18.12.1980
Efri deild: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

171. mál, jöfnunargjald

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef samið um framlengingu jöfnunargjaldsins og er því að sjálfsögðu samþykkur, að frv. nái fram að ganga. Hins vegar hef ég rakið tilvitnanir í mál manna hér á Alþingi varðandi framlengingu aðlögunargjaldsins, þegar það var til meðferðar á sínum tíma, og einnig vitnað til yfirlýsinga sérstakra sendimanna ríkisstj. um að aðlögunargjaldið yrði ekki framlengt. Þá hef ég einnig vitnað til sendiherra um þeirra skoðun á málinu svo og getið um undirtektir fulltrúa aðildarþjóða EFTA og EBE sem eftir hefur verið leitað.

Ég tel það ekki í þágu íslenskra hagsmuna að framlengja aðlögunargjaldið þvert ofan í gagnstæð loforð. Ég er reiðubúinn til að taka málefni iðnaðarins upp á vettvangi EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu, að sjálfsögðu í samræmi við aðild okkar að EFTA og samninga við Efnahagsbandalagið.

Þrátt fyrir þessa meinbugi málsins, sem ég tel ónauðsynlega, segi ég já.

Frv., svo breytt, samþ. með 13 shlj. atkv. og afgr. til Nd.