28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

344. mál, lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja

Guðrún Helgasóttir:

Herra forseti. Ég vil minnast nokkrum orðum á þessa fsp. hv. 10. landsk. þm., Jóhönnu Sigurðardóttur, sem mér finnst full ástæða til að sé borin fram.

Ég bar fram á síðasta þingi viðbótartillögu varðandi bifreiðar fyrir öryrkja, þar sem farið var fram á að eignartíminn væri styttur frá því sem nú er. Ég tel alveg nauðsynlegt, að þær breytingar verði gerðar, og skora á fjmrh. að vinda bráðan bug að framkvæmd þess máls. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um ástæður til þess. Það er öllum ljóst, að þessi tími er of langur.

Annað mál hyggst ég bera fram sem frv. og vil geta þess, þó að það sé ekki tilbúið, ef ekki verður séð til þess að sú breyting komi inn í þingið,. en það er um ákvæði í 27. tölul. 3. gr. laga um tollskrá, nr. 120 frá 1976, en þar er talað um lækkun eða niðurfellingu af gjöldum bifreiða fyrir öryrkja. Þar segir í 4. mgr.:

„Aðilar, sem njóta tollívilnana samkv. 41. tölul. [en sá töluliður veitir þeim, sem hafa atvinnu af akstri, ívilnun á tollum], geta eigi jafnframt fengið tollívilnun samkv. þessum tölulið.“

Þetta þýðir í stuttu máli að öryrki, sem sækir um tollalækkun vegna atvinnufyrirtækis, getur aðeins fengið aðra ívilnunina, en ekki báðar. Það segir sig sjálft, að þetta er ákaflega óréttlátt. Niðurfellingin eða lækkunin til handa öryrkjanum er aukaívilnun fyrir hann vegna örorku hans og þess vegna afar ósanngjarnt að hann njóti ekki beggja ívilnananna.

Ég vil biðja hæstv. ráðh., ef hann er að ljúka endurskoðun á tollalögunum, að taka þetta atriði inn í — annars mun ég bera fram frv. um það efni.