18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég lýsi afdráttarlausri andstöðu minni við það frv., sem hér er til umr., og tel mig tala þar af talsverðri reynslu því að ég átti sæti í yfirskattanefnd um langan tíma og síðar árum saman í niðurjöfnunarnefnd Vestmannaeyja.

Til skamms tíma sluppu margir menn með sjálfstæðan atvinnurekstur, jafnvel flestir þeirra, svo til alveg við greiðslu tekjuskatts og útsvars þótt ekkert hafi á skort í „lífsstandard“ þeirra. Útgerðarmenn t.d., sem jafnframt voru skipstjórar, fengu gjarnan, að mestu vegna afskriftarreglna, neikvæðan tekjuskatt í mynd ónýtts persónuafsláttar, eða hvað það nú heitir á hverjum tíma, sem gekk upp í greiðslu útsvars, sem þá var oftast einnig lágt. Um tíma fengu menn jafnvel afganginn greiddan í peningum. Ýmsir þessara manna lifðu þó kóngalífi, sigldu tvisvar á ári eða oftar með fjölskyldur sínar og annað eftir því.

Á sama tíma urðu hásetar þessara sömu manna og aðrir undirmenn þeirra að greiða verulegan hluta tekna sinna í opinber gjöld og gátu lítið leyft sér miðað við skipstjórana. Olli þetta geysilega mikilli óánægju og það að vonum. Ef þessir hinir sömu útgerðarmenn seldu skip sín eða misstu þau, þannig að tryggingafélög bættu skaðann, urðu þeir gjarnan stóreignamenn án þess að borga nokkurn tíma fimmeyring í opinber gjöld af eignaaukningunni.

Þótt ég hafi hér aðallega minnst á útgerðarmenn, sem jafnframt eru skipstjórar, á þetta við — í mismunandi mæli þó — um flesta þeirra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur.

Fyrir nokkrum árum, að mig minnir 1972, var það kerfi lögfest við álagningu útsvars, sem nú er í 59. gr. laga um tekju- og eignarskatt, um áætlun persónulegra tekna þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur. En það er einmitt þetta, sem frv., sem hér er til umr., gengur út á að fella niður. Engir teljandi erfiðleikar hafa, svo að mér sé kunnugt um, verið á framkvæmd útsvarsálagningar á grundvelli þessara reglna, nema þá kannske fyrsta árið sem þær giltu, enda finnst mönnum almennt þetta sanngjarnt, einnig þeim sem þessum reglum er beint gegn. Ég sé alls enga ástæðu til að ætla að svo geti ekki einnig orðið um beitingu þessara reglna við álagningu tekjuskatts.

Mín reynsla er sú, að skattstjórar beiti þessari reglu mjög í hófi, í fullmiklu hófi að margra mati. Samkv. svari hæstv. fjmrh. um daginn við fsp. um þetta efni og samkv. upplýsingum frá skattyfirvöldum virðist mér að þessari reglu hafi einnig verið mjög hóflega beitt á yfirstandandi ári. Gat hv. 3. þm. Vestf. um nokkur dæmi þess og tók þó aðeins hæstu hópana. En hjá sumum stéttum, sem vinna við eigin atvinnurekstur, eru viðmiðunarreglurnar allt niður í 2.2 millj í árstekjur.

Áætlun um tekjur bænda eru talsvert flóknari, enda er hvergi eins mikill munur á kjörum manna innan sömu stéttar, og lítið eða ekkert virðist gert af forsvarsmönnum þeirrar ágætu stéttar til að ráða þar bót á. Þó virðist mér að áætlanir skattyfirvalda um tekjur bænda séu mjög hóflegar eins og hjá öðrum stéttum.

Herra forseti. Ég tel að samþykkt þess frv., sem hér er til umr., muni í reynd lögfesta rétt margra starfshópa til skattfrelsis með löglegum hætti og í sumum tilvikum jafnvel með ólöglegum hætti. Ég er algerlega andvígur samþykkt frv. og legg til að það verði fellt.