18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt. Undir nál. rita allir nefndarmenn. Við urðum sammála um að mæla með samþykkt frv. Það var nokkur metingur um það í nefndinni, hvort ég eða hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ætti að mæla fyrir málinu. Eftir alllangar umræður varð niðurstaðan sú, að formanni var falin framsaga.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Hér er um það að ræða, að réttur í þessum lífeyrissjóði skuli frá og með árinu 1981 miðast við lífeyrisgreiðslur í sjóðinn, en það hefur fram að þeim tíma ekki verið svo. Hér er um samræmingu að ræða við aðra löggjöf, þ. á m. lögin um eftirlaun aldraðra. Hefur stjórn Lífeyrissjóðs bænda farið þess á leit, að frv. þetta verði flutt, svo að reglur sjóðsins séu í samræmi við það sem almennt gerist í þjóðfélaginu.