðskn., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, gerði grein fyrir þessu máli. Með leyfi forseta, segir formaður n. við þessa umr.:

„Nefndin hefur orðið ásátt um að skrifa fjmrn. svo hljóðandi bréf og stíla það til tolladeildarinnar:

„Í framhaldi af umræðum á fundi fjh.- og viðskn., þar sem þér voruð viðstaddur, óskar nefndin eftir því, að ákvæði 27. liðs 3. gr. laga um tollskrá o.fl. verði tekin til endurskoðunar, m.a. með tilliti til meðfylgjandi brtt. Greinargerðir og tillögur til úrbóta óskast sendar nefndinni fyrir 10. okt. n.k.“ “

Flm. brtt. féllust á að draga framkomnar tillögur um breytingar til baka í trausti þess, að slík endurskoðun færi fram og tillögur yrðu lagðar fram til úrbóta í byrjun þessa þings. Því er lögð fram eftirfarandi fsp. til hæstv. fjmrh.:

„a) Hefur farið fram endurskoðun á 3. gr. laga um tollskrá o.fl., 27. lið, er lýtur að lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja?

b) Ef svo er, má þá vænta þess, að lagt verði fyrir Alþ. nú frv. um breyt. á þessu ákvæði laga um tollskrá o.fl. — og í hverju yrðu þær breytingar fólgnar?“