18.12.1980
Efri deild: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

171. mál, jöfnunargjald

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er fyrst og fremst um framlengingu á 3% jöfnunargjaldi sem lögleitt var fyrir fáum árum. Ég átti hlut að því sem iðnrh. þá að undirbúa og fylgja fram þessu frv. og er því að sjálfsögðu samþykkur að það verði framlengt.

Varðandi ákvæði til bráðabirgða tel ég einnig sjálfsagt að heimilað verði að leggja á til viðbótar 2% gjald, en fénu verði varið til iðnþróunar. Hæstv. viðskrh. hefur bæði nú og áður lýst afstöðu sinni til aðlögunargjalds og hvernig það er til komið, og það er sjálfsagt, að við notkun þessarar heimildar í ákvæði til bráðabirgða verður bæði að hafa hliðsjón af þörfum iðnaðarins og milliríkjasamningum. Það verður hvort tveggja að sjálfsögðu gert við mat á þessu máli. Ég segi já við þessari tillögu.